Linda Ösp bjó í Bandaríkjunum í hálfan annan áratug en er nú komin heim. Stýrir Miðeind sem tengir nú saman gervigreind og ylhýra móðurmálið.
Linda Ösp bjó í Bandaríkjunum í hálfan annan áratug en er nú komin heim. Stýrir Miðeind sem tengir nú saman gervigreind og ylhýra móðurmálið.
Mikilvægt er að tryggja aðgengi tæknifyrirtækja að íslenskum textum svo að tryggja megi sess íslenskunnar gagnvart gervigreindinni. Þetta bendir Linda Ösp Heimisdóttir framkvæmdastjóri Miðeindar á í samtali í Dagmálum

Mikilvægt er að tryggja aðgengi tæknifyrirtækja að íslenskum textum svo að tryggja megi sess íslenskunnar gagnvart gervigreindinni. Þetta bendir Linda Ösp Heimisdóttir framkvæmdastjóri Miðeindar á í samtali í Dagmálum. Fyrirtæki hennar hlaut aðalverðlaun UTmessunnar sem haldin var í Hörpu síðastliðinn föstudag. Miðeind hefur á síðustu árum þróað tækni sem tengir saman gervigreind og íslenskuna. Það hefur fyrirtækið meðal annars gert í samstarfi við OpenAI, sem er bandarískur tæknirisi sem heldur úti spjallmenninu ChatGPT. Þar er á ferðinni tæknibúnaður sem með ótrúlegum hætti getur svarað vandasömum spurningum fyrirspyrjenda og veitt ítarleg, og oftast mjög nákvæm, svör við því sem fyrir liggur hverju sinni. Enginn sem ekki hefur nýtt sér tæknina getur skilið með viðhlítandi hætti hvers konar byltingu er hér um að ræða.

Réttindin þarf að virða

Linda segir að hingað til hafi reynst gott að fá aðgang að efni en að eðlilega vakni spurningar um höfundarrétt og meðferð á hugverkum þegar textar sem þessir eru nýttir. Af þeirri ástæðu hafi samtöl átt sér stað við Rithöfundasamband Íslands til þess að tryggja samstöðu um það hvernig unnið er að framgangi þessara mála.

Þá vakni einnig spurningar um hvaða stöðu íslenskt samfélag hafi gagnvart tæknirisum erlendis sem hagnýti sér tungumálið og skapi tækni á grunni hennar sem hægt sé að hagnýta með ýmsum hætti, eða ekki. Spurningar vakni um aðgengi fólks að tækninni, svo dæmi sé tekið. Mikilvægt sé að stjórnvöld móti stefnu í þessum efnum og leggi sitt af mörkum svo að þau hafi um leið aðkomu að því hvernig málum verði hagað á komandi árum.

Ferill tekur óvænta stefnu

Í viðtalinu ræðir Linda Ösp vegferð sína í heimi málvísindanna þar sem kennslustarf við Cornell-háskóla markaði sporin til framtíðar. Hún lauk doktorsprófi frá skólanum, sem státar af einhverju glæstasta safni íslenskra bóka utan landsteinanna, og í kjölfarið lá leiðin til Portland í Oregon. Þar hóf hún störf hjá fyrirtæki sem tengir saman málvísindi og tækni, en þar komst á tengingin sem leiddi hana að lokum í starfið hjá Miðeind.

Linda hefur trú á því að tækifæri felist í því fyrir íslenskuna að laga sig að þeim miklu tæknibreytingum sem nú eiga sér stað með tilkomu gervigreindarinnar. Engin ástæða sé til að vera með bölmóð þótt áskoranirnar séu stórar. Stórfyrirtæki á borð við OpenAI hafi áhuga á samstarfi við fyrirtæki á þessu agnarsmáa málsvæði og það segi væntanlega sína sögu.