Hákon Þorvaldsson fæddist að Víkurbakka á Árskógsströnd 8. ágúst 1930. Hann lést á Hrafnistu, Nesvöllum, 20. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Þorvaldur Árnason, f. 1900, d. 1988, og Sigríður Þóra Björnsdóttir, f. 1903, d. 1984.

Hákon átti átta systkini af þeim eru sjö látin, Reynald, Hermína, Ægir, Baldvina, Anna, Björgvin og Alda. Eftirlifandi er Árni sem er yngstur þeirra systkina.

Hákon giftist Ólafíu Jónínu Gísladóttur frá Hóli í Ólafsfirði, f. 15. ágúst 1928, d. 5. ágúst 2012. Foreldrar hennar voru Gísli Stefán Gíslason og Kristín Helga Sigurðardóttir.

Hákon og Ólafía eignuðust tvö börn en fyrir átti Ólafía einn son.

1. Birgir Vilhjálmsson, f. 14. apríl 1950, maki Ólafía Sigríður Friðriksdóttir, f. 30. október 1948. Fyrir átti Ólafía Sigríður dæturnar Sigrúnu Öldu Jensdóttur og Hafdísi Friðriksdóttur. Maki Sigrúnar er Ellert Arnbjörnsson, börn hennar eru Dagmar, dóttir hennar er Emma Kristín, Birgir Snorri maki Tara Sól og Stefán Rúnar. Hafdís er gift Árna Brynjólfi Hjaltasyni, börn þeirra eru Friðrik, maki Telma Lind Pálsdóttir, eiga þau einn son Baltasar Pál, Guðrún Lára og Ólafía Sigríður. Dóttir Birgis og Ólafíu er Kristín Helga Birgisdóttir. 2. Hildur Guðrún, f. 6. desember 1958, maki Hákon Örn Matthíasson, f. 9 desember 1956. Börn þeirra eru Hákon Ólafur, maki Kolbrún Ída Harðardóttir, synir Hákonar eru Aron Örn og Valur Þór, saman eiga þau Telmu Lind. Ingvi Þór, maki Eyrún Jana Sigurðardóttir, sonur Ingva er Arnór Ingi, saman eiga þau Hildi Rún, Heklu Sif og Helenu Rós. Erna Hákonarsdóttir, maki Óli Ragnar Alexandersson, dætur þeirra Harpa Lind og Andrea Lind. 3) Hilmar Hákonarsson, f. 26. júlí 1963, maki Þórunn Guðmundsdóttir, f. 16. apríl 1966, dætur þeirra eru Þórdís Birna og Sunna Dís, maki Þórdísar er Nicolai Sörensen, dóttir þeirra Írena Rós.

Hákon ólst upp á Víkurbakka á Árskógsströnd. Ungur fór hann að stunda sjóinn. Árið 1956 lá leiðin til Keflavíkur á vertíð og þar kynnist hann eiginkonu sinni Ólafíu og setust þau síðar að í Keflavík ásamt Birgi syni Ólafíu. Þar fæddust börn þeirra Hildur og Hilmar.

Hákon og Ólafía byrjuðu sinn búskap á Hátúni 32 í Keflavík. Þau bjuggu lengst af á Háaleiti 19 en fluttu til Njarðvíkur 2005 á Vallarbraut 10. Hákon fluttist svo í búð á Nesvöllum.

Hákon stofnaði útgerð í kringum Hafborg KE 54 árið 1962 ásamt bróður sínum Reynaldi og ráku þeir fiskverkun samhliða útgerðinni.

Útför Hákons fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 6. febrúar 2024, kl. 13.

Í dag kveð ég elskulegan tengdaföður minn og vin Hákon Þorvaldsson. Ég kom inn í fjölskylduna fyrir 50 árum síðan, þá aðeins 17 ára gamall.

Ég var svolítið hræddur við kallinn fyrst en sú hræðsla var ástæðulaus.

Þú og Óla tókuð yndislega á móti mér og vilduð allt fyrir okkur Hildi gera.

Og nú ertu farinn í sumarlandið og hittir hana Ólu þína sem þú ert búinn að sakna síðustu 12 ár. Það verða yndislegir gleðifundir. Minning um góðan og yndislegan mann lifir í hjarta mínu um ókomin ár.

Hvíldu í friði elsku Konni minn,

Þinn tengdasonur,

Hákon Örn Matthíasson.

Í dag kveð ég afa minn, Hákon Þorvaldsson. Það eru tæp 12 ár síðan þú kvaddir ömmu Ólu og nú eruð þið saman á ný. Mikið held ég að amma taki vel á móti þér. Ég var mikill afastrákur og varði ég miklum tíma heima hjá afa og ömmu á Háaleitinu. Afi var sjómaður, útgerðarmaður og svo fékk hann sér sendibifreið sem hann keyrði í nokkur ár, ég veit að hann var vinsæll hjá viðskiptavinunum. Ég fékk oft að vera með honum á sendibílnum og það var mikið sport að fá að kalla í stöðina „107 er laus“, en afi keyrði hjá Ökuleiðum. Eitt skipti fór ég með honum að sækja hljóðfæri í Reykjavík fyrir hljómsveit og þegar við vorum búnir að fylla bílinn þá lokaði ég hliðarhurðinni og svo var ekið af stað. En við fyrstu beygju opnast hliðarhurðin og bílinn tæmist, hljóðfærin út um alla götu og allt ónýtt. Ég hélt að þetta yrði mitt síðasta en afi var svo rólegur og sagði strax „þetta er ekki þér að kenna heldur mér, ég átti að athuga hvort hurðin væri lokuð“, sem lýsir afa vel. Afi var virkur félagslega. Hann stundaði púttið á fullu fyrir nokkrum árum. Hann vann fullt af mótum, hann var lunkinn, eins og afi hefði orðað það sjálfur. Hann var líka í botsía og gekk alltaf í Reykjaneshöllinni. Fyrir nokkrum árum ákvað hann að prófa að hjóla sem hann hafði ekki gert í mörg ár. Hann dettur af hjólinu og mjaðmarbrotnar. Eftir það átti hann erfitt með gang og þurfti því miður að hætta í púttinu og öðru félagsstarfi. Móðir mín á hrós skilið hversu vel hún hugsaði um afa og var alltaf til staðar fyrir hann. Eða eins og afi sagði þá stjanaði hún við hann. Elsku afi, ég á svo margar góðar minningar um þig.

Elsku afi, takk fyrir allt, ég veit að þú er kominn á betri stað og ert sáttur.

Minning mín um þig,

er aðeins ljúf og góð.

Þú varst alltaf svo góður,

gerðir allt fyrir mig.

Þú varst þakklátur,

fyrir allt sem gert var fyrir þig.

Þú varst fyrirmynd mín,

og verður fyrirmyndin alla mína tíð.

Ég á eftir að sakna þín,

hvernig þú brostir, hvernig þú talaðir.

Ég kem svo og heimsæki þig,

þegar minn tími kemur.

Ég mun sakna þín, þinn afastrákur

Ingvi Þór Hákonarson.

Í dag kveð ég besta afa í heimi með miklum söknuði og endalausu þakklæti. Afi var einstakur maður, hann var alltaf boðinn og búinn til að hjálpa öllum. Hann var dugnaðarforkur sem lét ekkert stoppa sig, en fyrst og fremst stríðnispúki og svolítill svindlari. Ég eyddi miklum hluta af mínum æskuárum hjá honum og ömmu á Háaleiti 19 og á ég ekkert nema dásamlegar minningar frá þeim tíma. Við spiluðum ófáa Ólsen Ólsen og honum fannst alltaf svo gaman að stríða mér og svindla aðeins því hann vissi hvað ég var tapsár.

Alltaf þegar ég heyri lagið „Afi minn fór á honum Rauð“ þá minnir það mig alltaf á hversu oft ég hringdi og bað afa um að sækja mig eða skutla og alltaf kom hann eins og skot á rauða kagganum að sækja prinsessuna.

Síðustu ár hafa verið þér erfið þegar heilsan fór að stríða þér og þú gast ekki gert allt sem þig langaði til. Ég er óendalega þakklát fyrir það að litlu demantarnir mínir fengu að kynnast afa langa og þú ljómaðir alltaf þegar þær komu með mér í heimsókn. Þér fannst alltaf svo gaman að gefa þeim súkkulaðirúsínur og aðeins að stríða þeim smá.

Elsku afi minn, þó söknuðurinn sé mikill og erfitt sé að kveðja þig þá veit ég að amma hefur tekið vel á móti þér og þér líður betur. Minningarnar ylja um ókomna tíð. Ég elska þig.

Takk fyrir allt, þangað til næst.

Þín afastelpa,

Erna Hákonardóttir.

hinsta kveðja

Hlýjar kveðjur.

Til þín ég hugsa,

staldra við.

Sendi ljós og kveðju hlýja.

Bjartar minningarnar lifa

ævina á enda.

(Hulda Ólafsdóttir)

Þínar afastelpur

Helena Rós,

Hekla Sif og

Hildur Rún.