Stefnandi Jón Steinar segir málið í raun og veru snúast um það hvort hægt sé að meina mönnum að dvelja á sínu eigin heimili eða ekki.
Stefnandi Jón Steinar segir málið í raun og veru snúast um það hvort hægt sé að meina mönnum að dvelja á sínu eigin heimili eða ekki. — Morgunblaðið/Eyþór
Grindvíkingurinn Stefán Kristjánsson hefur stefnt íslenska ríkinu, með dómsmálaráðherra í fyrirsvari, vegna banns lögregluyfirvalda við för hans til Grindavíkur, dvöl í eigin húsi og eigin fyrirtæki

Grindvíkingurinn Stefán Kristjánsson hefur stefnt íslenska ríkinu, með dómsmálaráðherra í fyrirsvari, vegna banns lögregluyfirvalda við för hans til Grindavíkur, dvöl í eigin húsi og eigin fyrirtæki. Jón Steinar Gunnlaugsson fer með málið fyrir hans hönd og hefur Héraðsdómur Reykjavíkur þegar staðfest beiðni um flýtimeðferð.

Þess er krafist að staðfest verði með dómi að stefnanda sé og hafi verið óskylt að hlíta ákvörðun Ríkislögreglustjóra frá 13. janúar sem gerði Grindvíkingum óheimilt að fara til Grindavíkur.

Jón Steinar segir í samtali við Morgunblaðið að stefnandinn byggi þetta á ákvæði 71. greinar stjórnarskrár sem kveður á um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Telur stefnandinn að stjórnvöldum sé ekki heimilt að meina mönnum að fara heim til sín og á starfsstöð sína án þess að stjórnvöld geti að lágmarki sýnt fram á það að öðrum stafi hætta af þeirri för. Stefán rekur fyrirtækið Einhamar Seafood ehf.

„Yfirvöld hafa vísað í lög um almannavarnir til stuðnings heimildum sínum til þess að beita fólk þessu valdi, en þau lög ganga ekki framar stjórnarskránni,“ segir Jón.

Jón man sjálfur ekki eftir öðru eins máli. „Dómkrafan er í raun og veru um það hvort hægt sé að meina mönnum að fara heim til sín.“

Hann vonast til þess að hægt verði að flytja málið munnlega og fá niðurstöðu í það í þessum mánuði eða í mars. Málið verður þingfest á morgun. hng@mbl.is