Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur, eitt sinn í vist hér á bænum, skrifar grein á Vísi um samkvæmni Viðreisnar, síðasta flokksins til að tala upphátt fyrir því að Ísland gangi Evrópusambandinu á hönd.
Tilefnið er grein Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur formanns Viðreisnar á sama stað, þar sem hún vildi báknið burt og sagði að í ríkisstjórn yrði fyrsta skref Viðreisnar að fækka ráðuneytum.
Hjörtur spyr því hvort Viðreisn sé e.t.v. líka búin að gefa ESB-aðild upp á bátinn, því það hafi þveröfug markmið fyrir Ísland, eins og sást þegar hrunstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sótti um aðild. Þá kom skýrt fram það sjónarmið ESB að íslensk stjórnsýsla væri allt, allt of lítil.
Þetta þykir Hirti að vonum mótsagnakennt: „Trúverðugleiki þess að gagnrýna umfang hins opinbera hér á landi er vitanlega enginn þegar meginstefna Viðreisnar felur í sér að það yrði þvert á móti stóraukið. Væri forystumönnum flokksins raunverulega umhugað um það að draga úr umfangi hins opinbera væri stefna hans ljóslega ekki að ganga i ESB sem hefði í för með sér mikla útþenslu hins opinbera samkvæmt gögnum sambandsins sjálfs! Er að furða að Gallup skuli mæla flokkinn með minna fylgi en hann hlaut í síðustu kosningum – í stjórnarandstöðu?“