Sigurjón Bjarnason fæddist 15. apríl 1932 í Holtum á Mýrum í Hornafirði. Hann lést 20. janúar 2024 á hjúkrunarheimilinu Skjólgarði.

Sigurjón var 5. í röð 10 barna hjónanna Lússíu Sigríðar Guðmundsdóttur og Bjarna Þorleifssonar. Þau bjuggu lengst af í Viðborðsseli. Börn þeirra voru Þorleifur, f. og d. 1924, Þóra, f. 1925, d. 2011, Guðmundur, f. 1927, d. 2001, Halla, f. 1930, d. 2022, Snorri, f. 1933, d. 2016, Óskar, f. og d. 1935, Guðrún, f. 1941, Arnar Haukur, f. 1942, fyrir átti Bjarni Karl Ágúst, f. 1919, d. 2006.

Sigurjón giftist eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigurbjörgu Sigurjónsdóttur, 27. desember 1964, hún er dóttir hjónanna Sigurjóns Einarssonar og Þorbjargar Benediktsdóttur í Árbæ. Börn þeirra eru: 1) Ásdís Eyrún, f. 1961, maki Ragnar Jónsson, þeirra börn eru Sigurjón Fannar bóndi í Þykkvabæ 3, sonur hans er Hilmar Nói. Helga Björg, búsett í Hafnarfirði, maki Ingimundur Jónasson, þeirra dætur eru Karítas Ýr og Ragna Karen. 2) Elvar Þór, f. 1965, maki Elínborg Baldursdóttir, þeirra börn eru Rakel Ösp búsett í Svínadal, sambýlismaður hennar er Hrannar Ingi Hjaltason, sonur þeirra er Breki Snær. Birkir Freyr, búsettur á Akureyri, sambýliskona Valdís Kapitola Þorvarðardóttir.

Sigurjón var ungur að árum þegar hann keypti sinn fyrsta vörubíl, vörubílaakstur stundaði hann meðfram búskap sem hann hóf 1960 í Viðborðsseli með eiginkonu, foreldrum sínum og Bergi bróður sínum. Árið 1975 hóf Sigurjón störf við graskögglaverksmiðjuna í Flatey. 1985 fluttu þau hjónin á Höfn þar sem hann vann ýmis störf, síðast hjá Skinney-Þinganesi.

Útförin er frá Hafnarkirkju 6. febrúar 2024 kl. 13. Streymi:

https://www. mbl.is/go/h9qnj

Elsku afi okkar er nú kominn í hvíldina, líklegast er hann farinn að gera við vélar en hinar ýmsu viðgerðir voru hans ær og kýr. Það eru mikil forréttindi að hafa fengið að alast upp og læra á lífið af manni eins og afa okkar, þolinmóðari og ljúfari mann er vart hægt að finna. Afi var alltaf til staðar fyrir okkur og alltaf var hægt að hringja í hann og fá ráðleggingar. Mikið sem það var líka gaman að heyra sögur úr sveitinni frá því í gamla daga og heyra afa þylja upp örnefnin á Mýrum, oft leið manni eins og það væri ekki til sú þúfa í sveitinni sem hann vissi ekki nafnið á. Fallegar minningar um góðan mann munu ylja okkur um ókomin ár. Takk fyrir allt elsku afi.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Sigurjón Fannar, Helga Björg, Rakel Ösp og Birkir Freyr.

Látinn er Sigurjón Bjarnason frá Viðborðsseli á Mýrum í Hornafirði. Ég var hnokki þegar ég kom fyrst til sveitadvalar hjá þeim hjónum, Sigurjóni Bjarnasyni og Sigurbjörgu Sigurjónsdóttur móðursystur minni, snemma á sjöunda áratugnum. Þetta voru miklir framfaratímar á Mýrunum, búin stækkuðu og tókst að rækta upp aura og sanda eftir að jöklarnir hopuðu og árnar voru beislaðar. Í þessari framfarasókn lét Sigurjón ekki sitt eftir liggja. Hann aðstoðaði aðra bændur með viðgerðir og aðrar endurbætur á vélakosti sínum. Hann var frábær fagmaður sem skilaði sínu í hvívetna. Þar kom hinn skaftfellski arfur sér vel þar sem fólk lærði að bjarga sér í einangrun heimahéraðsins og nýta sem best tækninýjungar á heimaslóðum. Mér er í minni heyskapur á Flateyjaraurunum þar sem félagsrækt og samvinna heimabænda var í fyrirrúmi. Seinna var Graskögglaverksmiðja reist þar sem Heinabergsvötn höfðu áður flætt og veitti Sigurjón henni forstöðu. Ekki er að undra að hann var kallaður til þar sem hann var útsjónarsamur, verklaginn, og góður verkstjórnandi. Eftir að Sigurjón og Lilla fluttu á Höfn byggðu þau sér fallegt heimili á Heiðarbrautinni, Sigurjón sá um viðgerðir í síldarverksmiðju kaupfélagsins og kom sér upp sínu afdrepi í bílskúrnum þar sem hann sinnti ýmsu verklegu stússi og viðgerðum. Það voru honum gæðastundir. Á Hornafjarðarárum mínum fannst mér gott að leita til hans, spjalla og rifja upp gamla tíma. Sigurjón var næmur á hugsanir annarra og úrræðagóður.

Blessuð sé minning hans, sendi Lillu, Ásdísi og Elvari og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Sigurgeir Guðjónsson.

hinsta kveðja

Elsku langafi, takk fyrir allt.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Karítas Ýr Ingimundardóttir.