Sýningarnar „Við erum mjög stolt að hafa fengið þessa flottu listamenn til að opna sýningarárið okkar,“ segir Ólöf.
Sýningarnar „Við erum mjög stolt að hafa fengið þessa flottu listamenn til að opna sýningarárið okkar,“ segir Ólöf. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Ásmundarsal eru tvær sýningar sem myndlistarunnendur munu örugglega skoða af áhuga. Hreinn Friðfinnsson er með innsetningu í sýningarsal á efri hæð hússins og Sigurður Guðjónsson sýnir vídeóverk í Gryfju

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Í Ásmundarsal eru tvær sýningar sem myndlistarunnendur munu örugglega skoða af áhuga. Hreinn Friðfinnsson er með innsetningu í sýningarsal á efri hæð hússins og Sigurður Guðjónsson sýnir vídeóverk í Gryfju.

„Við erum mjög stolt af að hafa fengið þessa flottu listamenn til að opna sýningarárið okkar og það var algjör metaðsókn á opnuninni þann 20. janúar. Þrátt fyrir að Hreinn sé búsettur í Amsterdam og ekki ferðafær lét hann sig ekki vanta á opnun, en hann birtist gestum í gegnum myndsímtal. Var uppákoman óvænt og skemmtileg, en það mátti sjá tár á hvarmi aðdáenda,“ segir Ólöf Rut Stefánsdóttir, sýningarstjóri í Ásmundarsal.

Skírskotun í langan feril

Að sýna verk eftir Hrein hefur lengi verið draumur að sögn Ólafar og sér í lagi þar sem hann hélt fyrstu sýningu sína með SÚM-hópnum í Ásmundarsal árið 1964. „Það er einstaklega táknrænt að núna sé verk Hreins, „Klettur“ (2014-2024), til sýnis í fyrsta sinn á Íslandi og stendur við nákvæmlega sama vegg og fyrstu verk hans á tímamótasýningunni SÚM1.“

„Klettur“ er innsetning þar sem sjávaröldum er varpað á stórskorið landslag samsett úr margs konar pappakössum þar sem gegnumgangandi þema verksins er hinn gullni spírall, oftast kenndur við Fibonacci.

„Verkið hefur skírskotun í langan feril hans og þótt það virðist látlaust við fyrstu sýn er það marglaga við nánari skoðun. Í einum kassanum er til dæmis líkan af kuðungi eyrans, í öðrum ammonítar og enn öðrum geimþoka. Allt eru þetta spíralmótíf, en tíminn hefur ávallt verið Hreini hugleikinn. Einnig má finna vísun í eldri verk, sem dæmi „Contribution“ frá árinu 1995 og „Source“ frá 1992.“

Skynræn upplifun

Verk Sigurðar, „Edda“, sem er til sýnis í Gryfjunni, er einnar rásar vídeó sem fyllir heilan vegg í þröngu rýminu og byggist á dáleiðandi hreyfingum segldúka. „Hrynjandi, flæði og endurtekning framkalla skynræna upplifun í verkinu, þar sem leikið er með skala og órætt samhengi. Þannig að þegar maður stendur inni í Gryfjunni verða áhrifin eins og veggurinn sé á hreyfingu og manni finnst maður geta gengið inn í hann,“ segir Ólöf. „Það var mjög gaman að sjá viðbrögð gesta á opnuninni við þessu verki. Hingað kom til dæmis myndlistargagnrýnandi og ætlaði rétt að kíkja við en festist í Gryfjunni í hálftíma, svo hrifinn varð hann. Þetta er verk sem maður verður að sjá til að upplifa það. Það nægir engan veginn að sjá mynd af því.“

Hún segir það hafi verið mikill fengur að grípa Sigurð Guðjónsson svona glóðvolgan eftir Feneyjatvíæringinn 2022, þá sér í lagi þar sem verk sýninganna tveggja kallist svo fallega á. Sýningarnar standa til 3. mars, en Ásmundarsalur er opinn alla daga til kl. 17 og aðgangur er ókeypis.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir