Umferðin á landinu færist enn í aukana það sem af er nýju ári og voru umferðarmet slegin í janúarmánuði bæði á hringveginum og á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt tölum Vegagerðarinnar.
„Umferðin í janúarmánuði á Hringvegi reyndist nær sex prósentum meiri en í janúar árið 2023. Þetta leiddi til þess að aftur er sett met en umferð í janúarmánuði hefur aldrei mælst meiri á Hringveginum,“ segir í frétt á vef Vegagerðarinnar um umferðarmælingar á hringveginum og í frétt um umferðina á höfuðborgarsvæðinu segir að meiri umferð en í nýliðnum mánuði hafi ekki áður mælst á höfuðborgarsvæðinu í janúar. Jókst umferðin þar um tæp fjögur prósent miðað við sama mánuð fyrir ári en fyrra met var slegið í janúar í fyrra.
Á hringveginum jókst umferðin í janúar mest yfir mælisnið á Norðurlandi, eða um 8,6%, en minnst jókst umferð um Austurland, eða um 0,4%. Bent er á að á einstökum mælisniðum varð mesta aukning umferðarinnar í mælisniði á Mývatnsöræfum, eða um 14,9%. Hafa ber í huga að þar er um að ræða þriðja umferðarminnsta mælisniðið. 2,8% samdráttur varð um mælisnið á Fagradal, milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar.
Aukin umferð yfir öll mælisnið á höfuðborgarsvæðinu
Mest jókst umferðin á hringveginum á föstudögum, eða um 9,4%, en samdráttur átti sér stað í umferðinni á mánudögum.
Á höfuðborgarsvæðinu jókst umferð yfir öll mælisnið en mest yfir mælisnið á Vesturlandsvegi ofan Ártúnsbrekku, eða um 4,3%, en minnst jókst umferð á Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi, eða um 2,9%. omfr@mbl.is