Bókaforlög fengu rúmar 440 milljónir króna í endurgreiðslur frá íslenska ríkinu á síðasta ári. Greiðslurnar eru inntar af hendi í samræmi við lög sem tóku gildi árið 2019 til að styðja tímabundið við íslenska bókaútgáfu

Bókaforlög fengu rúmar 440 milljónir króna í endurgreiðslur frá íslenska ríkinu á síðasta ári. Greiðslurnar eru inntar af hendi í samræmi við lög sem tóku gildi árið 2019 til að styðja tímabundið við íslenska bókaútgáfu.

Á síðasta ári voru afgreiddar 828 umsóknir um endurgreiðslu og heildarkostnaður við þær sem taldist endurgreiðsluhæfur var rúmar 1.762 milljónir króna. Endurgreiðslan nemur fjórðungi kostnaðar, alls 440 milljónum króna. Margar þeirra bóka sem fengu endurgreiðslu voru gefnar út árið 2022.

„Nánar tiltekið voru 770 umsóknir afgreiddar 2023, að viðbættri 151 umsókn frá árinu áður, alls 921 umsókn, og hefði endurgreiðslan vegna þeirra orðið alls um 482,3 m.kr. Sjóðurinn var hins vegar þurrausinn í júlímánuði. Fé sjóðsins var aukið um 80 m.kr. í lok árs og reyndist því hægt að greiða fleiri umsóknir af fjármagni ársins; það sem út af stóð var greitt út á nýju fjárlagaári,“ segir á vef Rannís, sem heldur utan um endurgreiðslurnar.

Sem fyrr er Forlagið langstærsti útgefandinn og tekur til sín 128 milljónir af heildarupphæðinni fyrir 277 verk. Sögur útgáfa fékk rúmar 45 milljónir endurgreiddar fyrir 30 verk og Bjartur/Veröld fékk sömu upphæð fyrir 35 verk.

Hæstu endurgreiðslurnar vegna einstakra bóka voru tæpar 7,3 milljónir vegna skáldsögunnar Kyrrþey eftir Arnald Indriðason, 6,3 milljónir fyrir Reykjavík eftir Katrínu Jakobsdóttur og Ragnar Jónasson, 5,7 milljónir vegna Árbókar Ferðafélags Íslands 2022, Undir jökli frá Búðum að Ennisfjalli, og 5,16 milljónir vegna bókanna Gættu þinna handa eftir Yrsu Sigurðardóttur og Játning eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. gummi@mbl.is