Samningafundur Sólveig Anna Jónsdóttir á leið á fundinn í gær.
Samningafundur Sólveig Anna Jónsdóttir á leið á fundinn í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Samningafundi breiðfylkingar verkalýðsfélaga á almenna vinnumarkaðinum og Samtaka atvinnulífsins, sem funda stíft þessa dagana hjá ríkissáttasemjara, lauk á sjöunda tímanum í gærkvöldi

Samningafundi breiðfylkingar verkalýðsfélaga á almenna vinnumarkaðinum og Samtaka atvinnulífsins, sem funda stíft þessa dagana hjá ríkissáttasemjara, lauk á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Nýr fundur hefur verið boðaður í dag.

Vinnan er bæði flókin og tímafrek. Bæði eru stóru málin til umræðu sem og fjölmörg sératriði sem varða hvert og eitt verkalýðsfélag og mörg hver ólík. Rætt er um samning til fjögurra ára.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er jákvæður tónn í viðræðunum þótt ekki séu taldar líkur á að aðilar nái saman um nýjan kjarasamning allra næstu daga.

Ánægja er sögð vera meðal fólks við samningaborðið um tóninn í viðræðunum, það sé spart á yfirlýsingar en takist á um hagfræðileg hugtök sem og hvað sé innifalið í svigrúmi til launahækkana. Vinnan snúist enda um það hvernig hægt sé að skipta þeim verðmætum sem hægt sé að skapa.