Aðalgeir Aðalsteinsson fæddist 28. júní 1934 á Stóru-Laugum í Reykjadal, S-Þing. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 23. janúar 2024.
Foreldrar hans voru Helga Jakobsdóttir, f. í Hólum 11. september 1900, d. 20. desember 1967, og Aðalsteinn Aðalgeirsson, f. á Stóru-Laugum 18. maí 1899, d. 18. desember 1979.
Fjögurra ára gamall fluttist Aðalgeir með foreldrum sínum í nýbýlið Laugavelli, byggt 1938 á jörð Stóru-Lauga. Þar ólst hann upp ásamt þremur systrum sínum: a) Þuríði, f. 14. október 1931, d. 8. október 1990. Eftirlifandi eiginmaður hennar er Björgvin Sigurgeir Haraldsson myndlistarmaður. b) Halldóru, f. 2. apríl 1938, d. 18. september 2006. c) Hólmfríði, f. 21. apríl 1942, d. 21. desember 2022. Hennar maður var Skúli Þorsteinsson, kennari og bóndi, f. 3. ágúst 1936, d. 25. janúar 2020.
Aðalgeir bjó á Laugavöllum til 25. júní 1961 og sinnti þar öllum hefðbundnum bústörfum. Hann stundaði nám við Laugaskóla 1949-1952 þaðan sem hann lauk landsprófi og gagnfræðaprófi. Aðalgeir sótti nám í orgelleik við Söngskóla þjóðkirkjunnar 1955 og lauk prófi frá Kennaraskólanum árið 1968 og starfaði sem kennari í 42 ár, lengst af við Oddeyrarskólann á Akureyri eða frá 1968 til 2001. Þar áður kenndi hann við Hrafnagilsskóla, Barnaskóla Akureyrar, í Ásgarði í Kjós og Reykdælaskólahéraði.
Hinn 30. desember 1961 giftist Aðalgeir Grétu Sigurðardóttur, f. 2. nóvember 1933, d. 4 september 1997. Þau bjuggu í Brekkugötu 39, Akureyri. Dætur þeirra eru: 1) Sigrún, f. 18. maí 1960, framhaldsskólakennari, gift Þorsteini G. Gunnarssyni blaðamanni og upplýsingafulltrúa. 2) Helga, f. 30. desember 1964, garðyrkjufræðingur og landslagsarkitekt, gift Óskari Inga Sigurðssyni, rafmagnsiðnfræðingi og framhaldsskólakennara. Synir þeirra eru Sindri Geir, Almar Smári og Bergur Ingi. 3) Kristín, f. 5. maí 1970, barnfóstra í Tucson í Arizona í Bandaríkjunum. Sambýlismaður hennar er Sudeepto Chakraborty doktor í rafmagnsverkfræði. Synir hennar eru Aron Daníel og Ian Thor.
Aðalgeir tók alla tíð virkan þátt í félagslífi. Hann var í ungmennafélaginu Eflingu og nokkur ár í stjórn félagsins og var fulltrúi þess hjá Héraðssambandi Suður-Þingeyinga.
Tónlistin var eitt aðaláhugamál Aðalgeirs en hann var virkur félagi í karlakórum í 56 ár. Frá 15 ára aldri söng hann í kirkjukór Einarsstaðakirkju og lék einnig á orgel kirkjunnar við messur. Hann söng með Karlakór Reykdæla frá 15 ára aldri og þar til hann flutti til Akureyrar. Með Karlakór Kjósverja söng hann í tvo vetur en lengst af söng hann með karlakórum á Akureyri. Hann var í Karlakór Akureyrar frá 1961-1990 og síðan í Karlakór Akureyrar-Geysi til ársins 2010. Meðfram söngnum gegndi hann trúnaðarstörfum fyrir kórana og sat í stjórn Tónlistarskóla Akureyrar í fjórtán ár frá 1972 til 1986.
Árið 1998 hóf hann sambúð með Kristínu Klöru Ólafsdóttur, f. 15. apríl 1936. Kristín lést 31. október 2016.
Útförin fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 6. febrúar 2024, klukkan 13.
Nú hefur sagnaþulurinn Aðalgeir Aðalsteinsson sagt sína síðustu sögu. Eða hvað? Kannski er hann rétt að byrja.
Tengdafaðir minn trúði því staðfastlega að annað líf tæki við eftir jarðvistina. Hann þekkti nokkuð til annarra vídda enda var hann árum saman dyggur aðstoðarmaður þekktasta læknamiðils landsins. Og ef trú hans reynist rétt er hann kominn á annan stað. Þar veit ég að hann hefur frá mörgu að segja. Líkast til byrjar ferðasagan eitthvað á þessa leið: „Ég var víst búinn að vera nokkra daga á sjúkrahúsinu á Akureyri. Frostið hafði gengið niður og hún Stína mín var komin frá Ameríku og þá var mér ekkert að vanbúnaði. Þetta var að morgni þriðjudagsins 23. janúar. Klukkan var rétt að verða níu þegar ég lagði af stað, færið var gott og farið var að birta af degi.“ Sagan hefur síðan haldið áfram dágóða stund þar sem Aðalgeir hefur með sinni seiðandi en ákveðnu rödd lýst ferðalaginu ítarlega og engu sleppt.
Aðalgeir var maður allra góðra dyggða og viðhafði ávallt þau gildi sem hann ólst upp við sem drengur í Reykjadalnum. Hann var afar nægjusamur og vildi helst ekkert af öðrum þiggja en rausnarlegur var hann við sitt fólk. Vinir hans á langri ævi, kórfélagar, samkennarar og vandamenn skipuðu stóran sess í lífi hans og hjálparhönd lagði Aðalgeir fram, hvenær sem hennar var þörf.
Tengdapabbi var afskaplega frændrækinn og mikill áhugamaður um ættir og uppruna allra sem á vegi hans urðu. Enginn sem hann hitti komst undan því að rekja ættir sínar og þannig gat Aðalgeir hafið líflegar samræður við ókunnugt fólk. Oftar en ekki var viðkomandi frænka hans eða frændi þótt tengingarnar væru stundum frekar langsóttar. Frá þessum „skyldleika“ sagði hann okkur oft með prakkaralegu glotti. Honum þótti það óneitanlega kostur ef fólk var ættað úr Þingeyjarsýslunum en best var ef hægt var að finna tengingu við Reykjadal.
Nú hefur Aðalgeir haft vistaskipti. Það var örugglega tekið vel á móti honum með hljómmikilli tónlist og kröftugum karlakór þar sem hann er kominn á sinn stað í öðrum bassa.
Ég minnist Aðalgeirs Aðalsteinssonar með sorg í hjarta, hlýhug og virðingu.
Þorsteinn G. Gunnarsson.
Nú hefur Aðalgeir kvatt þessa jarðvist eftir langa ævi. Eftir standa minningar um góðan mann.
Aðalgeir var maður Grétu frænku, systur pabba. Þau bjuggu með dætrunum Sigrúnu, Helgu og Stínu í Brekkugötu, í sama húsi og afi og amma. Fyrstu ár ævi minnar bjuggum við mamma, pabbi og Geir bróðir þar líka áður en við fluttum í Kotárgerði árið 1966. Nokkrum árum síðar bættist Guðrún í fjölskylduna. Mikil tryggð og vinátta ríkti milli fjölskyldnanna í Kotárgerði og Brekkugötu alla tíð. Við fögnuðum hátíðisdögum saman, hittumst í kvöldkaffi, fórum í ferðalög og tókumst á við sorgir og sigra lífsins. Gréta og Aðalgeir voru einstaklega gestrisin, örlát og góð heim að sækja. Þau voru forvitin um fólk, röktu ættir, hlustuðu og sýndu hluttekningu og umhyggju. Þegar gesti bar að garði var hitað kaffi, bornar fram dýrindis heimabakaðar kökur og ótakmarkaður tími gefinn í samræður og frásagnir. Á sama hátt og kaffiveitingar voru í sérflokki í Brekkugötunni, var nestið sem þau útbjuggu eitthvað alveg sérstakt. Ég gleymi aldrei nestinu, sem þau höfðu með í för, þegar þau tóku á móti okkur fjölskyldunni í Kotárgerði þegar við komum í höfn á Seyðisfirði með Smyrli eftir ársdvöl í Svíþjóð 1977.
Aðalgeir tók fullan þátt í heimilisstörfum en Gréta sá þó einkum um baksturinn. Þegar Gréta fékk alzheimer og lést langt um aldur fram 1997 tók Aðalgeir við keflinu og fór að æfa leikni sína í bakstri, þá sér í lagi hjónabandssælu. Aðalgeir hafði gaman af að segja frá upplifun og ferðum og lýsa landslagi sem borið hafði fyrir augu. Hann hafði líka hæfileika til að segja börnum sögur sem hann spann upp. Ég man hvað ég hlakkaði alltaf til sögustunda Aðalgeirs í barnaafmælum í Brekkugötunni.
Aðalgeir var fróður og hafði gott minni. Hann mundi það sem hann hafði lesið og heyrt og gat rakið ættir fólks langt aftur. Á síðustu árum lýsti hann gjarnan í smáatriðum ferðum sem hann hafði farið fótgangandi sem barn og ungur maður, jafnvel milli landshluta. Eins lagði hann á gamals aldri alúð í að skrá sögu ferðar fjölskyldnanna í Herðubreiðarlindir og Öskju árið 1975 þegar ég var 11 ára. Hann kallaði hana Óbyggðaferð og færði mér hana handskrifaða í mars 2018. Það var skemmtileg lesning.
Við Aðalgeir vorum „kollegar“ í Oddeyrarskóla veturinn 1984-1985. Þá var ég nýstúdent og leiðbeinandi og hann með áratuga reynslu sem kennari og boðinn og búinn að leiðbeina mér með hvaðeina sem tengdist kennslu og skólastarfi. Það reyndist mér dýrmætt í mínu framtíðarstarfi sem kennari. Í gegnum tíðina ræddum við oft skólamál því hann hafði áhuga á að fylgjast með breyttum áherslum og þróun í þeim málum.
Þó að samskiptin hafi verið stopulli á síðustu árum en áður hélst sambandið alltaf og hann fylgdist vel með öllum börnum sem bættust í fjölskyldurnar og hafði áhuga á afdrifum þeirra.
Blessuð sé minning Grétu og Aðalgeirs.
Birna María
Svanbjörnsdóttir.
Minn kæri frændi, Aðalgeir Aðalsteinsson, sem lést 23. janúar sl. á nítugasta aldursári, var mikill mannkostamaður. Hann var ljúfmenni, vel gefinn, minnugur, fróður, heiðarlegur og heilbrigður. Hann ræktaði trú, von, kærleika, fólk og eigin heilsu. Hélt sér vel og ávallt glaður í bragði. Aðalgeir var frændrækinn, hlýr og áhugasamur um fólk. Hann bar jafna virðingu fyrir öllum og dæmdi ekki fólk. Þetta var upplag hans og uppeldi. Í endurminningum um móður hans og ömmu mína, Helgu Jakobsdóttur, sem hann skrifaði og flutti fyrir okkur afkomendur Laugavallasystkinanna á ættarmóti sumarið 2022 segir m.a.: „Við systkinin öll nutum frábærrar umönnunar frá foreldrum okkar, þau kenndu okkur fjölmargt, svo sem bænir, vísur og sönglög og fylgdust vel með skólagöngu okkar. Einnig hvernig við ættum að koma fram við annað fólk. Að þessu höfum við öll búið allt lífið.“ Með svipuðum hætti og Gísli T. Guðmundsson minntist móður hans í minningargrein 1968; hún hefði vaxið upp og mótast af hjartahreinu upplagi foreldra og ættmenna.
Ég tel að Aðalgeir hafi verið farsæll maður. Ekki af því að líf hans léki alltaf í lyndi heldur vegna þess að hann tók því sem að höndum bar, s.s. erfiðum veikindum sinna nánustu, með jafnaðargeði. Trú hans á æðri mátt og mátt bænarinnar skipti þar örugglega sköpum. Hann trúði líka á framhaldslíf og leitaði óhikað til miðla s.s. í veikindum fólks. Þegar faðir minn lenti í alvarlegu umferðarslysi árið 2009 og lá á sjúkrahúsi illa haldinn hringdi Aðalgeir í mig til að segja mér að hann hefði leitað til miðils um að hjálpa honum. Bætti svo við: „Vertu ekkert að segja pabba þínum það.“ Og tilfellið var að líðan pabba fór batnandi og hraðar en ég hafði gert mér vonir um. Aðalgeir var stoð og stytta fólksins síns. Hann bjó yfir andlegu þreki eins og eftirmælin voru m.a. um móður hans í fyrrnefndri minningargrein.
Minningarnar um Aðalgeir eru góðar. Sumarheimsóknir með foreldrum mínum til þeirra Grétu og systranna á Brekkugötunni á Akureyri þar sem við nutum einstakrar gestrisni. Kristín sem Aðalgeir bjó með eftir andlát Grétu var líka gestrisin og þau voru samhent í góðum móttökum okkar fjölskyldunnar. Eftir andlát Kristínar tók Aðalgeir áfram vel á móti gestum. Hann bakaði fyrir okkur pönnukökur, hjónabandssælu og eldaði jafnvel kjötsúpu. Það var föst venja að hann spilaði fyrir okkur á orgelið og söng með sinni fallegu og hljómmiklu bassarödd. Tónlistin og kórastarf var ríkur þáttur lífi hans. Ein birtingarmynd næmi hans, einlægni og hugrekkis.
Aðalgeir var svo frændrækinn að hann hringdi alltaf á afmælisdegi mínum og barna minna til að óska okkur til hamingju. Afmælissímtölin frá Aðalgeiri voru svo föst venja að eftir því var beðið og jafnvel spurt: Er Aðalgeir búnn að hringja? Og það brást ekki að hann hringdi. Í síðasta símtali okkar eftir að hann veiktist sagði hann að ég hefði hitt á óskastundu. Þakklát fyrir þetta síðasta símtal og góðar minningar um heiðursmann sem munaði um og missir er að.
Áslaug Björgvinsdóttir.