Göngur Nýting á afréttum hefur verið hluti af búskap bænda alla tíð og stór hluti af sameiginlegri menningu og samveru sveitasamfélagsins.
Göngur Nýting á afréttum hefur verið hluti af búskap bænda alla tíð og stór hluti af sameiginlegri menningu og samveru sveitasamfélagsins. — Morgunblaðið/Sigurður Sigmundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is Það lítur út fyrir að þeir sem skrifa þessa reglugerð séu á móti sauðfjárbeit á hálendinu og ætli sér að nota hana markvisst til að útiloka afréttarnýtingu bænda víða um land,“ segir Eiríkur Jónsson, sauðfjárbóndi í Gýgjarhólskoti í Biskupstungum, um ný drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu sem matvælaráðuneytið lagði fram til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á dögunum.

Viðtal

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Það lítur út fyrir að þeir sem skrifa þessa reglugerð séu á móti sauðfjárbeit á hálendinu og ætli sér að nota hana markvisst til að útiloka afréttarnýtingu bænda víða um land,“ segir Eiríkur Jónsson, sauðfjárbóndi í Gýgjarhólskoti í Biskupstungum, um ný drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu sem matvælaráðuneytið lagði fram til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á dögunum.

Eiríkur, sem er formaður fjallskilanefndar Biskupstungna, setur inn umsögn um reglugerðina fyrir hönd nefndarinnar, en hann segir bændur í Biskupstungum lítt hrifna af þessu nýja útspili matvælaráðuneytisins.

„Ef þessar fyrirætlanir ná fram að ganga má gera ráð fyrir að megnið af því landbótastarfi sem bændur hafa unnið í samvinnu við Landgræðsluna leggist af og niðurstaðan verður minni framför á gróðri og aukning jarðvegseyðingar,“ segir í umsögn fjallskilanefndar í samráðsgátt stjórnvalda.

Löng forsaga

Eiríkur segir að hægt sé að rekja málið til laga um landgræðslu þar sem gerð sé krafa um að öll landnýting sé sjálfbær. „Síðan á þessi reglugerð að skilgreina hvað sé sjálfbær landnýting,“ segir Eiríkur sem telur að reglugerðin sé meingölluð.

„Þetta á sér dálitla forsögu. Það eru rúm tvö ár síðan fyrstu tillögur voru settar fram, sem voru reknar til baka og svo koma þeir aftur núna, og þótt það sé eitthvað breytt er það ekki skárra og ekkert tekið á þeim grundvallarskilgreiningum sem við bændur erum ósáttir við.“

Óraunhæfar skilgreiningar

Eiríkur segir að í reglugerðinni sé sjálfbærni skilgreind með þeim hætti að ástand landsins þurfi að vera eins gott og það gæti mögulega verið ef það hefði aldrei komið kuldatímabil.

„Við skiljum það hins vegar þannig að á meðan landið sé ekki í afturför, þá sé um sjálfbæra nýtingu að ræða,“ segir Eiríkur og bætir við að með skilgreiningum á hugtakinu „vistgetu“ sé farið að skilgreina land eins og það „gæti verið“ ef landgæðum hefði aldrei hnignað, hvort sem það væri vegna náttúruaflanna, sauðfjárbeitar eða annarra þátta. Eiríkur segir vita vonlaust að nálgast þetta svona, því þessi ímyndaði jarðvegur sé ekki til staðar.

„Á einum stað er sett krafa um að landnot stuðli að framför en það hlýtur að duga að landnotin komi ekki í veg fyrir framför eða valdi ekki skaða. Mér finnst óraunhæft að gera þá kröfu að landnot verði að auka landgæðin.“

Þarf ramma um mælingar

Í skýringum með drögum reglugerðarinnar segir að „sjálfbær landnýting … [sé] landnýting þar sem starfsemi og bygging vistkerfis viðhelst eða eflist og vistkerfið er jafnframt í ásættanlegu ástandi. Þetta er mikilvægt, þar sem stór hluti landsvistkerfa landsins hefur þegar orðið fyrir verulegri hnignun og mun haldast í því ástandi nema breyting verði á nýtingu eða gripið til endurheimtaraðgerða“ og segir að þessi skilgreining sé í takt við skilgreiningu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) sem leggi áherslu á að tryggja langtímagetu auðlindanna og virkni þeirra.

Eiríkur segir að allt hljómi þetta vel á pappírnum, en eðlileg nýting á afréttum hljóti að vera hluti af eðlilegu landvistkerfi. Hann segir að hann hefði frekar viljað sjá í þessari reglugerð meira um mæliaðferðir við mat, hversu langur tími ætti að líða á milli mælinga og fleiri praktíska hluti sem myndu tryggja að landgæðin væru ekki að dvína. „Það væri bara af hinu góða að leggja mat á þetta.“

Afréttunum rænt 1998

Er markvisst verið að koma í veg fyrir að bændur geti nýtt sér beitarrétt á afréttum með þessari reglugerð?

„Já, ég tel að það sé hugmyndin á bak við þetta,“ segir Eiríkur. Hann segir að bændur í sinni sveit setji þessa reglugerð í samband við lög um þjóðlendur frá árinu 1998.

„Við teljum að með þeim lögum hafi afréttum verið rænt af bændum, en þá var fundið út að bændur ættu ekki afréttina, einungis beitarréttinn. Með þessari reglugerð er verið að ganga alla leið og taka beitarréttinn líka. Manni finnst þetta vera framhaldssaga af því og verið að ræna bændur afréttunum.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir