Möguleg fórnarlömb netárásar Akira-hakkarahópsins á Háskólann í Reykjavík (HR) á föstudaginn eru á bilinu 6.000-8.000. Ragnhildur Helgadóttir rektor HR segir að ekkert sé vitað að svo stöddu hvað gerði tölvuþrjótunum kleift að komast inn á kerfi háskólans og að það sé enn til rannsóknar.
Netöryggissérfræðingar sem unnið hafa að enduruppbyggingu kerfa HR og endurheimt gagna hafa ekki séð ummerki um að önnur gögn en nöfn, kennitölur, netföng og dulkóðuð lykilorð notenda hafi verið afrituð úr kerfum HR.
Þeir sem um ræðir eru núverandi nemendur HR, nemendur sem útskrifuðust frá skólanum í október 2023, núverandi og fyrrverandi starfsfólk auk verktaka HR frá árinu 2008. „Þess vegna leggjum við auðvitað öll kerfi niður og látum notendur vita. Þannig að ef þeir hafa notað þetta annars staðar þá geta þeir skipt um lykilorð. Eftir því sem ég kemst næst er þetta það sem þessi hópur gerir, það er svo sem engin staðfesting að þetta hafi gerst,“ segir Ragnhildur.
Rektor kveðst ekki vita hver fjárhagslegur kostnaður af þessari árás sé. Nú sé hugað að því að tryggja ótruflaða starfsemi. „Mikilvægustu gögnin fyrir starfsemi skólans eru aðgengileg fyrir hann, þannig að hér er kennsla núna og hefur verið í allan dag,“ sagði Ragnhildur í gær.
hng@mbl.is