Ragnarök Skáldverkið Saga eftirlifenda eftir Emil Hjörvar Petersen er á leið í sjónvarp vestur í Los Angeles.
Ragnarök Skáldverkið Saga eftirlifenda eftir Emil Hjörvar Petersen er á leið í sjónvarp vestur í Los Angeles. — Morgunblaðið/María Matthíasdóttir
Emil Hjörvar Petersen er afkastamikill höfundur í meira lagi; á síðustu þremur árum hefur hann sent frá sér fjórar skáldsögur og einnig haldið úti vinsælu hlaðvarpi með Bryndísi systur sinni. Skáldverkin hafa komið út sem hljóðbækur á vegum Storytel og að hluta einnig á pappír

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Emil Hjörvar Petersen er afkastamikill höfundur í meira lagi; á síðustu þremur árum hefur hann sent frá sér fjórar skáldsögur og einnig haldið úti vinsælu hlaðvarpi með Bryndísi systur sinni. Skáldverkin hafa komið út sem hljóðbækur á vegum Storytel og að hluta einnig á pappír.

Emil hóf rithöfundarferil sinn með ljóðabókum en hefur skrifað bækur sem blanda saman hryllingi og furðum. Má nefna bækurnar Víghóla, Sólhvörf og Nornasveim, sem segja frá Bergrúnu Búadóttur huldumiðli og Brá, dóttur hennar. Þær bækur rötuðu inn í safn Storytel að ósk skrifstofu útgáfunnar hér á landi og gekk svo vel að fyrirtækið leitaði til Emils um hvort hann ætti einhverjar hugmyndir að fleiri bókum í fórum sínum. „Þau hjá Storytel höfðu lesið bækurnar um Bergrúnu og Brá og spurðu hvort ég væri ekki með fleiri hugmyndir. Ég svaraði já, að ég væri með hugmynd um hrollvekju, og í framhaldinu hófst samtal sem ég hef eiginlega ekki átt áður, þar sem ritstjórnin þar var opin fyrir þessari bókmenntagrein.

Storytel hefur gefið mér mjög margt og þannig hefur lesendahópurinn stækkað gífurlega,“ segir Emil, sem hyggst meðal annars ljúka við þríleikinn um mæðgurnar í bók sem hann er að skrifa og kemur út í maí.

Eins og nefnt er byrjaði Emil á að gefa út ljóð, en sneri sér síðan að því að skrifa þríleikinn Sögu eftirlifenda: Höður og Baldur, Heljarþröm og Níðhöggur. Þessar bækur þrjár voru mikill bálkur, samtals um 1.400 síður, og Emil segir að það hafi komið mörgum á óvart að hann skyldi snúa sér að slíkum skrifum. „Ég hef þó alltaf verið fantasíu- og vísindaskáldsögulesandi, allt frá því ég var krakki og dreymdi um það þegar ég var unglingur að skrifa þannig bækur. Fyrsta skipti sem ég gat ekki hætt að lesa bækur var þegar ég las Hringadróttinssögu og upp frá því var ég sannfærður um að það væri hægt að skrifa þannig bækur á íslensku, að það væri hægt að skrifa fantasíu á íslensku fyrir fullorðna lesendur. Það var eiginlega ekkert slíkt í boði í íslenskum bókmenntaheimi á þessum tíma þó að hefðin hafi verið mjög rík í unglinga- og barnabókum, en erlendis er þetta mjög algengt,“ segir Emil, en miðja nótt í desember 2006 fékk hann hugmynd sem lét hann ekki í friði. „Ég var á milli svefns og vöku þegar ég hugsaði: Af hverju hefur enginn sagt sögu eftirlifenda? Í síðustu erindum Völuspár er því lýst hverjir lifa af ragnarök: Höður og Baldur, Váli og Víðar, Móði og Magni og svo tvær manneskjur. Heði, Baldri, Vála og Víðari er öllum lýst sem sonum Óðins og Höður, Baldur og Váli eru bræður sem drápu hver annan og lifa svo af ragnarök og skapa nýjan heim. Þessi hugmynd lét mig ekki vera og þó að ég hefði aldrei skrifað skáldsögu áður þróaði ég þessa hugmynd áfram og skrifaði svo fyrstu bókina í þríleiknum og gaf hana út sjálfur þó að ég ætti enga peninga. Ég dreifði henni sjálfur og kom með eintak niður á Mogga. Svo hringdir þú daginn eftir og fattaðir alveg hvað ég var að reyna að gera, sem efldi mig mjög mikið, og líka Illugi Jökulsson. Þá sá ég að það væri hægt að skrifa svona bækur, því það var til fólk sem skildi hvað ég var að reyna að gera."

Saga eftirlifenda kom út á árunum 2010 til 2014 en gengur nú í endurnýjun lífdaga því verið er að semja handrit að sjónvarpsþáttaröð upp úr fyrstu bókinni. „Sagafilm fór í samstarf við bandarískt fyrirtæki sem kallast Skybound Entertainment, stofnað af höfundi The Walking Dead, og þessi fyrirtæki eru að þróa í sameiningu sjónvarpsþætti eftir bókunum. Það er búið að þýða fyrstu bókina á ensku, en ég notaði tækifærið til að endurskrifa hana að hluta, enda var þetta fyrsta skáldsagan mín og margt sem mátti laga. Það er ótrúlega ánægjulegt að vita að hún lifi enn.“

Höf.: Árni Matthíasson