Gísli Hinrik fæddist 16.12.1944. Hann lést 16. janúar 2024. Útför Gísla Hinriks fór fram 5. febrúar 2024.

Það er margt sem kemur upp í hugann á kveðjustund.

Gísli mágur var okkur afar kær og að mörgu leyti fyrirmynd í lífinu sem maðurinn hennar Siggu elstu systur okkar.

Fyrstu kynnin voru fyrir hartnær sextíu árum þegar við Birna systir rákumst á þennan tvítuga töffara með Presley-greiðslu í nælonskyrtu og támjóum skóm, þar sem hann beið í forstofunni heima á Hverfisgötu eftir að Sigga kæmi niður til hans.

Þau trúlofuðu sig fljótlega, Gísli hafði lært að fljúga og þau ætluðu sér að setja upp hringana á flugi yfir Reykjavík en veðrið setti strik í reikninginn.

Svo byrjuðu þau að búa í einu herbergi á loftinu, en stofan og eldhúsið voru í útleigu.

Seinna þegar Birna eignaðist kærasta bjuggu þær systur saman í litlu íbúðinni, þá var nú oft líf og fjör á loftinu og pabbi þurfti að fara í reglulegar eftirlitsferðir upp, en kom svo niður og sagði að það væri myndarbragur á búskapnum hjá þeim.

Gísli og Sigga keyptu síðan hús sem amma okkar og móðurbróðir höfðu byggt á Ölduslóð 1, þar komu þau sér upp fallegu heimili og garði.

Gísli kom víða við á sínum starfsferli, hann var frumkvöðull, en flugmaður varð hann ekki, lærði radíó/símvirkjun og þau bjuggu í nokkur ár á Gufuskálum, hann starfaði sem tæknistjóri hjá RÚV á upphafsárum litasjónvarps, rak matvöruverslun á Langholtsvegi og fleiri verslanir ásamt Siggu sinni.

Þau hjón voru einstaklega samhent í lífinu og kom það best í ljós þegar Gísli fékk þá hugmynd að kaupa Gróðurvörur, byggja svo stórhýsi í Mjóddinni og opna þar Garðheima, sem fjölskyldan hefur síðan byggt upp af miklum myndarskap og áræðni.

Hann var alltaf tilbúinn að gefa okkur góð ráð og stuðning.

Þegar við Daddi giftum okkur var það Gísli sem leiddi mig inn kirkjugólfið, og grínaðist oft með að það væri sér að þakka, eða kenna eftir því hvað passaði, að við værum hjón.

Við Daddi fórum í ógleymanlegar utanlandsferðir með þeim hjónum þar sem Gísli var í essinu sínu og kenndi okkur yngra fólkinu að meta framandi mat og góð vín.

Þannig var Gísli, kátur, heimsmaður, mikill fjölskyldumaður sen elskaði krakkana sína, hafði yndi af garðrækt og gerði tilraunir með að rækta alls konar framandi tré og plöntur í gróðurhúsinu.

Hann ræktaði líka matjurtir, hindber, vínber og jarðarber í stórum stíl svo að allir nutu góðs af. Notaði hvert tækifæri til að kalla stórfjölskylduna saman og naut sín vel með svuntuna við grillið í fallega garðinum í Hvannhólmanum.

Síðustu árin hefur hann glímt við Lewy body-sjúkdóminn.

Það hefur verið fjölskyldunni erfitt að horfa á þennan athafnasama mann verða fjötraðan í eigin líkama, en Sigga hans hefur staðið þétt við hlið hans í þessari baráttu, eins og öðru.

Létt er að stíga lífsins spor.

Ljúf er gleðin sanna,

þegar eilíft æskuvor

er í hugum manna.

(R.G.)

Við Birna þökkum samfylgdina, óskum honum góðrar heimferðar og sendum fjölskyldunni samúðarkveðjur.

Oddný og Finnbjörn, Birna og Valur.

Elsku afi minn, en hvað það var gaman að vera saman í garðinum að tína allskonar ber í marga marga klukkutíma og koma svo inn að borða pulsu með brauði og tómatsósu.

Það var líka svo gaman að vera með þér í Hrísey þú varst alltaf að prakkarast með mér, sparka bolta hlaupa um fara í feluleik og fara í öll ævintýralegu leiktækin sem þar eru. Það var alltaf svo gaman að vera með þér og gott að vera í kringum þig. Þú varst besti afi sem ég gæti ímyndað mér, þú hefur alltaf verið ein af mínum mestu fyrirmyndum. Ég mun alltaf geyma þig í hjartanu mínu.

Góða ferð frá afastráknum þínum og sálufélaga.

Valdimar
Jaki Jensson.

Elsku bróðir, það er mér þungbært að skrifa þessi kveðjuorð en vonandi ert þú hvíldinni feginn eftir erfið veikindi.

Við ólumst upp í Ásgarði sem var gestkvæmt heimili í Hrísey, umvafin kærleika og góðum gildum.

Minningar frá æskuárunum eru ótal margar. Af fjórum systkinum vorum við næst hvort öðru í aldri og áttum alltaf samleið enda bæði bogmenn með blundandi ævintýraþrá.

Við lékum okkur saman tvö ein eða með öðrum krökkum, ég í búinu mínu og þú að smíða kofann þinn. Við tókum þátt í heyskapnum, sláturtíðinni og öðru tilheyrandi. Á þeim tíma þótti sjálfsagður hlutur að taka þátt í störfum heimilisins. Einhverju sinni var okkur falið að mála þakið á úthúsinu og þegar það var búið máluðum við líka yfir gúmmískóna okkar því þeir voru allir orðnir flekkóttir. Þegar við fengum smá aur fór ég í Kaupfélagið og keypti nammi en þú keyptir nagla fyrir kofann þinn, alltaf að smíða. Yfir vetrartímann var rólegra á heimilinu og þá voru pabbi og mamma dugleg að spila við okkur og mamma las upphátt fyrir fjölskylduna. Stundum var mikill snjór og þá voru byggð eftirminnileg snjóhús og fengum við heitt kakó og meðlæti, ásamt smá kertaljósi.

Fjölskyldan flutti í Kópavoginn veturinn 1959 en þú þurftir að komast á vit ævintýranna og réðst þig sem messagutta á Helgafellið. Komst svo heim og tilkynntir mömmu að það væri frágengið.

Hún þekkti skipstjórann ágætlega og fékk hann góða yfirhalningu frá henni. Alltaf færðir þú okkur Ástu smágjafir þegar þú komst úr siglingum sem urðu allmargar næstu sumrin.

Þú laukst gagnfræðaprófi úr Vesturbæjaskóla, flugnámi og radíósímvirkjun. Það voru þér mikil vonbrigði að geta ekki orðið atvinnuflugmaður út af sjóninni en þá varð bara að halda áfram.

Þrautseigja og dugnaður var þér í blóð borin, hikaðir ekki við að taka áskorunum og leggja á þig mikla vinnu. Þú varst líka alltaf tilbúinn að finna lausnir mála og snöggur til, enda skilur þú eftir þig mjög blómlegt fyrirtæki sem börnin ykkar Siggu eiga í dag. Mér er mjög minnisstætt þegar þú kynntir Siggu þína fyrir fjölskyldunni, stoltur og ástfanginn og hafið þið átt farsælt líf saman með börnunum ykkar. Þú skilur eftir þig stóra og samheldna fjölskyldu í anda foreldra okkar.

Margar góðar samverustundir átti stórfjölskyldan í Hvannhólmanum og ógleymanleg matarboð þar sem líflegar umræður fóru oft fram með tilheyrandi hávaða og skoðanaskiptum, því margir þurftu að tala í einu.

Gróðurhúsið og garðurinn voru ykkar yndi og gaman að ganga þar um og skoða fjölbreyttan gróður bæði úti og inni.

Við nutum þess að ferðast og á árunum sem við Halldór bjuggum í Kaupmannahöfn hittum við ykkur Siggu á sólarströnd í byrjun hvers árs og áttum við fjögur saman notalegar stundir.

Takk fyrir samveruna gegnum árin minn kæri bróðir, alltaf hægt að treysta á þig. Ég mun líka minnast samverustunda okkar á Hrafnistu, glampans í augunum og fallega brossins þegar ég kom í heimsókn.

Elsku Sigga og fjölskylda, ég bið góðan Guð að veita ykkur styrk og huggun.

Sigurjóna.