Róbert Ólafsson fæddist á St. Jósefs-spítala í Hafnarfirði 23. desember 1966. Hann lést á heimili sínu 23. janúar 2024.

Blóðforeldrar hans eru Þorleifur Gíslason, f. 15. júní 1944, d. 28. febrúar 2023, og Ólöf Ragnhildur Ólafsdóttir, f. 18. janúar 1949.

Maki Ólafar, Ólafur Benediktsson, f. 4. febrúar 1944, ættleiddi Róbert og ólst hann upp hjá þeim Ólöfu.

Róbert ólst upp í Reykjavík og var næstelstur systkina sinna. Systkini hans voru Anna Bára, Benedikt, Tanya Marie, Geir og Birna. Börn Benedikts eru Sandra Dís og Elín Ólöf. Börn Tönyu eru Jamie Pickard, Svava Pickard og Hafdís Jana, barn Geirs er Anna Rós og börn Birnu eru Katrín Vera, Júlía Mist, Ólafur Logi og Baltasar Nóel.

Róbert kynnist fyrrverandi sambýliskonu sinni, Lilju Huld, árið 1985, börn þeirra eru: 1) Albert Marel, f. 29. október 1990. Maki hans er Þórdís Arna Jakobsdóttir. Börn þeirra eru Jakob Darri, Harpa Hlín og Hlynur Darri. 2) Eyþór Darri, f. 15. ágúst 1993, d. 14. ágúst 2011. 3) Berta María, f. 20. júlí 2001, barn hennar er óskírður Bertuson.

Lilja og Róbert slitu samvistum og kynnist hann seinni sambýliskonu sinni, Oddnýju Árnadóttur, árið 2009. Börn þeirra eru Elísabet Oddný, f. 8. desember 2010, og Alexander Ingi, f. 16. apríl 2012. Oddný og Róbert slitu samvistum.

Róbert lærði vélvirkjun við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Hann hafði gaman af listsköpun, tónlist, útivist, ferðalögum, stangveiði og skotveiði. Hann var mestalla ævi sjálfstætt starfandi og var í eigin atvinnurekstri frá upphafi árs 1988. Þar má nefna hreingerningar, meindýraeyðingu en undir lokin pípulagningar.

Róbert var afar laghentur og léku öll verk í höndunum á honum. Hann hafði unun af bílum og átti fjölskyldubíl sem hefur gengið ættliða á milli.

Útför hans verður gerð frá Áskirkju í dag, 6. febrúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Ég veit ekki hvar ég ætti að byrja þessi orð en ég hitti Robba fyrst þegar ég var að verða 15 og hann 18 ára. Ég hafði séð hann tilsýndar því það fór ekki framhjá neinum hversu hárprúður hann var á þessum tíma.

Við byrjuðum svo saman ári seinna. Við vorum saman í 24 ár og eignuðumst við þrjú börn. Við náðum að kaupa okkur þrjár íbúðir og tugi bíla á þessum árum, Robba fannst nú ekkert leiðinlegt þetta bílabrask enda handlaginn að eðlisfari. Við rákum líka fyrirtæki og vorum okkar eigin herrar og gekk þetta vonum framar.

Árið 2009 skildu leiðir okkar, sumir urðu hissa en aðrir ekki, þannig er nú bara lífið. Lífið heldur áfram á meðan við erum upptekin við eitthvað annað.

Árið 2011 lentum við í hræðilegri lífsreynslu þegar drengurinn okkar, Eyþór Darri, lést af slysförum. Við náðum að styðja við bakið á hvort öðru í þessu ferli og var það ómetanlegt.

Frá 2019 eignuðumst við fjögur barnabörn sem Róbert var afar stoltur af.

Ég votta börnunum okkar, þeim Alberti Marel og Bertu Maríu, börnunum hans Róberts og Oddnýjar, þeim Elísabetu og Alexander, foreldrum og systkinum hans Róberts, mína dýpstu samúð og öllum sem eiga eftir að sakna hans.

Eitt sinn verða allir menn að deyja.

Eftir bjartan daginn kemur nótt.

Ég harma það en samt ég verð
að segja,

að sumarið líður allt of fljótt.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson)

Blessuð sé minning þín Robbi.

Lilja Huld Steinþórsdóttir.

Kæri frændi, ég á svo erfitt með að trúa því að þú sért farinn. Það huggar mig þó að vita að þú ert kominn til Eyþórs Darra sem þú saknaðir svo mikið. Ég lærði margt af þér, t.d. að vera blíður og hjartahlýr í viðmóti, þú varst fyrirmynd í líkamsrækt og í toppformi. Aldrei heyrði ég þig tala illa um nokkurn mann. Það var þægilegt að tala við þig og við gátum talað um allt milli himins og jarðar. Sorgin er mikil en ég veit að þú ert kominn á betri stað og hlakka ég mikið til að hitta þig í eftirlífinu.

Reynir Eyjólfsson.