Heimilislegt stuð Elíza Geirsdóttir Newman lofar skemmtilegri kvöldstund í Hljómahöllinni.
Heimilislegt stuð Elíza Geirsdóttir Newman lofar skemmtilegri kvöldstund í Hljómahöllinni. — Ljósmynd/Ásta Magg
Hljómsveitin Kolrassa krókríðandi frá Keflavík var sigurvegari í Músíktilraunum 1992. Þá var Elíza Geirsdóttir Newman í aðalhlutverki sem fiðluleikari og söngvari. Hún verður aftur í sviðsljósinu á heimaslóðum fimmtudaginn 8

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Hljómsveitin Kolrassa krókríðandi frá Keflavík var sigurvegari í Músíktilraunum 1992. Þá var Elíza Geirsdóttir Newman í aðalhlutverki sem fiðluleikari og söngvari. Hún verður aftur í sviðsljósinu á heimaslóðum fimmtudaginn 8. febrúar, þegar hún heldur tónleika í Hljómahöllinni undir yfirskriftinni Elíza Newman á trúnó. „Þetta er gott tilefni til að líta yfir farinn veg,“ segir hún og lofar skemmtilegri kvöldstund, en viðburðurinn hefst klukkan 20.00 og miðasala er á netinu (tix.is).

„Við byrjuðum sem hljómsveitin Menn, þegar ég var 14 ára,“ rifjar Elíza upp. „Við vorum fjórar stelpur og okkur fannst það fyndið nafn, en breyttum því síðan í Kolrassa krókríðandi og sigruðum í Músíktilraunum, þegar ég var 16 ára.“ Hljómsveitin naut mikilla vinsælda og 1998 fór bandið til Englands undir nafninu Bellatrix og reyndi fyrir sér á alþjóðlega sviðinu í tvö ár. „Ég bjó í London í tíu ár og kom heim þegar ég eignaðist dóttur mína,“ segir Elíza.

Elíza María Geirsdóttir Newman, eins og hún heitir fullu nafni, er menntaður tónlistarkennari og starfar sem verkefnastjóri kennslu í Listaháskóla Íslands. Hún útskrifaðist með meistaragráðu í kennslufræðum tónlistar frá Roehampton-háskólanum í London 2010 eftir að hafa lokið kennsluréttindanámi frá LHÍ 2007. Húnn hefur starfað í grunn-, framhalds- og háskólum á Englandi og hérlendis og sinnt sköpun á tónlistarsviðinu frá unglingsárunum.

Bestu lögin

Wonder Days, nýjasta breiðskífa Elízu, kom út í fyrra og vakti töluverða athygli og myndband við lagið „Ósýnileg“ var tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2023. Hún gaf út fimm plötur með Kolrössu og Bellatrix, eina með hljómsveitinni Skandinavia og sólóplöturnar eru orðnar fimm. Samtals 11 plötur. „Ég ætla að bjóða upp á svona „best af“ lögin mín á tónleikunum, ef hægt er að velja svoleiðis, eitt til tvö lög af hverri plötu,“ upplýsir hún.

Þó að tónlistin verði í fyrirrúmi býður Elíza upp á fjölbreytta dagskrá. Hún segist hafa farið yfir vinsældalista og þannig fundið vinsælustu lög sín frá upphafi. „Ég byrja á fyrstu lögunum og held svo áfram til dagsins í dag. Þess á milli segi ég sögur sem tengjast lögunum og ferlinum og svara spurningum utan úr sal. Reyni að vera hreinskilin í svörum!“

Fyrir útgáfutónleikana í fyrra setti Elíza saman hljómsveit. Í henni eru, auk hennar, bassaleikarinn Kristín Þórhalla Þórisdóttir, kölluð Kidda rokk, trommuleikarinn Karl Guðmundsson eða Kalli Kolrass og gítarleikarinn Hjörtur Gunnlaugsson. „Þá kom upp sú hugmynd að gera eitthvað meira, því við náðum svo vel saman og það var gaman hjá okkur,“ segir hún, en sérstakir gestir koma fram með bandinu á tónleikunum í Hljómahöllinni. „Þetta verður sprellandi kósí og heimilislegt.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson