Sigurður Þ. Guðmundsson fæddist 1. október 1941 á Karlagötu 21 í Reykjavík. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Mörk 7. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Guðmundur Guðjónsson, f. 17. ágúst 1889, d. 20. júní 1965, og Kristín Brynjólfsdóttir, f. 22. september 1901, d. 23. janúar 1978.

Systkini Sigurðar voru fimm, öll látin: Guðjón, f. 1923, Guðrún, f. 1925, Inga, f. 1929, Bryngeir, f. 1934, og Jón Haukur, f. 1940, en dó á fjórða ári úr barnaveiki.

Sigurður giftist Gunnvöru Björnsdóttur, f. 1942, d. 2010. Þau skildu. Synir þeirra eru: 1) Björn, f. 29. september 1962. Dætur hans og Christine Svens eru Rúna, f. 31. janúar 1987, og Freyja, f. 20. nóvember 1992. 2) Guðmundur, f. 31. október 1965. Börn Guðmundar og Jónínu Magnúsdóttur eru tvíburarnir Sigurður Þorsteinn og Magnús Sigurjón, f. 21. desember 1986, og Steinunn Inga, f. 28. október 1993.

Seinni kona Sigurðar er Guðlaug Freyja Löve, f. 29. júní 1946. Þau giftu sig 10. maí 1972. Dóttir Guðlaugar Freyju er Berglind Einarsdóttir, f. 27. júní 1966, stjúp- og uppeldisdóttir Sigurðar. Sonur Sigurðar og Guðlaugar Freyju er Brynjar Karl, f. 17. september 1973. Kona hans er Helena Guðrún Óskarsdóttir, f. 10. apríl 1975. Þeirra börn eru Tanja Ósk, f. 26. apríl 2007, og Tristan Valur, f. 24. júlí 2010.

Sigurður var langyngstur systkina sinna og þurfti snemma að draga björg í bú og hljóp í ýmis störf. Hann var í sveit í Héraðsdal í Lýtingsstaðahreppi í sjö ár. Eftir gagnfræðapróf frá Austurbæjarskóla fékk hann vinnu hjá Tryggingafélaginu Sjóvá og þar kviknaði áhugi hans á tryggingamálum. Hann fór til Danmerkur í nám í tryggingafræðum og var þar samanlagt í rúm þrjú ár. Hann starfaði svo lengst af hjá Samvinnutryggingum Andvöku og Almennum tryggingum.

Sigurði varð stundum að orði að hann væri alinn upp í Sundhöllinni frá átta ára aldri. Hann var ungur tekinn inn í eldri sundflokka og keppti m.a. í sundknattleik. Hann þjálfaði sundfólk og fór m.a. með hóp til keppni í Barcelona. Hann tók dómarapróf í sundi og einnig í kraftlyftingum og fór á Ólympíuleikana 1972. Hann var fimm ár formaður Sundfélagsins Ægis.

Hann lék einnig körfubolta sem hann hafði mikinn áhuga á. Hann fór með ungan son sinn, Brynjar Karl, á körfuboltaæfingu hjá Sigvalda Ingimundarsyni og þá var ekki aftur snúið.

Þarna kviknaði áhugi Brynjars Karls sem stendur enn, og fylgdi faðir hans honum eins og hægt var, hvert eða hvort heldur sem sonurinn keppti eða þjálfaði og varla margir foreldrar sem sýnt hafa slíka rækslu.

Um sextugsaldur fór heilsu Sigurðar að hraka og eftir mikla þrautagöngu greindist hann með tauga- og heilasjúkdóminn Lewy body sem fljótt tók sinn toll. Hann varð þá að hætta vinnu og fékk dagvistun hjá Alzheimersamtökunum í nokkur ár. Árið 2012 fluttust þau hjón í íbúð í Mörkinni, og 2014 fékk hann inni á Hjúkrunarheimilinu Mörk og var þar til dauðadags.

Útför Sigurðar fór fram í kyrrþey 26. janúar.

Orðin sem ég aldrei finn

Ég veit þau búa einhvers staðar öll

en aldrei finn ég þeirra djúpa helli

þó svo ég leiti fram í efstu elli

um úfna vegi: tungunnar bröttu fjöll.

Ég veit þau finnast aldrei. Engum mönnum
þau orð ég flyt sem geymi huga minn:

þágu frá aldinkjöti sætleik sinn

og særðu herzlu og styrk úr úlfsins tönnum.

(Hannes Pétursson)

Guðlaug Freyja.

Sigurður Þ. Guðmundsson var æskuvinur minn úr Norðurmýrinni. Fyrir ókunnuga má þess geta að Norðurmýrin er í Reykjavík og er íbúðahverfi sem afmarkast af Rauðarárstíg og Snorrabraut og nær alla leið að Miklubraut. Það sem vekur athygli margra er að göturnar í Norðurmýri eru nefndar eftir fornmönnum Íslendingasagna. Þess vegna verða Landnáma, Laxdæla og Njála ljóslifandi fyrir hugskotssjónum þeirra sem eiga erindi eða búa í Norðurmýrinni. Á þessa staðreynd er minnst á hér, því Siggi Þ. bjó á Karlagötu en undirritaður í næstu götu, Vífilsgötu, en Karli og Vífill voru þrælar Ingólfs Arnarsonar eins og allir vita. Þegar við Siggi ólumst upp í Norðurmýrinni um miðbik síðustu aldar má segja að barnafjölskyldur hafi verið í hverju húsi og má því nærri geta að það hafi verið líf og fjör hjá öllum krakkaskaranum flesta daga ársins, en þó sérstaklega á björtum sumarkvöldum. Í þessum hugleiðingum mínum verð ég líka að geta þess að á æskuárum mínum voru óvenjulega margir strákar í hverfinu sem hétu sama swkírnarnafninu sem var og er Sigurður. Hver og einn var kallaður Siggi og til aðgreiningar voru þeir flestir nefndir eftir mæðrum sínum. Þannig spruttu upp nöfnin Ellu-Siggi, Fjólu-Siggi og Jónu-Siggi, svo nokkur dæmi séu tekin. Það var hins vegar öðruvísi með æskuvin minn Sigga Þ. Til aðgreiningar frá öðrum Siggum var hann alltaf kallaður Siggi í hvíta húsinu en Siggi átti einmitt heima í reisulegu hvítu húsi á mótum Karlagötu og Skarphéðinsgötu. Á þessa skringilegu nafnahefð minntist ég á við Sigga í síðasta skiptið sem við hittumst og höfðum við gaman að.

Æskuvinur er fallegt orð og ætti eiginlega að vera skrifað með stórum staf. En þannig var það nú, því við Siggi vorum sannarlega æskuvinir. Á lífsins braut vann Sigurður við tryggingastörf og um tíma störfuðum við saman á þeim vettvangi hjá Samvinnutryggingum sálugu. Við Siggi hittumst oft en svo komu tímar þar sem við vorum langdvölum að sýsla hvort í sínu horninu. Það er hins vegar þannig að þegar um æskuvini er að ræða og þegar þeir hittast aftur eftir langt hlé, þá er eins og þeir hafi hist í gær. Þannig voru samskipti og vinátta okkar Hann var traustur og góður drengur og þannig mun ég ávallt minnast hans.

Síðustu árin voru honum erfið og ég er ekki frá því að ferðin í sumarlandið hafi verið honum líkn í þraut, „því þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt en jörðin fær hlutdeild í himninum“, svo vitnað sé í Heimsljós Halldórs Laxness.

Um leið og ég kveð æskuvin minn Sigurð Þ. Guðmundsson sendi ég Guðlaugu Freyju og öllum öðrum ástvinum hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Hrafn

Magnússon.

Leiðir okkar Sigurðar lágu saman þegar við tengdumst fjölskylduböndum og hann og Guðlaug Freyja kona hans tóku okkur opnum örmum. Vinátta okkar styrktist við nánari kynni af landi og menningu. Sú viðkynning var mjög bundin heimilinu að Kleifarseli 9. Samtal á tveimur tungum skilaði stundum orðum sem hljómuðu svo líkt á báðum málum.

Á sama hátt fengu dæturnar að njóta uppruna síns og róta í hreiðrinu þar sem þær voru ætíð velkomnar. Þar var ævintýraheimur þeirra í skoti undir stiga eða í eldhúsi þar sem fjölskyldan settist saman. Þótt Sigurður afi gengi ekki heill til skógar var hann ætíð reiðubúinn til að gleðja telpurnar með sundlaugarferð að degi til eða myndbandasýningu fram eftir kvöldi.

Marga kvöldstund áttum við efnisrík samtöl í sófahorninu og nutum margs sem við áttum sameiginlegt, ekki síst þess húmors sem treystir ætíð vinaböndin. Ég er innilega þakklát fyrir alla þá umhyggju og ást sem Sigurður sýndi okkur á heimili sínu. Þar áttum við ætíð athvarf og munum lengi minnast þess. Að Sigurði gengnum fyllist hugur okkar söknuði og trega. Í orðum Claes Andersons felst hughreysting sem við fáum ekki tjáð á annarri tungu:

Den vi saknar mister vi aldrig.

Den vi älskat saknar vi alltid.

Vi mister aldrig den vi älskat.

Den vi älskat älskar vi alltid.

Christina Svens, Rúna og Freyja Björnsdætur.

Mig langar til að minnast Sigurðar Þ. Guðmundssonar, mannsins hennar Gullu vinkonu minnar, í örfáum orðum. Siggi, eða Sigurður Þ., var einstakur öðlingur sem lét ekki mikið fyrir sér fara en var einstaklega traustur og áreiðanlegur. Hann menntaði sig í tryggingafræðum og starfaði við tryggingar lengst af hjá Samvinnutryggingum og Almennum tryggingum. Siggi var alla tíð mikill íþróttamaður og þjálfaði bæði yngri hópa Ægis í sundi og úrvalsdeildir kvenna í handbolta. Hann keppti einnig lengi sjálfur í sundknattleik með Ægi og var þar formaður í nokkur ár. Þá var Siggi mikill útivistarmaður sem naut þess að fara í langar gönguferðir og á gönguskíði þegar færi gafst.

Þegar ég kynntist Gullu um miðjan tíunda áratug síðustu aldar bjuggu þau Siggi í Kleifarselinu. Þar höfðu þau búið sér fallegt heimili sem Siggi naut þess að nostra við, t.d. smíðaði hann allar innréttingar í húsið sjálfur og sá um allt viðhald þess. Um þetta leyti hafði Gulla greinst í annað sinn á tíu árum með krabbamein. Tryggð Sigga og ræktarsemi við hana var þá eins og alltaf aðdáunarverð en hann stóð ávallt eins og klettur með konu sinni og studdi hana í gegnum súrt og sætt.

Rétt upp úr aldamótum þegar Siggi var aðeins rúmlega sextugur tók að halla undan fæti fyrir honum. Hann greindist með tauga- og heilabilunarsjúkdóminn lewy-body sem fljótt tók sinn toll. Hann varð að hætta að vinna, þau Gulla seldu Kleifarselið og fluttu í íbúð í Mörkinni árið 2012. Árið 2014 flutti Siggi síðan inn á hjúkrunarheimilið í Mörkinni. Í baráttunni við þennan illvíga sjúkdóm, sem að lokum lagði hann að velli, sýndi Siggi ótrúlega seiglu og þrautseigju. Gulla annaðist mann sinn af einstakri alúð öll þessi ár og var ekki í rónni nema hún kæmist til hans helst oft á dag. Hún dvaldi hjá honum löngum stundum, las fyrir hann, klæddi og mataði. Ekkert var of gott fyrir mann hennar. Nú þegar Siggi hefur loks fengið hvíldina þakka ég honum góða viðkynningu og votta Gullu og öðrum aðstandendum samúð mína.

Sigríður

Sigurjónsdóttir.