Undirritun Fulltrúar sjómanna og útvegsmanna skrifa undir samninginn.
Undirritun Fulltrúar sjómanna og útvegsmanna skrifa undir samninginn. — Ljósmynd/Sjómannasamband Íslands
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýr kjarasamningur sjómanna og útvegsmanna var undirritaður hjá ríkissáttasemjara í gær. Samningurinn er til níu ára með einhliða heimild sjómanna til uppsagnar eftir fimm ár. Verði honum ekki sagt upp að þeim tíma liðnum má segja honum upp eftir sjö ár frá undirritun, en síðan ári síðar

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Nýr kjarasamningur sjómanna og útvegsmanna var undirritaður hjá ríkissáttasemjara í gær. Samningurinn er til níu ára með einhliða heimild sjómanna til uppsagnar eftir fimm ár. Verði honum ekki sagt upp að þeim tíma liðnum má segja honum upp eftir sjö ár frá undirritun, en síðan ári síðar. Með samningnum er komið til móts við ákvæði samnings sem felldur var í fyrra og gilda átti til tíu ára, að sögn Valmundar Valmundssonar formanns Sjómannasambandsins.

„Ég er mjög bjartsýnn á að samningurinn verði samþykktur að þessu sinni. Ég held að við höfum náð flestu því inn sem menn kvörtuðu yfir í síðasta samningi,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Kauptrygging hækkar

Samningurinn kveður á um hækkun kauptryggingar úr 325 þúsund krónum í 454 þúsund. Valmundur segir að þó fátítt sé að menn séu á kauptryggingu eingöngu skipti hún máli þegar skip fari í slipp og ekki síst þegar veikindi beri að höndum. Í samningnum séu breytingar á ákvæði um nýjar verkunaraðferðir. Fellt er brott ákvæði um að samningsbundinn gerðardómur leysi úr ágreiningi á milli aðila vegna þeirra. Þess í stað skipa sjómenn og útvegsmenn óvilhalla nefnd til að taka á ágreiningi, ellegar ríkissáttasemjari náist ekki samkomulag.

Þá er kveðið á um að sjómenn þurfi ekki lengur að ísa yfir fiskikör sem fara á erlendan markað, heldur skuli útvegsmenn semja við aðra um þá þjónustu. Ef sjómenn annast ísunina er greidd yfirvinna.

„Þetta ákvæði er búið að vera lengi, allt frá því farið var að flytja út ísfisk í gámum, en sjómenn höfðu hag af því þar sem fiskurinn fór á uppboðsmarkað erlendis. Nú er yfirleitt búið að selja allan þann fisk sem í land kemur, líka þann sem fer í gámana, þannig að sjómenn hafa ekki lengur hag af því að standa yfir þessu,“ segir Valmundur. Þá eigi útgerðin að standa sjómönnum skil á öllum þeim upplýsingum sem varða sölu aflans, ráðstöfun og verð.

400 þúsund króna eingreiðsla

Verði samningurinn samþykktur fá sjómenn 400 þúsund króna eingreiðslu þann 1. mars og er miðað við 160 lögskráningardaga á sl. ári. Það nýmæli er í samningnum að frá árinu 2028 fá sjómenn desemberuppbót í fyrsta sinn, en sú fjárhæð verður hin sama og félagsmanna í Starfsgreinasambandinu. Þá getur framlag í lífeyrissjóð hækkað úr 12% í 15,5%, sjómenn hafi val um það. Vilji menn ekki hækkun á framlagi í lífeyrissjóð hækkar skiptaprósentan um 0,5.

Talsvert meiri kostnaður

„Það er alltaf ánægjulegt að klára verkefni sem okkur hafa verið falin. Þessi ábyrgð fór ekkert frá okkur þótt sjómenn hafi fellt samning fyrir ári, verkefnið síðan þá hefur falist í að átta okkur á því hvað það var sem olli óánægju sjómanna og þá að reyna að koma til móts við þær óánægjuraddir og það er sú niðurstaða sem við sjáum í dag,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS.

Spurð um hvað standi upp úr varðandi tilslakanir SFS frá fyrri samningi, segir Heiðrún Lind að þessi samningur feli í sér talsvert meiri kostnað en hinn fyrri. Hún nefnir þar eingreiðslu sem sjómenn fá 1. mars, desemberuppbót sem sé nýmæli og ekki tíðkast í hlutaskiptakerfi, einnig hækkun á tímakaupi sem og aukið svigrúm til uppsagnar samningsins.

Varðandi tímalengd samningsins segir Heiðrún Lind að festa og fyrirsjáanleiki sé almennt kostur í samningi sem þessum.

„Þá er hægt að einbeita sér að verðmætasköpun sem báðir aðilar njóta góðs af. Þetta er hlutaskiptakerfi sem felst í að verðmætum er skipt á milli fyrirtækja og áhafnar, þannig að lengd samningsins er kostur,“ segir Heiðrún Lind.

Fyrir ári gerðu SFS og skipstjórnarmenn með sér kjarasamning, en viðræður hafa staðið yfir við VM, Félag vélstjóra og málmtæknimanna og félag sjómanna í Grindavík. Heiðrún Lind segir þær viðræður ganga með ágætum, en þó sé samningur ekki í sjónmáli. Hins vegar gefi nýgerður samningur við sjómenn ákveðna vísbendingu um það sem í boði er.

Heiðrún Lind segist telja að skiptar skoðanir séu meðal útvegsmanna um ágæti samningsins, en málið verði rætt og endanleg ákvörðun tekin af stjórn samtakanna. Hún segir aðspurð að samningurinn geti haft ólík áhrif í einstaka útgerðarflokkum, en reynt sé að gæta að því að verða ekki til þess að tilteknir útgerðarflokkar eigi í erfiðleikum með að lifa með samningnum.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson