Guðjón Sigurbjartsson
Guðjón Sigurbjartsson
Með því að auka svona það sem er til skiptanna og lækka grunnútgjöldin getum við bætt hag meðalfjölskyldu um nálægt 1 milljón kr. á mánuði.

Guðjón Sigurbjartsson

Það þýðir því miður ekki að hækka laun án þess að til hafi orðið aukin verðmæti. Það leiðir bara til verðbólgu með tilheyrandi tjóni fyrir þá sem síst skyldi. Svo nægir ekki heldur að fá margar krónur í tekjur ef föstu útgjöldin eru enn hærri.

Oft er sagt að við séum ein ríkasta þjóð í heimi og því hljóti allir að geta haft það gott. En þetta er bara hálf sagan og varla það. Við höfum vissulega háar þjóðartekjur á mann en jöfnuður er hér mestur samkvæmt Gini-stuðli og því óraunhæft að færa mikið meira frá þeim sem hafa til hinna sem vantar.

Kostnaður við grunnþarfir, það er fæði, klæði og húsnæði, er hér með því mesta á heimsvísu.

Til að bæta kjörin þurfum við að auka það sem er til skiptanna, stækka kökuna, og lækka kostnað við grunnþarfir verulega og það er vel hægt. Hér eru helstu leiðir til þess útskýrðar.

Orkuauðlindir okkar standa undir um 30% af efnahagslegum lífsgæðum í landinu. Við getum tvöfaldað umhverfisvæna orkuframleiðslu á nokkrum árum með því að virkja vindinn og þar með stækkað kökuna um 30%. Þetta mun standa undir verulegum efnahagslegum framförum og minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

Fleira þarf að sjálfsögðu að gera til að stækka kökuna því okkur fjölgar. Á næstu árum mun hagnýting GAI, almennrar gervigreindar, leiða til mikilla efnahagslegra framfara. Við þurfum að vera fljót til að nýta þau óþrjótandi tækifæri sem í henni felast.

Að draga úr kostnaði við grunnþarfir

Tollar á innflutt matvæli halda verði á kjöti, mjólk og eggjum hér um 35% hærra en annars væri. Matartollarnir eru verstu tollarnir fyrir fátækt fólk. Allar Evrópusambandsþjóðirnar hafa fellt niður tolla á matvæli sín á milli. Á móti tollaniðurfellingu þarf að auka grunnstuðning við bændur.

Þegar innlend matvara mætir erlendri samkeppni gæti framboð og verð landbúnaðarvara ráðist á markaði. Framboðið myndi lagast að eftirspurn neytenda og bændur sem vel standa sig í samkeppninni myndu bæta sinn hag. Þetta er nokkuð sem löngu er búið að gera í Evrópu.

Niðurfelling matartolla myndi lækka mánaðarleg útgjöld á mann um nálægt 15.000 kr. sem gerir um 60.000 kr. fyrir meðalfjölskyldu.

Lækkum vexti og viðskiptakostnað

Vextir á íbúðalánum í krónum hafa um árabil verið rúmlega 4% hærri á Íslandi en í evrulöndunum. Meðalfjárhæð nýrra íbúðarlána er nú um 50 milljónir kr. og vaxtakostnaður af þeirri upphæð er því um 2 milljónum kr. hærri á ári en af samsvarandi evruláni. Það jafngildir 170 þúsund kr. hærri vaxtakostnaði á mánuði.

Upptaka evrunnar í stað krónunnar mun draga úr sveiflum, efla efnahagslegan stöðugleika og fjölga góðum fyrirtækjum sem greiða góð laun og lækka verðlag. Við gætum farið að taka lán í erlendum bönkum og hérlendir bankar fengju alvöru samkeppni sem myndi bæta þeirra þjónustu.

Vissulega þyrftum við að ganga í Evrópusambandið til að taka upp evruna en það myndi færa okkur verðugan sess við stjórnvöl sambandsins og gera okkur gott. Að sjálfsögðu yrði sjálfbær nýting náttúruauðlinda svo sem sjávarfangs að vera tryggð.

Upptaka evru myndi færa meðalskuldsettu heimili 50 til 100.000 kr. kostnaðarlækkun á mánuði.

Lækkum verð íbúðarhúsnæðis

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun áætlar að næsta áratug þurfi um 4.000 nýjar íbúðir inn á markaðinn á ári. Sala íbúðarhúsnæðis og framleiðsla sveiflast mjög mikið og kostnaðarverð er því hærri en vera þyrfti. Það vantar langtímahugsun í fjármögnun byggingarframkvæmda sem myndi jafna framleiðslu og lækka verð.

Ef því væri beint að hinum fjársterku lífeyrissjóðum að þeir fjármagni byggingu segjum um eins þriðja eða um 1.500 íbúða á ári, án tillits til sveiflna í eftirspurn, myndi framleiðslukostnaðarverð íbúða lækka vegna stöðugleika og draga úr verðsveiflum vegna skorts því lager myndi safnast upp af íbúðum í kreppum sem svo væru seldar í uppsveiflum með sveiflujöfnun að markmiði.

Með þessu móti mætti lauslega áætlað lækka meðalverð íbúða um 10-20%.

Lækkum samgöngukostnað

Hágæða almenningssamgöngur gefa fólki kost á að sleppa því að eiga bíl eða aukabíl. Það er því mikilvægt að almenningssamgöngur verði efldar að mun og borgarlínan komi sem fyrst.

Hver bíll sem heimili getur sleppt að eiga og reka lækkar kostnað þess um nálægt 50.000 kr. á mánuði.

Samandregið

Með því að auka verulega það sem er til skiptanna og lækka grunnútgjöldin getum við bætt hag hvers og eins um á að giska 30%. Fyrir fjögurra manna fjölskyldu væri upphæðin jafnvel um 1 milljón kr. á mánuði.

Jafnframt myndu tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga aukast mikið þannig að þau gætu bætt sína þjónustu verulega.

Um þetta ættu kjaraviðræðurnar að snúast því krónutöluhækkanir sem kreistar eru út án innistæðu skila engu.

Höfundur er viðskiptafræðingur

Höf.: Guðjón Sigurbjartsson