Íslenskt regluverk þarf ekki að vera þyngra en í öðrum löndum.
Íslenskt regluverk þarf ekki að vera þyngra en í öðrum löndum. — Mynd/Colourbox
Það er ánægjulegt að sjá stjórnmálamenn vakna til lífsins og boða nú að til standi að taka á því vandamáli sem í daglegu tali kallast gullhúðun

Það er ánægjulegt að sjá stjórnmálamenn vakna til lífsins og boða nú að til standi að taka á því vandamáli sem í daglegu tali kallast gullhúðun. Þegar rætt er um gullhúðun er átt við þegar stjórnmálamenn eða embættismenn innleiða EES-reglugerðir og tilskipanir Evrópusambandsins (ESB) með séríslenskum hætti og ýmist bæta við ákvæðum eða gera þau meira íþyngjandi en upphaflega reglugerðin gerði ráð fyrir.

Um þetta hefur nokkuð verið fjallað að undanförnu. Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kynnti nýverið skýrslu þar sem fram kom að regluverk sem innleitt hefur verið af því ráðuneyti á árunum 2010 til 2022 hefur sætt gullhúðun í 41% tilvika. Eitt af þeim dæmum sem nefnd voru, þar sem gengið var langt við gullhúðun regluverks, er reglugerð um lagningu leiðslna í jörð þar sem skylt er að fara í umhverfismat þegar leiðslurnar væru lengri en 1 km, þegar tilskipun ESB miðaði við 40 km. Eins og gefur að skilja er þetta til þess fallið að íþyngja öllum rekstri, tefja mál, auka kostnað og þannig mætti áfram telja.

Hér er aðeins nefnt eitt dæmi af mörgum sem til eru þegar regluverkið er skoðað nánar. Dæmið hér er að einhverju leyti lýsandi um þær öfgar sem geta átt sér stað þegar atvinnulífinu eru sett lög og reglur. Það má vissulega gera grín að þessu en vandamálið er þó mun stærra. Það er til dæmis ekki búið að svara einfaldri spurningu varðandi þetta tiltekna mál: Hverjum dettur í hug að fjörutíufalda viðmiðin sem gerð eru? Að sama skapi mætti spyrja hvernig í ósköpunum svona vitleysa fór í gegnum ráðuneyti og þingnefndir án þess að nokkur kæmi auga á þau ýktu viðmið sem þarna voru sett.

Þetta litla dæmi er þó gott að sumu leyti, því það sýnir við hvað atvinnulífið er að eiga. Væntanlega sitja embættismenn í ráðuneytum sem hafa aldrei lagt línu í jörð og hafa ekki hugmynd um hvað það kostar. Þá er í sjálfu sér lítið mál að breyta 1 í 40, mögulega bara af því bara. Við ættum þó að velta fyrir okkur í hversu mörgum tilvikum slíkum tölum eða öðrum viðmiðum hefur verið breytt – með íþyngjandi hætti fyrir íslenskt atvinnulíf.

Gullhúðun er ekki bara vandamál atvinnlífsins heldur samfélagsins í heild. Ef reglurnar hér eru þyngri en annars staðar verður dýrara að reka fyrirtæki, það verða til færri störf, umsvifin í hagkerfinu verða minni og þannig mætti áfram telja. Þá eru ótalin verkefnin og umsvifin sem aldrei urðu vegna íþyngjandi regluverks. Það stendur upp á kjörna fulltrúa að ekki bara tala um þetta heldur gera á þessu umtalsverðar breytingar.