Ingvi Hallgrímsson fæddist 17. ágúst 1939. Hann lést 20. janúar 2024.

Útför hans fór fram 31. janúar 2024.

Elsku afi minn og langafi drengjanna minna. Nú ert þú farinn yfir í sumarlandið.

Það er sárt að kveðja þig og söknuðurinn er óneitanlega mikill. Þegar ég hugsa um þær stundir sem við áttum saman í gegnum árin hlýnar mér um hjartarætur því allar voru þær góðar og einlægar.

Í barnæsku gat ég alltaf treyst á að þú vildir leika, fara í gönguferðir og brasa. Þegar langafastrákarnir fæddust hver af öðrum gast þú ætíð farið með þeim niður í geymslu að smíða eða út að brasa.

Þú hafðir mikla unun af því að aðstoða fólkið í kringum þig og þá sem stóðu þér nærri. Orðið hvunndagshetja á vel við og lýsir vel hvaða mann þú hafðir að geyma.

Þú varst óþreytandi að aðstoða fólkið í blokkinni ykkar ömmu, salta gangstéttirnar eða setja upp jólaljósin fyrir þá sem ekki sáu sér það fært.

Það var alltaf svo notalegt að koma til ykkar ömmu. Ég á eftir að sakna þess að sjá þig sitjandi í stólnum í sólstofunni flettandi í blöðum, eða fyrir utan húsið að moka snjó eða sópa stéttina eins og þér einum var lagið.

Elsku afi minn, takk fyrir allt og ég elska þig.

Þín

Hanný Inga og langafadrengir.