Það er orðið mikið áhyggjuefni, að sögn viðmælenda, að skatturinn skuli hafa skipt um áherslur. Það valdi ófyrirsjáanleika í skattframkvæmd og réttaróvissu fyrir erlenda fjárfesta.
Það er orðið mikið áhyggjuefni, að sögn viðmælenda, að skatturinn skuli hafa skipt um áherslur. Það valdi ófyrirsjáanleika í skattframkvæmd og réttaróvissu fyrir erlenda fjárfesta. — Morgunblaðið/sisi
„Það er merkilegt að á Íslandi sé enginn fyrirsjáanleiki í skattheimtu. Auðvitað vita allir að það á að borga tekju- og fjármagnstekjuskatt og það ber að standa skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu

„Það er merkilegt að á Íslandi sé enginn fyrirsjáanleiki í skattheimtu. Auðvitað vita allir að það á að borga tekju- og fjármagnstekjuskatt og það ber að standa skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu. En þegar kemur að ýmsum álitamálum, sem koma alltaf upp, sérstaklega í rekstri fyrirtækja, þá er ekki á vísan að róa hjá skattinum og hefur verið þannig um langa hríð,“ segir Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður í samtali við ViðskiptaMoggann í framhaldi af umfjöllun um bónusgreiðslur til starfsmanna skattsins.

„Það hefur verið reynt að fá einhverja forúrskurði hjá skattinum en vandamálið er að fyrirsjáanleiki skattkerfisins er lítill sem enginn nema ef það snertir hefðbundna skatta einstaklinga og fyrirtækja. Þegar kemur að fjárfestingum og ýmsu öðru sem getur verið flókið vandast málin þó heldur betur hjá skattinum. Þá vita aðilar ekkert í hvaða átt þeir eiga að fara,“ segir Sigurður.

Viðmælendur, sem kjósa að tjá sig ekki undir nafni, taka undir með Sigurði G. og segja að á undanförnum árum hafi skatturinn breytt þekktum skattframkvæmdum með nýjum lagatúlkunum og almennt taki stofnunin mjög árásargjarna stöðu, sem valdi meðal annars því að erlendir fjárfestar hugsi sig tvisvar um að fjárfesta hér á landi, þar sem bæði skattar og ekki síður framkvæmd skattheimtu vegur þungt í rekstri fyrirtækja.

Skatturinn breytti um skoðun í miðju ferli

Viðmælendur segjast hafa orðið varir við mikla kúltúrsbreytingu hjá Skattinum fyrir sex árum, sem að hluta til megi rekja til þess þegar embætti Ríkisskattstjóra var stofnað. Embættið var yfirstofun annarra skattstofa á landinu og hafði eftirlits- og samræmingarhlutverki að gegna. Stofnunin gaf út leiðbeiningar og hafði eftirlit með því að skattstjórar ynnu vinnuna sína í samræmi við samræmda skattstefnu undir slagorðinu „réttur skattur á réttum tíma“ sem þýddi það að borga rétta skatta miðað við sett lög. Viðmælendur blaðsins segja að almennt hafi verið farið eftir þessu slagorði og því haldið á loft. Þeir bæta því við að nú ríki almennur ótti gagnvart embættinu og skattframkvæmdin hér á landi sé orðin töluvert flóknari og ófyrirsjáanlegri.

Að sögn viðmælenda hefur slagorðið verið aflagt og kveðst embættið nú vera framsækin þjónustustofnun sem leggi grunn að samfélagslegri þjónustu með því að tryggja tekjuöflun ríkis og sveitarfélaga. Áður fyrr birti skatturinn alltaf á vefsíðu sinni leiðbeiningar um hver afstaða hans væri í ýmsum málum og gaf með því upplýsingar um réttarstöðu skattaðila. Viðmælendur segja að nú sé skatturinn nánast hættur að gefa út slíkar leiðbeiningar og haldi spilunum miklu þéttar að sér. Því sé réttaróvissan í jafn mikilvægum málaflokki orðin nánast algjör. Enginn þeirra veit hver leiðandi túlkun skattsins er á ýmsum álitaefnum. Viðmælendum þykir þó enn verra að skatturinn er byrjaður að skipta um skoðun. Þeir nefna dæmi um erlendan aðila sem skráður hafði verið á virðisaukaskattsskrá með samþykki skattsins, en svo hætti stofnunin við skráninguna og afskráði þegar umræddur aðili vildi fá innskattinn greiddan, með tilheyrandi tjóni og í trássi við meginreglur stjórnsýslulaga.

Að sögn viðmælenda er það rangur skilningur hjá ríkisskattstjóra, sem nýverið sagði opinberlega þegar hvatakerfi skattsins var til umfjöllunar að fólk mætti ekki gleyma því hvert hlutverk embættisins sé, sem er að tryggja tekjur ríkisins og sveitarfélaga. Skilningur viðmælenda er hins vegar sá að stofnunin sem sinnir skattheimtu og skattrannsóknum eigi að tryggja rétt skattskil í samræmi við sett lög.

Óvissan stendur erlendum fjárfestingum fyrir þrifum

Sem fyrr segir kjósa viðmælendur að tjá sig ekki undir nafni, vegna þessarar viðhorfsbreytingar skattsins, og segja að það séu ansi fáir sem vilja hengja nafn sitt við umfjöllun af þessu tagi vegna þeirra miklu hagsmuna sem eru í húfi. Einn viðmælandi fullyrðir að skattframkvæmdin á Íslandi standi erlendum fjárfestingum fyrir þrifum.

„Þegar sest er niður með erlendum fjárfestum sem eru að velta fyrir sér fjárfestingum á Íslandi, þá kemur í ljós, þegar rætt er um skattheimtu, að í milliverðlagningu á milli landa rílki alger óvissa. Það sama á við um erlenda afdráttarskatta og tvísköttunarsamninga við önnur ríki. Þegar kemur að föstum starfsstöðvum sem erlend fyrirtæki vilja hafa á Íslandi ríkir einnig óvissa.“