Sverrir Kristinsson, kennari og skólastjóri, fæddist í Reykjavík 25. september 1945. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 25. janúar 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Kristín Ögmundsdóttir, f. 24. september 1904, d. 24. júní 1990, og Kristinn Sæmundsson, f. 23. ágúst 1909, d. 17. desember 1955.

Sverrir var einkabarn foreldra sinna.

Eftirlifandi eiginkona Sverris er Þórunn Ólöf Jósefsdóttir frá Strandhöfn í Vopnafirði, f. 6. janúar 1947. Börn Sverris og Þórunnar eru: 1) Kristín Ósk, f. 1972. Dóttir hennar og Torfa Halblaub er Eyrún Ósk, maki Jón Atli Baldvinsson og eiga þau tvær dætur, Emmu Ósk og Esju Rós. Dætur hennar og Jónasar Hallgrímssonar fyrrverandi eiginmanns eru Anna Guðrún og Sara Margrét. 2) Margrét, f. 1973, maki Guðbjartur Ólason. Börn þeirra eru Þórunn Anna og Óli Þorbjörn. 3) Kristinn Örn, f. 1976‚ maki Níní Jónasdóttir. Börn þeirra eru Sverrir Þór, Þórdís Magnea, Jónas Breki og Margrét Brynja.

Sverrir lauk kennaraprófi frá Kennaraskólanum árið 1967 og kenndi við Kársnesskóla 1967-1974 og svo við Snælandsskóla 1974-1984. Þá tók hann sér hlé frá kennslu og var vaktstjóri í Plastprent á árunum 1984-1987, það ár réð hann sig sem kennara að Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Þar kenndi hann til 1993, þegar hann tók við starfi skólastjóra við grunnskólann á Borgarfirði eystri. Árið 1996 færði hann sig yfir í Skjöldólfsstaðaskóla á Jökuldal og tók við stöðu skólastjóra þar, sem hann gegndi þar til skólinn var sameinaður Brúarásskóla árið 2000. Það ár fékk hann árs námsleyfi og fór til námsdvalar við Háskólann í Calgary í Kanada. Að því loknu kom hann aftur á Norður-Hérað, fyrst sem kennari og svo skólastjóri við Brúarásskóla til 2002. Sverrir lauk skólastjóraferlinum á Flateyri 2003-2004 en kennsluferlinum á Vopnafirði skólaárið 2004-2005.

Hann stundaði akstur langferðabifreiða í sumarleyfum um árabil og síðast var hann strætisvagnstjóri í Kópavogi.

Útför hans fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 7. febrúar 2024, klukkan 13.

Sverrir Kristinsson tengdafaðir minn er látinn eftir hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm. Mig langar að minnast hans fáeinum orðum.

Þó að Sverrir væri Árnesingur í báðar ættir voru foreldrar hans meðal frumbyggja á Kársnesinu, byggðu sér hús í Skólagerði 45. Hann leit því á sig sem Kópavogsbúa alla tíð þó að hann sækti vinnu tímabundið í aðra landshluta síðar á ævinni.

Sverrir var eina barn foreldra sinna og missti föður sinn aðeins tíu ára að aldri en hann fórst í mjög átakanlegu slysi austur í Hvítá rétt fyrir jólin 1955. Sverrir ólst síðan upp með einstæðri móður sinni í Skólagerðinu. Á unglingsárunum vann hann sem sendill á bæjarskrifstofu Kópavogs og minntist gjarnan þeirra starfa með mikilli ánægju.

Þegar hefðbundinni skólagöngu lauk hóf Sverrir nám í Kennaraskólanum og lauk kennaraprófi árið 1967. Fyrri hluta starfsferilsins kenndi hann við skólana í Kópavogi, Kársnesskóla og Snælandsskóla, en síðan kenndi hann í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og var síðan skólastjóri á Borgarfirði eystri, á Skjöldólfsstöðum, í Brúarásskóla og á Flateyri. Kjörgreinar Sverris í kennslu voru raungreinar en þó einkum stærðfræði.

Sverrir var af þeirri kynslóð kennara sem vann gjarnan önnur störf að sumarlagi. Hann lauk því meiraprófi bifreiðastjóra og stundaði þau störf öðru hverju og alfarið eftir að kennsluferlinum lauk er hann var strætisvagnstjóri í Kópavogi.

Sverrir var mikið prúðmenni og afar jafnlyndur að eðlisfari. Greinilegt var að hann mat traust heimilislíf mjög mikils enda þau Þórunn einstaklega natin og samhent í þeim efnum. Við þessi tímamót þakka ég fyrir að hafa notið þess frá fyrsta degi.

Sverrir og raunar fjölskyldan öll höfðu mikla ánægju af ferðalögum. Farið var í langar ferðir um Bandaríkin, Kanada og Mið-Evrópu á meðan börnin voru ung en síðan tók við fjöldi ferða til Tenerife er árin færðust yfir. Á öllum tímum stóð heimili þeirra í Skólagerði opið frændum og vinafólki.

Að leiðarlokum þakka ég fyrir allt það sem Sverrir Kristinsson hefur reynst okkur og bið minningu hans blessunar Guðs.

Guðbjartur Ólason.

Þann 25. janúar var gul viðvörun og eldingar úti – það var þá sem þú kvaddir okkur og einhvern veginn var það svo táknrænt fyrir þig, elsku Sverrir. Þú hafðir í gegnum árin ferðast í öllum veðrum og ég held að óhætt sé að segja að þú hafir lent í öllu sem hægt er á ferðalögum þínum einn og með fjölskyldunni. Við skemmtum okkur oft vel yfir þeim sögum.

Jólin 1999 hittumst við fyrst, þú og Tóta að koma heim í Kópavoginn yfir jólin. Ég man enn eftir glottinu og sterka handabandinu í forstofunni í Skólagerðinu þegar þú bauðst mig velkomna í fjölskylduna. Við Kiddi byrjuðum svo búskap okkar í íbúðinni í Skólagerðinu. Þið Tóta úti á landi á þessum tíma en jól, páskar og sumur voru sameiginlegur tími í Skólagerðinu.

Ég held að eitt magnaðasta ráð sem ég hef fengið í eldamennsku hafi verið frá þér. Þetta þarf ekki að vera flókið – þú tekur pakka af pylsum, stingur gat á pakkann og setur í örbylgjuofninn þar til miðinn byrjar að verða svartur, þá eru pylsurnar akkúrat mátulegar.

Milli okkar Sverris ríkti mikil væntumþykja og virðing, skotin gátu flogið á milli og við áttum gott samband. Sverrir bakkaði okkur upp á sinn hátt og ég stóð við bakið á honum á minn hátt.

Ferðir til Tene, að spila vist (ekki með hvaða reglum sem er), ferðalög í hinum ýmsu farartækjum, heimsóknir til Lundar, samverustundir í Kópavoginum og ótal aðrar minningar fljúga í gegnum hugann þessa dagana.

Ég þakka þér fyrir samfylgdina elsku tengdapabbi, hvíl þú í friði, þar til næst.

Þín

Níní.