Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson
„Við erum hægt og bítandi að ryðja ljónum úr vegi, þau eru ekki öll farin en þeim fækkar, hverfa eitt af öðru. En hvort við náum að ryðja þeim öllum burt verður tíminn að leiða í ljós,“ segir Vilhjálmur Birgisson formaður…

„Við erum hægt og bítandi að ryðja ljónum úr vegi, þau eru ekki öll farin en þeim fækkar, hverfa eitt af öðru. En hvort við náum að ryðja þeim öllum burt verður tíminn að leiða í ljós,“ segir Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins í samtali við Morgunblaðið, spurður um ganginn í kjaraviðræðum breiðfylkingar verkalýðsfélaga og Samtaka atvinnulífsins.

„Þetta þokast áfram, þannig er staðan núna,“ segir hann.

Enn er nokkuð í land í kjaraviðræðunum og ekki útlit fyrir að samningar náist á allra næstu dögum. Verið er að ræða blandaða leið prósentuhækkana og krónutöluhækkana, þar sem laun hinna lægstlaunuðu myndu taka krónutöluhækkunum en aðrir fengju 3-4% hækkun að jafnaði.

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segir viðræðurnar í ágætu ferli. „Á meðan menn sitja við erum við ennþá vongóð,“ segir hann og á ekki von á að til stórra tíðinda dragi á næsta sólarhring. „Það er mjög erfitt að spá fyrir um hversu langan tíma þetta mun taka,“ segir Ástráður. » 2