Amrut Peated Indian Cask Strength er viskí sem einfaldlega verður að þynna út með nokkrum vatnsdropum. Þá fyrst koma töfrarnir í ljós.
Amrut Peated Indian Cask Strength er viskí sem einfaldlega verður að þynna út með nokkrum vatnsdropum. Þá fyrst koma töfrarnir í ljós.
Indversk viskígerð er á fleygiferð um þessar mundir og hafa framleiðendur þar í landi rakað til sín verðlaunum. Ég hef áður fjallað um indverskt viskí á síðum ViðskiptaMoggans, fyrst árið 2020 þegar ég skrifaði um meistaraverkið Amrut Fusion, og…

Hið ljúfa líf

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Indversk viskígerð er á fleygiferð um þessar mundir og hafa framleiðendur þar í landi rakað til sín verðlaunum. Ég hef áður fjallað um indverskt viskí á síðum ViðskiptaMoggans, fyrst árið 2020 þegar ég skrifaði um meistaraverkið Amrut Fusion, og árið 2021 kom röðin að Amrut Peated Indian í grein þar sem ég hvatti íslenska heildsala til að senda skeyti austur til Bangalore og sjá hvort ekki mætti gleðja íslenska viskíunnendur með því að flytja inn nokkrar flöskur af þessum öndvegisdrykkjum.

Er gaman að segja frá því að á síðasta ári þeysti nýtt indverskt viskí inn á markaðinn með miklum látum: Indri heitir merkið og er framleitt í Haryana-héraði, norðan við Nýju-Delí, en Indri Diwali Collector‘s Edition 2023 varð í fyrra hlutskarpast í viskíkeppninni Whiskies of the World. Ekki er nóg með það, heldur hlutu indversk vískí samtals fimm viðurkenningar í keppninni í þetta skiptið og sýnist mér að indversku framleiðendurnir eigi enn heilmikið inni.

Gerði ég mann út af örkinni til Indlands til að reyna að finna handa mér flösku en hann færði mér þau tíðindi að Indri væri vandfundið á indverska markaðinum og að raunar þætti heimamönnum meira í það varið að drekka erlent viskí en innlent – sem er kannski eins gott því annars væri kannski sennilega lítið eftir fyrir okkur hin.

Kjaftshögg frá Bangalore

Eins og lesendur vita dvelur viskíspekúlant Morgunblaðsins um þessar mundir í góðu yfirlæti í Bangkok, og fyrst Indri var hvergi að fá varð úr að leita í staðinn að flösku af Amrut hér í Englaborginni. Leitin endaði inni á kontór indversks demantasala í einu af eldri hverfum borgarinnar, steinsnar frá gamla góða Oriental-hótelinu þar sem Somerset Maugham dvaldist fyrir sléttum hundrað árum með Frederic Haxton, ritara sínum og elskhuga.

Við demantasalinn tókum spjall saman og sagðist hann hafa tekið það að sér í hálfgerðu bríaríi að flytja drykkinn inn, drifinn áfram af ástríðu frekar en hagnaðarvon, en þyrfti núna að tæma hjá sér lagerinn því breytingar væru í farvatninu og útlit fyrir að einhver alþjóðlegur drykkjarisinn tæki að sér dreifingu fyrir Amrut. Bað ég manninn um dýrustu flöskuna sem hann ætti til, vitandi að viskíið frá Amrut er ekkert sérstaklega hátt verðlagt, og reiddi hann þá fram Amrut Peated Indian Cask Strength, nánar tiltekið lotu númer 57, sett á flösku í ágúst 2020.

Ég er vanur að drekka viskíið mitt óblandað og við stofuhita, og varð því í fyrstu fyrir vonbrigðum þegar ég smakkaði þennan roknasterka drykk. Oft er gaman að því þegar viskí er í sterkari kantinum (eins og t.d. Classic Laddie frá Bruichladdich sem er með 50% styrk) en ég þurfti að hafa töluvert fyrir fyrsta sopanum og óttaðist um stund að ég hefði keypt köttinn í sekknum; að Amrut hefði slegið feilhögg og 62,8% áfengishlutfall væri kannski fullmikið af því góða.

En allt breytist eftir að ég kveikti á perunni, og blandaði agnarögn af vatni út í glasið.

Algjör umbreyting

Að blanda vatni út í viskí er nákvæmnislist og geta örfáir dropar gjörbreytt drykknum. Í Skotlandi er talað um að „frelsa drekann“, en efnafræðingar myndu útskýra ferlið þannig að lítils háttar breyting á hlutfallslegum styrk áfengis geti leyst úr læðingi sameindir sem bundnar eru í vökvanum svo að bragð og angan verða í senn þéttari og mildari.

Er það góð regla að fara mjög varlega við vatnsblöndunina og helst nota pípettu til að geta skammtað einn dropa í einu í glasið. Áhugasömum bendi ég á að skoða afburðasnotra pípettuna sem Íslandsvinurinn og viskíunnandinn Sruli Recht hannaði fyrir Norlan.

Ég hafði enga pípettu við höndina þetta skiptið en bjó svo vel að eiga flösku af Icelandic Glacial frá Jóni Ólafssyni, og notaði flöskutappann til að blanda agnarögn af tandurhreinu íslensku vatni út í indverska viskíhnullunginn.

Drykkurinn umbreyttist á augabragði úr nær ódrekkandi bringuháraelexír í seiðandi blöndu af ávöxtum og kryddum. Áður hafði leðursápa, lakkrís, salt, karrí og kúmen verið ráðandi, en nokkrir vatnsdropar göldruðu fram biksvart súkkulaði, vandlega þroskaða banana og gúmmísælgæti, fléttað saman við skemmtilega skítugan keim af reyk og torfi.

Útkoman er hrífandi viskí með djúpan og viðkunnanlegan persónuleika, og paraðist vel með hamborgara og ágætlega með dökku súkkulaði sem ég hafði við höndina.

Verður gaman að fylgjast með því hverju Indverjarnir taka upp á næst.