Valdís Vilhjálmsdóttir fæddist í Reykjavík 2. nóvember 1938. Hún lést 24. janúar 2024 á hjúkrunarheimilinu Mörk.
Foreldrar hennar voru Vilhjálmur Bjarnason, f. 1900, d. 1993, og Elín Kristjánsdóttir, f. 1912, d. 1993. Systkini Valdísar eru Hilmar, f. 1934, d. 2016, Kristbjörg, f. 1945, og Bjarni, f. 1951.
Árið 1957 gekk hún að eiga Stefán Hirst og eignuðust þau þrjú þrjú börn; andvana fæddan dreng, f. 1959, d. 1959, Elínu, f. 1960, og á hún tvo syni og fjögur barnabörn, og Þóru, f. 1966, gift Baldri Þorgeirssyni og eiga þau tvö börn. Valdís og Stefán skildu 1981. Árið 1990 giftist Valdís Tryggva Hannessyni, f. 1935, d. 2012. Börn Tryggva eru: Björk, f. 1955, gift Björgvini Magnússyni og eiga þau þrjú börn og sjö barnabörn, Sjöfn, f. 1958, gift Ásbirni Baldurssyni og eiga þau tvær dætur og þrjú barnabörn, og Þórir, f. 1973, giftur Rakel Tryggvadóttur og eiga þau tvo syni.
Valdís starfaði hjá Íslandsbanka þegar hún lét af störfum vegna aldurs og þar áður hjá Alþýðubankanum. Á yngri árum vann hún við verslunar- og skrifstofustörf.
Útför Valdísar fer fram frá Langholtskirkju í dag, 6. febrúar 2024, kl. 13.
Slitinn er nú strengur – strengur sem ekki hefur komið hnökri á í rúm 60 ár. Valdís vinkona mín kvaddi þessa jarðvist 24. janúar sl. á hjúkrunarheimilinu í Mörkinni.
Mikill samgangur var á milli heimila okkar – margar útilegur með fjölskyldum á árum áður og seinna meir margar utanlandsferðir með Valdísi og eiginmanni.
Valdísi var einkar lagið að hafa notalegt í kring um sig og ég hef oft sagt að jafnvel þótt hún byggi í tjaldi væri huggulegt hjá henni. Hún var ein af fáum sem ég þekki sem hlakkaði til haustsins því þá væri farið að skyggja og hægt að kveikja á kertum. Slæm gigt var búin að hrjá þessa vinkonu mína í mörg ár og ágerðist með árunum og við þessu var því miður engin varanleg lækning, en vinur okkar, góður gigtarlæknir, hélt þó verkjum hennar eins mikið niðri og mögulegt var. Af þessum sökum átti hún erfitt með gang og almenna hreyfingu, en þrátt fyrir þessa erfiðleika bar hún sig alltaf vel og gerði lítið úr því – hún hafði svo mikið jafnaðargeð.
Þegar ég kom til hennar í þar síðustu viku þegar hún var nýkomin aftur í Mörkina og ég kom bara til að óska henni til hamingju með að vera komin þangað aftur, sagði hún við mig: „Ég verð nú ekki lengi hér,“ en hvorugri okkar datt í hug hversu sannspá hún var.
Nú er þessi vinkona mín komin í sumarlandið til Tryggva síns og ég kem vonandi til með að sjá hana aftur þegar þar að kemur.
Það var stórkostlegt að fá að hafa Valdísi sem vinkonu í öll þessi ár og ég mun svo sannarlega sakna hennar mikið.
Fyrir hönd okkar hjóna sendi ég dætrum hennar og ættingjum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minningar mínar um þessa einlægu vinkonu mína, Valdísi, munu aldrei gleymast.
Hjördís (Hjödda).
Valdís, mín kæra vinkona, hefur lokið lífsgöngu sinni áttatíu og fimm ára. Hann var fallegur maímorgunninn 1980 þegar við hittumst í fyrsta sinn í Alþýðubankanum á Laugavegi, báðar búnar að ráða okkur til starfa í fyrirhuguðu útibúi bankans á Suðurlandsbraut.
Okkar beið tuttugu ára samstarf og ævilöng vinátta. Þetta voru góð og skemmtileg ár þrátt fyrir mikla vinnu því „bjútíbúið“ okkar stækkaði og þandist út. Það var ekki ónýtt að hafa Valdísi sér við hlið. Hún var einstaklega falleg, glaðvær og vel liðin af öllum, hvort sem það voru ungir starfsmenn, viðskiptavinir eða bara sambýlingar okkar á Suðurlandsbraut 30, en húsið hýsti stéttarfélög og lífeyrissjóði.
Hún þekkti alla og gat sagt mér hvort þessi héti Gunni eða Palli. Það var mikill styrkur fyrir mig. Svo var bara aldrei leiðinlegt í vinnunni okkar, það var einstaklega góður andi á Suðurlandsbrautinni og átti Valdís stóran þátt í því að skapa það jákvæða og góða andrúmsloft. Oft var skvett úr klaufunum og margt gert í frítímanum. Við hjónin fengum hálendisveikina og keyptum okkur jeppa og auðvitað buðum við Valdísi og Tryggva með í jeppaferð.
Þau smituðust fljótt og áttum við saman margar ferðir inn á hálendið.
Eitt þótti okkur mjög skemmtilegt, að okkur var strax í upphafi ruglað saman. Það var ótrúlegt að fólk sem kannski þekkti aðra okkar mjög vel gat ruglast á okkur. Eitt sinn vorum við saman á tjaldstæði og sátum í sólinni þegar bíll kom keyrandi.
Bílstjórinn var með opinn gluggann og sagði um leið og hann ók framhjá okkur: Það þarf ekki glöggan mann til að sjá að þið eruð systur. Við bara hlógum og samsinntum því.
Ég kveð mína kæru vinkonu með þökk fyrir allar okkar yndislegu stundir og bið henni blessunar.
Dætrunum og öllum afkomendum hennar sendi ég innilegar samúðarkveðjur.
Guðrún Helga
Jónsdóttir.