Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason
Kannski spyrja fleiri hvort ekki sé til betri leið til að styðja við íslenska dagskrárgerð, menningu og listir en að reka opinbert hlutafélag.

Óli Björn Kárason

Á níu árum, 2014 til 2022, lögðu skattgreiðendur liðlega 49 milljarða króna á föstu verðlagi í rekstur Ríkisútvarpsins, sem auk þess aflaði sér um 26 milljarða í tekjur af samkeppnisrekstri og þá fyrst og síðast af sölu auglýsinga. Ríkisútvarpið hafði því á þessum níu árum um 72,2 milljarða króna úr að moða.

Ársreikningur Ríkisútvarpsins fyrir liðið ár hefur ekki verið birtur en að meðtöldu því ári má gera ráð fyrir að heildartekjur á síðustu tíu árum hafi numið töluvert yfir 80 milljörðum króna á föstu verðlagi. Samkvæmt fjárlögum liðins árs var skattgreiðendum ætlað að greiða Ríkisútvarpinu um 5,7 milljarða króna og á þessu ári um 6,1 milljarð. Þetta þýðir að á ellefu árum hefur ríkismiðillinn fengið í sinn hlut yfir 61 milljarð frá skattgreiðendum með milligöngu ríkissjóðs. Við þetta bætast tekjur af samkeppnisrekstri.

Viðskiptablaðið greindi frá því í liðinni viku að reiknað er með að auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins aukist á þessu ári um að minnsta kosti 500 milljónir króna eða um 17,4%. Með hækkun útvarpsgjaldsins (skattsins sem lagður er á landsmenn til að fjármagna ríkisreksturinn) og auknum auglýsingatekjum munu heildartekjur Ríkisútvarpsins aukast um 700 til 800 milljónir króna á þessu ári, samkvæmt Viðskiptablaðinu.

Forréttindi á kostnað jafnræðis

Á sama tíma og ríkismiðillinn fitnar, líkt og púkinn í fjósinu hans Sæmundar, berjast sjálfstæðir fjölmiðlar í bökkum. Með skipulegum hætti gerir Ríkisútvarpið strandhögg á flestum sviðum fjölmiðlunar, allt frá auglýsingum til dagskrárgerðar og hlaðvarpsþátta. Frá aldamótum hefur hlutur Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum íslenskra fjölmiðla aukist úr 15% í 20% og sjónvarps úr 32% í 56%.

Það verður að játa að löggjafanum hafa verið einstaklega mislagðar hendur þegar kemur að því að tryggja heilbrigt umhverfi fjölmiðla hér á landi. Jafnræðisreglunni hefur verið vikið til hliðar til að tryggja forréttindi Ríkisútvarpsins. Í skjóli forréttinda stundar ríkismiðillinn harða samkeppni við sjálfstæða miðla. Forsendum heilbrigðs markaðar og samkeppni – að allir starfi eftir sömu leikreglum – hefur verið vikið til hliðar. Ójöfn og erfið staða sjálfstæðra fjölmiðla er römmuð inn í regluverki sem nýtur stuðnings meirihluta þingmanna. Beinir ríkisstyrkir til einkarekinna fjölmiðla hafa verið innleiddir, sem eins konar syndaaflausn. Beinir ríkisstyrkir eru skilvirk aðferð til að gera fjölmiðla háða valdinu.

Ég hef lengi barist fyrir því að spilin verði stokkuð. Á síðustu árum hefur ég lagt fram nokkur þingmál sem annars vegar miða að því að draga úr samkeppnisrekstri ríkisins á fjölmiðlamarkaði og hins vegar að innleiða skattalegar ívilnanir fyrir sjálfstæða fjölmiðla í stað beinna ríkisstyrkja. Ekkert þessara mála hefur náð fram að ganga, sem ætti kannski ekki að koma á óvart í ljósi þeirrar varðstöðu sem meirihluti þingmanna (meira að segja þeir sem á tyllidögum berja sér á brjóst fyrir að standa með atvinnulífinu) hefur staðið um Ríkisútvarpið.

Það hefur oft verð erfitt og tekið langan tíma að koma böndum á ríkisrekstur og þá ekki síst samkeppnisrekstur ríkisins, alveg með sama hætti og það þurfti margar tilraunir á þingi til að afnema einkarétt ríkisins í útvarpi og sjónvarpi. Þess vegna lít ég svo á að það sé skylda mín að halda baráttunni áfram, í þeirri vissu að dropinn holi steininn. Og kannski fara fleiri að spyrja sjálfa sig að því hvort ekki sé til önnur og betri leið til að styðja við íslenska dagskrárgerð, menningu, listir og sögu en að reka opinbert hlutafélag. Hefur sá 61 milljarður sem skattgreiðendur hafa verið þvingaðir til að greiða Ríkisútvarpinu á síðustu ellefu árum verið nýttur með skynsamlegum hætti? Væri íslensk kvikmyndaflóra, dagskrárgerð, fjölmiðlun og menning öflugri ef þessum fjármunum hefði verið varið með öðrum hætti, t.d. í gegnum samkeppnissjóði?

Leikurinn gerður jafnari

Á næstu dögum mun ég, ásamt félögum mínum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, leggja fram frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á rekstrarumhverfi fjölmiðla. Markmið frumvarpsins er að jafna samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla gagnvart ríkisreknu fjölmiðlafyrirtæki og alþjóðlegum risum.

Lagt er til að rekstrarformi Ríkisútvarpsins verði breytt í ríkisstofnun með sjálfstæða stjórn. Fjármögnun rekstrar verður fyrst og fremst með beinum framlögum úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hvers árs í samræmi við þjónustusamning. Þetta þýðir að útvarpsgjald verður afnumið. Settar verða skorður við samkeppnisrekstri á auglýsingamarkaði og verður stofnuninni ekki heimilt að stunda markaðsstarfsemi vegna auglýsinga. Ríkisútvarpinu verður aðeins heimilt að birta auglýsingar á grundvelli gjaldskrár sem staðfest hefur verið af ráðherra og birt opinberlega. Óheimilt verður að veita nokkurs konar afslátt af gjaldskrá. Þá er hámarksauglýsingatími á hverri klukkustund fimm mínútur.

Í stað beinna ríkisstyrkja er lagt til að sjálfstæðir fjölmiðlar njóti skattaívilnana sem eru samræmdar og gegnsæjar, þannig að allir sitji við sama borð. Frumvarpið gerir ráð fyrir tvenns konar breytingum á skattaumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Annars vegar með undanþágu frá greiðslu tryggingagjalds upp að vissu marki og hins vegar með því að fella niður virðisaukaskatt af áskriftum innlendra fjölmiðla; prentmiðlum, netmiðlum og ljósvakamiðlum. Þessum breytingum er ætlað að styrkja einkarekna fjölmiðla og styðja við sjálfstæði þeirra.

Ég læt mig enn dreyma um að ríkið dragi sig með öllu út úr fjölmiðlarekstri. Með framgangi frumvarpsins rætist sá draumur ekki en umhverfi fjölmiðla verður a.m.k. nokkuð heilbrigðara. En eftir stendur þversögnin að ríkið – í frjálsu samfélagi – stundi miðlun frétta og upplýsinga og taki að sér það hlutverk að veita stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Óli Björn Kárason