Guðmundur Ólafsson lektor emeritus sendi mér góðan póst: Helgi Haraldsson prófessor í Ósló sendi mér þessar og mér þótti þær eiga heima hjá þér. Ellivísur Björn Ingólfsson í Grenivík: Víst er ég annar en var ég fyrst við það skal ég þó glaður una Ég …

Guðmundur Ólafsson lektor emeritus sendi mér góðan póst: Helgi Haraldsson prófessor í Ósló sendi mér þessar og mér þótti þær eiga heima hjá þér.

Ellivísur

Björn Ingólfsson í Grenivík:

Víst er ég annar en var ég fyrst

við það skal ég þó glaður una

Ég hef reyndar ekki mikið misst

nema minnið, vitið og náttúruna.

Þótt ég virðist í speglinum ungur enn

við athugun nánari verður það ekki hrakið

að Elli kerling í glímu mig sigrar senn

því svoleiðis kvensu leggur víst enginn á bakið.

En Hjálmar Freysteinsson sér björtu hliðarnar:

Þá ég eldist meir og meir

mun það engu spilla

því býsna lengi batna þeir

sem byrja nógu illa.

Æðarkóngurinn kominn af hafi eftir Pál Jónasson í Hlíð:

Í kóngsa var hálfgerður hrollur

svo hann fékk sér 11 kollur,

á Farfuglabar

(og fann á sér þar)

og fór svo að kíkja á kollur.

Limra eftir Kristbjörgu F. Steingrímsdóttur:

Eigir þú vorbarn að vini

vængjað af fiðruðu kyni

má það ekki henda

sú hörmung að lenda

í hungruðu kattarins gini.

Kristján Karlsson kvað:

„Ég fer,“ sagði faldabrík,

„klukkan fimm suðrí Grindavík.“

Hvílík endemisreisa

og heimska og hneisa.

En það hélt henni engin flík.

Og enn kvað hann:

„Skammist þér yðar, ó, skvísa,“

mælti skakki turninn í Písa.

„Ég er einungis bákn

og alls ekkert tákn

um eitthvað sem vildi' ekki rísa.“

Úr Dósentsvísum, sem út komu 1937 og voru tileinkaðar Alþingi og ríkisstjórn og voru eftir ýmsa:

Bak við tjöldin ýta öld

oft mun gjöldin hreppa,

þar um skjöldu, veg og völd

vissir höldar keppa.

Áður og nú.

Áður var krossinn kirkjunnar merki

og kristninnar tákn um alla byggð.

Nú skal guðfræðin kennd af klerki

sem krossinum breytti í hamar og sigð.