Ríkissáttasemjari Erfitt að segja til um tímasetningu, segir sáttasemjari.
Ríkissáttasemjari Erfitt að segja til um tímasetningu, segir sáttasemjari. — Morgunblaðið/Eggert
Talsvert er enn í land í kjaraviðræðum breiðfylkingar verkalýðsfélaga á almenna markaðinum og Samtaka atvinnulífsins og ekki útlit fyrir að samningar náist á allra næstu dögum

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Talsvert er enn í land í kjaraviðræðum breiðfylkingar verkalýðsfélaga á almenna markaðinum og Samtaka atvinnulífsins og ekki útlit fyrir að samningar náist á allra næstu dögum. Verið er að ræða blandaða leið prósentuhækkana og krónutöluhækkana, þar sem lægstu launin myndu taka krónutöluhækkunum, eins og Morgunblaðið greindi frá í sl. viku.

Þá er rætt um 3-4% launahækkun á ári að jafnaði út samningstímann fyrir aðra, skv. heimildum blaðsins. Málið er hins vegar flókið og verkefnin mörg.

„Þetta er í ágætu ferli. Það eru mörg úrlausnarefni sem þarf að leysa í smærri hópum, sú vinna stendur yfir og okkur miðar þokkalega,“ segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við Morgunblaðið, spurður um gang kjaraviðræðna breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins, SA.

Samningafundi aðila lauk síðdegis í gær og hefur nýr fundur verið boðaður kl. 9 í dag.

„Á meðan menn sitja við þá erum við ennþá vongóð,“ segir Ástráður sem telur ekki að til stórra tíðinda dragi í kjaraviðræðunum á næsta sólarhring.

„Ég held að það sé meira eftir, en það er mjög erfitt að spá fyrir um hversu langan tíma þetta mun taka,“ segir hann.

Auk samningafunda SA og breiðfylkingarinnar sitja stéttarfélög opinberra starfsmanna á samningafundum með viðsemjendum sínum hjá ríkissáttasemjara og einnig fagfélögin, Rafiðnarsambandið, VM, Matís o.fl.

„Það eru allir að reyna að vinna að því að ná kjarasamningi á sem víðustum grundvelli sem gæti verið til þess fallinn að vinna á verðbólgunni og stuðla að lækkun vaxta sem vonandi fylgir í kjölfarið,“ segir Ástráður.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson