Optimal Ingvar Guðjónsson, annar eigandi matvælafyrirtækisins Optimal, sem er starfrækt í Grindavík.
Optimal Ingvar Guðjónsson, annar eigandi matvælafyrirtækisins Optimal, sem er starfrækt í Grindavík. — Morgunblaið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Agnar Már Másson Guðmundur Hilmarsson Fyrirtækjaeigendur í Grindavík eru ósáttir við að Grindvíkingum sé ekki treyst fyrir að vera inni í bænum. Ný sprunga uppgötvaðist undir knattspyrnuhöllinni í Grindavík í gær. Kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram, þó hægst hafi á landrisinu, en sérfræðingar virðast flestir sammála um að eitthvað muni gerast í iðrum jarðar og þá bráðum.

Agnar Már Másson

Guðmundur Hilmarsson

Fyrirtækjaeigendur í Grindavík eru ósáttir við að Grindvíkingum sé ekki treyst fyrir að vera inni í bænum. Ný sprunga uppgötvaðist undir knattspyrnuhöllinni í Grindavík í gær. Kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram, þó hægst hafi á landrisinu, en sérfræðingar virðast flestir sammála um að eitthvað muni gerast í iðrum jarðar og þá bráðum.

Grindvíkingar fengu að fara heim til sín í sex tíma í gær, frá klukkan 9 til 15, til þess að sækja eigur sínar. Fyrirtækjaeigendur fengu þá einnig tækifæri til þess að fara á starfsstöðvar sínar. Sumir þeirra eru fjarri því að vera ánægðir með fyrirkomulagið á lokun bæjarins, sem og margir aðrir Grindvíkingar, en hún hefur haft áhrif á mörg fyrirtæki í Grindavík.

„Okkur er ekki treyst. Það er ekkert barn að koma hér inn í bæinn – og ég er ekki að gera lítið úr því að bærinn er örugglega alveg hættulegur – en að okkur sé ekki treyst til þess að vera hér í einhvern tíma, í það minnsta að reyna að bjarga einhverju… þetta er algjört stjórnleysi,“ sagði Ingvar Guðjónsson, annar eigandi matvælafyrirtækisins Optimal í Grindavík, en hann ræddi við blaðamann Morgunblaðsins í gær. Optimal framleiðir efnaíblöndur sem eru notaðar í sjávarútvegi.

„Við erum hugsanlega bara að selja framleiðsluna inn í Reykjavík, losa héðan út það sem hér er. Og eftir stendur húsið og kennitalan,“ segir fyrirtækjaeigandinn, sem segir að staðan líti illa út fyrir fyrirtækið.

Vill bara vera heima hjá sér

Stefán Kristjánsson, Grindvíkingur sem hefur stefnt íslenska ríkinu vegna lokunar heimabæjar síns, kveðst gera það til þess eins að fá skýra niðurstöðu um hvort ríkið megi yfirhöfuð meina Grindvíkingum aðgang að heimabæ sínum.

„Ég er bara voða einföld persóna. Ég vil bara vera heima hjá mér,“ sagði Stefán við mbl.is í gær, spurður út í slaginn sem hann hyggst taka við ríkið. „Mér hefur verið meinaður aðgangur að heimili mínu í meira og minna þrjá mánuði. Ég vil bara fá úr þessu skorið, hvort þeir hafi eitthvað fyrir sér eða ekki.“

Stefán, sem er eigandi ferskfiskframleiðandans Einhamars seafood ehf., hefur búið í Grindavík alla sína ævi og vill flytja aftur heim sem allra fyrst. Hann segist ekki krefjast skaðabóta frá ríkinu, heldur vilji hann aðeins fá að komast heim til sín. „Ég er ekki hræddur inni í Grindavík. Alls ekki. Hef aldrei verið hræddur. Þetta fer nú bara að verða eins og hver önnur óveðurslægð. Hún gengur bara yfir og síðan förum við aftur til starfa. Þannig á þetta að vera,“ segir Stefán.

Hyldýpi undir gervigrasinu

Í gær uppgötvaðist enn önnur sprungan í Grindavík, nú undir gervigrasvellinum í knatthúsinu. Sprungan er um níu metrar að dýpt, að sögn viðbragðsaðila, en hún liggur horn í horn yfir völlinn.

Íþróttahúsið, reist 2008, liggur á sprungu sigdals sem myndaðist við eldgosið 14. janúar en land hefur haldið áfram að rísa í Svartsengi síðan þá. Kvika í kvikuhólfinu undir Svartsengi er nú um 9 milljónir rúmmetrar og heldur áfram að safnast saman. Kvikumagnið er því orðið jafnmikið og þegar gaus síðast. Jarð- og eldfjallafræðingar hafa fylgst grannt með stöðunni, þar sem fyrirvari eldgoss er talinn geta verið enn skemmri en í síðustu gosum.

Kerfið komið að þolmörkum

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur sagði við mbl.is í gær að það væri dagaspursmál hvenær gos gæti hafist. Gos yrði á svipuðum stað og það sem braust út 14. janúar. Kerfið væri komið að þolmörkum og þegar það gerðist gæti gosið hvenær sem er.

Jafnframt hefur jarðskjálftahrina staðið yfir á Reykjaneshrygg síðustu daga en Þorvaldur telur að hrinan geti tengst jarðhræringunum á Reykjanesskaganum. Hann sagði að gos gæti jafnvel hafist á Reykjaneshrygg.

Höf.: Agnar Már Másson, Guðmundur Hilmarsson