Ólöf Sigurðardóttir fæddist 19. september 1939. Hún lést 30. janúar 2024. Útför hennar fór fram 5. febrúar 2024.

Með ást, virðingu, þakklæti og sorg kveð ég þig, elsku Ólöf mín. Þú varst mér og okkur alltaf svo kær, trygg og góð manneskja. Þegar ég hugsa til þín þá koma upp ógrynni af dýrmætum minningum úr bernskunni þegar við Halla og Birna dóttir þín vorum ungar stelpur og þið fjölskyldan bjugguð í Gljúfraselinu. Birna er besta vinkona okkar Höllu og þannig kynntumst við þér. Það var mikið lán að kynnast þér og á þessum tíma voruð þið Dóri okkur eins og foreldrar og þú og fjölskyldan tókuð okkur alltaf opnum örmum. Í framhaldi urðum við góðar vinkonur og gátum talað endalaust um allt og ekkert en þegar ég hringdi í þig þá spurðir þú mig alltaf „hvað er að frétta af Höllu minni“ og síðan þegar þú talaðir við Höllu þá var það það sama „hvað er að frétta af Berglindi minni?“. Já, þú vildir vita hvernig gengi hjá okkur og þú varst miðjan í öllu, mamman sem hélst utan um allt og alla. Það sem mér þykir vænt um þig, elsku dýrmæta Ólöf, og allt það fallega og góða sem þú hefur gert fyrir mig. Þú áttir best með að sýna væntumþykju með því að hlúa að fólkinu þínu og ef þú vissir af einhverjum sem þurfti aðstoð þá varstu fyrst til að bjóða fram þína krafta og alltaf komstu færandi hendi til að gleðja okkur og aðra. Eitt sumar bjuggum við Halla og Birna í Svíþjóð, þá komuð þið Dóri til Kaupmannahafnar þar sem við ákváðum að hittast og eyða tíma saman, en sú ferð var svo rosalega skemmtileg og eftirminnileg. Ég var svo útsjónarsöm seinna á ævinni að giftast inn í fjölskylduna, Ögmundarættina, þar sem maðurinn minn og Dóri maðurinn þinn voru náskyldir þannig að við hittumst því oft við ýmis tækifæri, í veislum og öðru. Ég á eftir að sakna þess að geta tekið upp símann og hringt í þig og heyrt í þér hljóðið og einnig að geta án nokkurs fyrirvara skotist til þín, en við vorum nýbúnar að heyrast og planið var að ég kæmi til þín í heimsókn á Vífilsstaði. Ég spurði hvort þú vildir að ég kæmi með eitthvað með kaffinu eða hvort ég ætti bara að koma með nammi. Þú sagðir „nei, nei, ekki koma með neitt, ég má alls ekki við því út af blóðsykrinum“. Já, ég hefði átt að drífa mig til þín en þú varst bara svo sannfærð um að þetta væri bara tímabundið ástand og þú værir á leiðinni á Hamra.
Elsku Ólöf, þú verður alltaf í hjarta mínu sem mamman, konan, vinkonan sem ég elskaði af öllu hjarta og er stolt af að hafa þekkt. Guð blessi þína fallegu, björtu minningu. Það er gott að vita til þess að þið Dóri og Edda dóttir ykkar séuð sameinuð á ný.
Elsku Birna vinkona mín, Guðbjörg, Pálmar, Bára og aðrir ástvinir, ég sendi mína dýpstu samúð til ykkar, Guð gefi ykkur styrk á erfiðum tíma og alltaf. Blessuð sé minning elsku Ólafar.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði vina mín kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Berglind Ólafsdóttir.