Heiða Hún hefur horft á margar þeirra kvikmynda sem Michel Legrand samdi tónlist við, sérstaklega þær frönsku.
Heiða Hún hefur horft á margar þeirra kvikmynda sem Michel Legrand samdi tónlist við, sérstaklega þær frönsku. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Við erum afskaplega ánægð með þessa útgáfu, þetta hefur tekið sinn tíma og við elskum að flytja þessa tónlist,“ segir Heiða Árnadóttir söngkona, en hún og píanóleikarinn Gunnar Gunnarsson sendu sl

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Við erum afskaplega ánægð með þessa útgáfu, þetta hefur tekið sinn tíma og við elskum að flytja þessa tónlist,“ segir Heiða Árnadóttir söngkona, en hún og píanóleikarinn Gunnar Gunnarsson sendu sl. haust frá sér nýja plötu, Tunglið og ég. Á plötunni syngur Heiða lög franska tónlistarmannsins Michels Legrands við íslenska texta.

„Allt á þetta upphaf sitt í því að þegar ég var í námi í Hollandi gaf vinkona mín mér disk með lögum Michels Legrands og mér fannst þetta dásamleg tónlist. Ég vissi svo sem hver Michel Legrand var, því eitt af uppáhaldslögum pabba er lag eftir hann, „I will wait for you“, og ég hafði sungið það í afmæli hjá honum. Þetta lag er einmitt eitt af þeim sem ég syng á nýja diskinum við íslenskan texta eftir Braga Valdimar Skúlason, undir heitinu „Ég mun bíða þín“,“ segir Heiða og bætir við að sér finnist Michel Legrand vera magnaður tónlistarmaður.

„Hann er klassískt menntaður í grunninn en uppgötvar strax um tvítugt djass og fer þá að starfa meira í djassheiminum. Fyrir vikið er tónlistin hans frábær blanda af djass og klassík, sem höfðar mikið til mín og ég hugsaði á einhverjum tímapunkti: Þetta er eitthvað sem mig langar að syngja. Ég fór að kynna mér tónlistina hans og spá og spekúlera og ég var stundum að leika mér með tónlistina hans úti í Hollandi,“ segir Heiða og bætir við að Michel Legrand sé fyrst og fremst kvikmyndatónskáld.

„Hann samdi fyrst aðallega tónlist við franskar söngleikjamyndir, en þegar hann gerði tónlist við kvikmyndina Regnhlífarnar í Cherbourg árið 1965, þá var hann uppgötvaður í Hollywood. Hann færði sig þangað og hélt áfram að vinna við að semja kvikmyndatónlist í Bandaríkjunum. Hann var gríðarlega afkastamikill, samdi lög við 150 kvikmyndir yfir ævina og var tilnefndur 13 sinnum til Óskarsverðlauna, vann þau þrisvar og fékk fimm sinnum Grammy-verðlaun. Hann gerði yfir 200 plötur.“

Litríkar og rómantískar

Heiða segir að þó hún sé í grunninn menntuð í klassískum söng, þá langi hana að syngja allar tegundir af tónlist.

„Ég elska djass og mér finnst líka gaman að syngja hvers konar tilraunatónlist, ég syng til dæmis mikið af samtímatónlist. Lögin hans Michels Legrands eru ekki einföld, þau eru krefjandi, en það sem ég kann svo vel að meta við að syngja lögin hans er að þá get ég blandað saman djassi og klassík. Ég fæ útrás í því að takast á við þessa fallegu blöndu,“ segir Heiða sem hefur horft á margar þeirra mynda sem Michel Legrand samdi tónlist við.

„Sérstaklega frönsku myndirnar, þær eru eru svo dásamlega franskar, litríkar og rómantískar, til dæmis Regnhlífarnar í Cherbourg og Ungu stúlkurnar frá Rochefort, en Kári Emil Helgason hönnuður sótti einmitt innblástur í hönnun plötuumslagsins í hatta stúlknanna úr síðarnefndu myndinni.“

Heiða segir að hún og Gunnar hafi fyrst flutt lögin sem eru á diskinum á tónleikum og þá á ensku.

„Okkur langaði að taka þetta lengra og ég er svo heppin að pabbi minn, Árni Ísaksson, er vanur textasmiður og hann samdi íslenska texta við tíu þeirra laga sem ég syng á diskinum. Þetta varð skemmtilegt samstarf með miklum pælingum og pabbi hélt tengingunni, hann lét íslenska textann fjalla um það sama og sá enski gerir. Textarnir við hin tvö lögin voru til, því Bragi Valdimar hafði samið þá fyrir tónleika með Sinfó og Sigríði Thorlacius.“

Lenti óvænt í klassíkinni

Heiða er alin upp í Seljahverfinu í Breiðholti og segir hafa verið mikið gott að alast þar upp.

„Á mínum uppvaxtarárum var mikið af krökkum í Breiðholtinu, alltaf nóg að gera og leika, en foreldrar mínir voru frumbyggjar þar og mikill kraftur í öllum,“ segir Heiða sem ólst upp við tónlist, pabbi hennar er píanóleikari og þau feðgin eru núna í heilmiklu samstarfi í tónlistinni.

„Langamma mín, Bryndís Þórarinsdóttir, var píanóleikari og kenndi á píanó. Hún spilaði með langafa, Árna Sigurðssyni Fríkirkjupresti, í litlum athöfnum þar. Fyrir vikið finnst mér gaman að syngja og halda tónleika í fallegu Fríkirkjunni í Reykjavík, ég finn anda langömmu og langafa sveima þar yfir. Við tókum diskinn einmitt upp í kirkjunni,“ segir Heiða sem lærði á sínum tíma á píanó.

„Á bernskuárunum hlustuðu foreldrar mínir mikið á The Carpenters, Bítlana og fleira sem tilheyrði þeirra kynslóð en þau hlustuðu líka mikið á djass. Allt hafði þetta áhrif á mig og þegar ég var í Versló og átti að syngja einsöng á nemendamóti, innritaði ég mig í Söngskólann í Reykjavík til að öðlast grunnfærni í söng. Þar lenti ég óvænt inni á klassískri tónlist,“ segir Heiða sem lauk þaðan námi og færði sig þá yfir í Tónlistarskólann í Reykjavík og að því námi loknu fór hún í framhaldsnám til Hollands, í klassískum söng.

„Ég var ekki búin að ákveða hvað ég vildi gera við söngnámið en stefndi ekki að því að verða óperusöngkona á sviði. Í Hollandi fór ég meira út í að syngja samtímatónlist, enda átti ég þar vini í tónskáldadeildinni sem fengu mig í verkefni með sér.“

Heiða segir að á efnisskrá nýja disksins séu m.a. eftirtalin lög, flutt á íslensku: „What are you doing the rest of your life?“ úr kvikmyndinni The Happy ending; „You must believe in spring“ úr myndinni The Young Girls of Rochefort (1967); „Windmills of your mind“ úr myndinni The Thomas Crown affair (1968); „The summer knows“ úr myndinni Summer of '42 (1971) og „I will wait for you“ úr söngleiknum The Umbrellas of Cherbourg (1965).

„Auk þess að vera afkastamikill lagasmiður var Michel Legrand virtur hljómsveitarstjóri og píanóleikari, aðallega í djassmúsík og hann starfaði við það uns hann lést árið 2019. Hann kom fram á tónleikum með mörgum þekktum listamönnum, til dæmis Tony Bennett og Barbru Streisand,“ segir Heiða og tekur fram að diskur þeirra Gunnars, Tunglið og ég, fáist bæði sem vínilplata og geisladiskur.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir