Baldvin Björgvinsson
Baldvin Björgvinsson
Rafbúnað og -lagnir í húsum þarf að endurnýja reglulega.

Baldvin Björgvinsson

Hversu oft þarf að endurnýja rafbúnað? Við þessari spurningu er til bæði einfalt og flókið svar. Hér verður reynt að veita svar sem almenningur getur skilið.

Eins og flestir vita hefur allur rafbúnaður takmarkaðan líftíma, sérstaklega sá búnaður sem stungið er í samband með kló. Í dag borgar sig ekki að gera við tæki heldur er bara keypt nýtt í staðinn, til dæmis brauðristar, sjónvörp o.s.frv. Oft er endingartími slíkra tækja ekki langur eða bara nokkur ár. Til er hæstaréttardómur um að ísskápur skuli duga í að minnsta kosti fimm ár en almenn ábyrgð raftækja er tvö ár samkvæmt Evróputilskipun.

En hvað með raflögn íbúðarhússins? Vírarnir inni í veggjunum, rofarnir fyrir ljósin, tenglarnir til að stinga tækjum í samband og varbúnaðurinn í rafmagnstöflunni. Hvað endist það lengi? Virtur evrópskur framleiðandi gefur upp að líftími rafbúnaðar sé 30 ár. Allur rafbúnaður í dag er úr plasti og plast endist í einhverja áratugi, mismunandi eftir gæðum, hvaða plast er notað, umhverfisaðstæðum og álagi á búnaðinn.

Segja má að eftir tíu ár sé rétt að gera ítarlega sjónskoðun og sjá hvort eitthvað sé skemmt, brotnar framhliðar, brunnir tenglar eða annað augljóst. Eitthvað sem íbúi ætti að geta gert sjálfur eða fengið fagmann til að gera. Ýta þarf á prufuhnapp lekaliða að minnsta kosti árlega. Skipta um það sem er skemmt.

Eftir 20 ár er gott að fá fagmann til að skoða rafkerfi hússins nokkuð ítarlega og meta hvort lagfæringa sé þörf og leggja fram tillögu að lagfæringum. Fagmaðurinn á að framkvæma sérstakar prófanir á varbúnaði. Eðlilegt er að skipta um skemmdan eða úreltan búnað.

Eftir 30 ár er kominn tími til að skipta um varbúnað í rafmagnstöflu hússins enda má til dæmis búast við að einn lekaliði af hverjum tíu sé hættur að virka rétt og annar varbúnaður getur einnig verið hættur að vinna rétt. Annan rafbúnað svo sem rofa og tengla ætti einnig að endurnýja. Skoða ætti ástand raflagnar ítarlega og endurnýja eftir mati fagmanns.

Aðrar ástæður fyrir þörf á að skipta um búnað er erfitt að útskýra fyrir hinum almenna borgara en miklar breytingar hafa orðið á þeim raftækjum sem notuð hafa verið undanfarna áratugi. Flestir þekkja LED-ljósaperurnar en notkun þeirra dregur verulega úr raforkunotkun. Bæði LED-ljósaperur og annar nútímarafbúnaður veldur þekktum vandamálum sem lýsa sér þannig að þó öll raftæki séu í fullkomnu lagi, þá slær varbúnaður út. Mesta hættan er þegar rafmagn fer af í stutta stund hjá rafveitu, sem er ekkert óalgengt og kemur á aftur. Þá verða svokallaðir ræsistraumar til þess að eins og fyrr segir, þó allt sé í fullkomnu lagi þá slær einhver varbúnaður út. Það er ekki gaman að koma heim úr fríi, allt ónýtt í frystikistunni og fiskarnir fljótandi dauðir í yfirborði fiskabúrsins. Ekki rafveitunni að kenna, heldur er úreltur varbúnaður í fasteigninni.

Fagmaður þarf að gera viðeigandi ráðstafanir. Fjölga bilunarrofum (lekaliðum), velja tregari vör þar sem það á við og svo framvegis. Við val á varbúnaði er einnig hægt að fá búnað með svokallaðri neistaskynjun, sem skynjar ef það er rafmagnsbilun einhvers staðar sem er með rafmagnsneista og þar með íkveikihættu. Þessu er hægt að verjast með neistaskynjandi vari. Það er valkostur sem kostar ekki mikið meira. Einnig er í boði svokölluð eldingavörn sem er kannski rangnefni því sá búnaður einfaldlega ver gegn of hárri spennu.

Þar sem verið er að hlaða rafhlöður, svo sem rafbíla og rafhjól, verður að vera sérstök gerð af bilunarrofa (lekaliða) sem rýfur straum ef bilun kemur frá hleðslubúnaði og rafmagnið frá rafhlöðunni kemst inn á rafkerfið. Slíkt getur skemmt illa út frá sér. Sú vörn er ætíð innbyggð í heimahleðslustöðvum fyrir rafbíla í dag og því áríðandi að rafbílar séu hlaðnir með heimahleðslustöð en ekki með því að stinga snúrunni sem fylgir bílnum bara í einhverja innstungu.

Fagmaður á að geta leiðbeint með val á réttum búnaði en líklegast er besta lausnin í dag að setja svokallaðan sambyggðan varbúnað sem er sambyggður bilunarrofi og sjálfvar á hverja grein ef verið er að endurnýja á annað borð. Það kostar eitthvað meira en það er verið að endurnýja til næstu 30 ára og við hljótum að vilja að búnaðurinn sem valinn er verði ekki til vandræða á þeim tíma. Einnig ættu þeir sem eru að byggja nýtt íbúðar- eða atvinnuhúsnæði í dag að íhuga vandlega þá betri valkosti sem í boði eru og hafa verið nefndir hér.

Höfundur er raffræðingur og kennari við Raftækniskólann.

Höf.: Baldvin Björgvinsson