Hörður Ingþór Tómasson fæddist 11. desember 1953. Hann lést 6. janúar 2024. Útför fór fram í kyrrþey.

Elsku pabbi.

Hversu rík vorum við og erum við að hafa átt þig sem föður, þó að það sé ólýsanlega sárt að kveðja erum við ennþá rík því við áttum þig og eigum. Þú ert besti vinur okkar, fyrirmynd og besti kennari okkar.

Við erum rík af minningum með þér, hvort sem það er af ferðalagi, við veiði eða við aðstoð í öllu því sem okkur datt í hug að framkvæma. Þú hafðir alltaf tíma til að spjalla við okkur um allt milli himins og jarðar. Þú varst góður í því að sjá ef eitthvað var að hrjá okkur, áttir auðvelt með að fá okkur til að spegla hlutina með þér og hjálpaðir okkur að finna lausnir. Einnig var aldrei langt í húmorinn hjá þér og eigum við öll einhverjar sögur um skemmtileg skot sem við fengum frá þér og öll búum við að því að húmorinn þinn lifir í okkar. Þú kenndir okkur svo margt að svona grein nær aldrei utan um það en við ætlum að gera okkar besta til að miðla þeim fróðleik til afa barnanna þinna.

Þó guðir að styttu verði

og bál í ösku breytist.

Þá verða hetjur að nýjum stjörnum

sem leiða okkur á réttan stað.

(HIH)

Þú verður alltaf í okkar hjarta og huga, elskum þig alltaf.

Ragnar, Hörður Ingþór, Birgir Örn, Gréta Ósk, Jón Heiðar og Ásgeir.