Dagþór S. Haraldsson
Dagþór S. Haraldsson
En það gleymist að það er arfleifanda mikilvægt hvernig jarðneskum eigum hans er ráðstafað.

Dagþór S. Haraldsson

Í Morgunblaðinu 29. janúar sl. birtist grein undir fyrirsögninni „75 ára og eldri verði skattlausir“. Einhverjir gleypa þessa grein hráa og m.a. kemur fram í greininni að höfundurinn Ole Anton hafi lagt þessa tillögu fyrir Viðreisn. Og að forysta Viðreisnar hafi tekið vel í málið, því það falli svo vel að jafnréttishugsjónum og velferðarstefnu flokksins! Og að allt stefni í að næsta landsþing flokksins muni staðfesta upptöku málsins sem eins stærsta og mikilvægasta baráttumáls fyrir þingkosningar 2025.

En til að skýra stuttlega frá tillögunni er að eftir 75 ára aldur verði menn skattlausir að undanskildum fjármagnstekjuskatti. Og til að mæta þessu ætlaða tekjutapi ríkissjóðs hafi Ole Anton fengið hagfræðideild Háskóla Íslands til að reikna út hvernig mætti gera ríkissjóð skaðlausan vegna þessa. Og niðurstaðan er að með „hóflegri“ hækkun erfðafjárskatts upp í 25% yrði ríkissjóður skaðlaus. Núverandi erfðafjárskattur er 10%, svo þessi „hóflega“ hækkun nemur 150%! Og af mikilli djúphygli kemst Ole Anton að því að eftir að arfleifandi hefur yfirgefið þennan heim skipta jarðneskar eigur hans engu máli lengur!

En það gleymist að það er arfleifanda mikilvægt hvernig jarðneskum eigum hans er ráðstafað. Sem betur fer eiga langflestir afkomendur, sem heyja harða baráttu við að eignast þak yfir höfuðið. Það er viðurkennt, í okkar hávaxta- og verðbólguumhverfi, að áður en unga fólkið loksins einhvern tíma eftir miðjan aldur eignast íbúðina sína er það búið að greiða íbúðina að lágmarki tvisvar sinnum og líklega nær þrisvar. Erfðafjárskattur er að mínu mati hreinn og klár þjófnaður. Það er margbúið að borga skatt af hverri einustu krónu sem hefur að lokum orðið að eign.

Fram kemur í greininni að „menn geta velt fyrir sér réttmæti erfðafjárskatts en staðreyndin er annars vegar að eigur hvers og eins verða til í eða koma úr því samfélagi sem viðkomandi hefur lifað og hrærst í. Fer því ekki illa á því að þær renni, a.m.k. að hluta, þangað aftur“. Manni bara bregður við svona hugsanagang. Einstaklingurinn skapaði tekjurnar þó að vissulega skipti máli það umhverfi sem lifað er í.

Við skulum hafa hugfast að mjög líklega er engin þjóð á jarðkringlunni skattpínd jafnmikið og við hér á Íslandi. Hér eru háir beinir skattar og aðrir skattar margir og háir. Ole Anton vísar í BNA (Bandaríkin), að þar sé 40% erfðafjárskattur eftir að ákveðin skattlaus fjárhæð hefur verið afdregin (skattlausa fjárhæðin hér er í kringum 5,2 milljónir). Ole Anton minnist ekki á að beinir skattar í BNA eru miklu lægri en hér. Eldsneytisskattar þar eru miklu lægri. Matvara er miklu ódýrari o.s.frv. Ég hef ekki verið í BNA í mörg ár, en síðast þegar ég vissi var söluskattur þar frá 4-6%, á meðan hann er 24% hér á landi (nema á matvælum). Og það best ég veit er verðbólga (verðbótaþáttur fjármagnstekna, sem er ekki eignaaukning heldur einfaldlega froða) hvergi skattlögð nema hér á Íslandi, en hér skattlögð sem fjármagnstekjuskattur upp á 22% (fyrir ofan ákveðið lágmark).

Ole Anton minnist á að „auk þess á arfleifandi alla möguleika á að ráðstafa sínum fjármunum áður en hann yfirgefur heiminn ef hann vill og hefur sérstakar óskir um hvert þeir skuli renna“. Þarna virðist Ole Anton ekki vita að þetta myndi flokkast sem fyrirframgreiddur arfur og skattlagður sem slíkur. Óvænt bætt afkoma ríkissjóðs í fyrra var þökkuð því að auknar tekjur bárust vegna skatttekna fyrirframgreidds arfs.

Ég veit að Ole Anton hefur einungis gott eitt í huga með þessari tillögu sinni, enda er hann bæði mann- og dýravinur. En það eru önnur sjónarmið, svo sem hvers eiga þeir að gjalda sem ekki ná 75 ára aldri? Þeir munu aldrei njóta þessara skattfríðinda og erfingjar þeirra munu bera skarðan hlut frá borði. Þannig að út með þessa tillögu. Jafnframt burt með erfðafjárskattinn, sem er ósanngjarnastur allra skatta.

Höfundur er leiðsögumaður með erlenda ferðamenn.

Höf.: Dagþór S. Haraldsson