Launamál Bónusgreiðslur skattsins hafa verið til umfjöllunar og kallað er eftir því að ráðherra skoði málið.
Launamál Bónusgreiðslur skattsins hafa verið til umfjöllunar og kallað er eftir því að ráðherra skoði málið. — Morgunblaðið/sisi
Skatturinn greiddi í 40 tilvikum viðbótarlaun til starfsmanna sem starfa við skattrannsóknir á árunum 2021-2023. Samtals námu greiðslunar 20 milljónum króna. Þetta kemur fram í skriflegu svari skattsins til Morgunblaðsins þegar óskað var eftir…

Arinbjörn Rögnvaldsson

arir@mbl.is

Skatturinn greiddi í 40 tilvikum viðbótarlaun til starfsmanna sem starfa við skattrannsóknir á árunum 2021-2023. Samtals námu greiðslunar 20 milljónum króna.

Þetta kemur fram í skriflegu svari skattsins til Morgunblaðsins þegar óskað var eftir nánari upplýsingum um hvað embættið greiddi í viðbótarlaun til einstakra deilda. ViðskiptaMogginn fjallaði í síðustu viku um þær efasemdir sem Ólafur Stephensen, framkvæmdarstjóri Félags atvinnurekenda (FA), og Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður höfðu um viðbótarlaun, sem gætu verið til þess fallin að raska hæfi starfsmanna skattsins. Þá sagði Páll Rúnar að ef stjórnvald eins og skatturinn fengi fjárhagslega umbun til þess að taka ákvarðanir fengi hann ekki betur séð en að starfsmenn embættisins væru ekki lengur óvilhallir og þar af leiðandi vanhæfir til þess að taka ákvarðanir um hagsmuni einstaklinga og fyrirtækja.

Beðið eftir fjármálaráðherra

Ólafur segir í samtali við Morgunblaðið að ef tenging sé á milli greiðslu viðbótarlauna og töku ákvarðana geti það valdið vanhæfi starfsmanna skattsins sem starfa við skattrannsóknir.

„Við setjum okkar traust á fjármála- og efnahagsráðherra, sem er búin að lýsa því yfir að ef það sé tilfellið að þessar bónusgreiðslur hafi áhrif á niðurstöður mála, þar er að segja ef tengsl eru á milli árangurs í endurálagningarmálum og þessara bónusgreiðslna, sé það í hæsta máta óeðlilegt, og FA er sammála því. Við teljum að ráðherra verði að komast til botns í málinu og leggja öll spilin á borðið. Þegar sú vinna hefur verið unnin geta fyrirtæki og einstaklingar sem hafa fengið á sig íþyngjandi ákvarðanir frá skattinum, til dæmis með endurálagningu, farið að skoða stöðu sína,“ segir Ólafur.

„Það er ennþá grófara,“ segir Skafti Harðarson, formaður samtaka skattgreiðenda, í samtali við Morgunblaðið, inntur eftir viðbrögðum sínum við því að skatturinn hafi greitt viðbótarlaun til starfsmanna sem starfa við skattrannsóknir.

„Mér sýnist að þróunin verði þannig að bráðum fái dómarar bónus til þess að dæma menn og lögreglmenn fái einnig bónus fyrir að handtaka fólk,“ segir Skafti og bætir því við að allir bónusar sem eru tengdir við eftirlits- og rannsóknarstörf séu í hæsta máta óeðlilegir og hann trúi ekki öðru en við öll hljótum að bíða þess að fjármálaráðherra grípi inn í slíkt launafyrirkomulag.

Bónusar annarra stofnana

Í ofangreindu samhengi sendi Morgunblaðið fyrirspurn á aðrar opinberar stofnanir og óskaði eftir upplýsingum um hvað þær hefðu greitt í bónusa til starfsmanna frá 2020 til 2023. Morgunblaðið og ViðskiptaMogginnn greindu frá því nýlega að samkeppniseftirlitið greiddi alls 11,5 milljónir í viðbótarlaun til starfsmanna á áðurnefndu tímabili en skatturinn ber höfuð og herðar yfir aðrar stofnanir og greiddi rúmar 260 milljónir króna í bónusa til starfsmanna.

Í skriflegu svari Tryggingastofnunar ríkisins (TR) segir að stofnunin hafi fengið átta milljónir króna á ársgrundvelli til þess að ráðstafa viðbótarlaunum á árunum 2020-2023. Þá segir í svarinu að stofnunin hafi tekið þátt í tilraunarverkefni ásamt BHM og fjármálaráðuneytinu, en verkefninu hafi verið hætt árið 2020 og núna fari fjármagnið í svokölluð varanleg persónubundin álagsþrep. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) segir í skriflegu svari sínu að stofnunin hafi ekki greitt neina bónusa í formi umbunar þrátt fyrir að heimild sé í stofnanasamningi. Neytendastofa og Fiskistofa hafa enn sem komið er ekki svarað fyrirspurn Morgunblaðsins.

Viðbótarlaun skattsins

  • Starfsmenn á skattrannsóknarsviði fengu alls 20 milljónir króna í viðbótarlaun í 40 tilvikum frá 2021-2023
  • Setja traust á ráðherra að hann kalli eftir skýringum og komist til botns í málinu
  • Telja bónusa tengda rannsóknar- og eftirlitsstörfum í hæsta máta óeðlilegir
  • Aðrar opinberar stofnanir eru eftirbátar Skattsins hvað viðkemur greiðslu bónusa og kaupauka til starfsmanna
Höf.: Arinbjörn Rögnvaldsson