Jarðfræðingur Árni Hjartarson hefur skrifað um hugsanlega náttúruvá á höfuðborgarsvæðinu.
Jarðfræðingur Árni Hjartarson hefur skrifað um hugsanlega náttúruvá á höfuðborgarsvæðinu. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Rétt er að ígrunda vel frekari uppbyggingu sunnan og austan við höfuðborgarsvæðið vegna aukinnar eldvirkni. Þá gæti verið tilefni til að undirbúa varnar- og leiðigarða, ekki síst við Vallahverfið í Hafnarfirði.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Rétt er að ígrunda vel frekari uppbyggingu sunnan og austan við höfuðborgarsvæðið vegna aukinnar eldvirkni. Þá gæti verið tilefni til að undirbúa varnar- og leiðigarða, ekki síst við Vallahverfið í Hafnarfirði.

Þetta segir Árni Hjartarson jarðfræðingur en í grein hans „Jarðfræði höfuðborgarinnar og náttúruvá“ í bókinni Reykjavík á tímamótum (2017) er fjallað um þessa áhættu.

„Þótt Reykjavík og höfuðborgarsvæðið allt sé almennt talið vera nokkuð öruggt svæði gagnvart náttúrulegum ógnum þurfa menn samt sem áður að vera vel á varðbergi. Ýmsar hættur geta steðjað að svæðinu þótt áætluð atvikatíðni sé hvergi há. Í skipulagsmálum verður að taka tillit til þessara þátta og það hefur raunar verið gert um langt skeið. Náttúruváin getur birst í ýmsum myndum,“ skrifaði Árni og nefndi meðal annars eldgos og hraunflæði.

Nærri eldgosabelti

Hann gerði nánari grein fyrir þessari áhættu: „Reykjavík er í næsta nágrenni við eldgosabeltið á Reykjanesskaga. Ekki eru nema 7 km frá byggðarmörkum borgarinnar og í næsta eldgíg, sem er í Búrfelli, fyrir ofan Hafnarfjörð. Byggðinni stafar þó ekki mikil bein hætta af eldgosum. Hverfandi líkur eru á að eldsprungur opnist eða að eldgos brjótist út innan núverandi byggðarmarka. Hraunrennsli getur hins vegar skapað ógn. Hraun komast þó ekki inn fyrir byggðarmörk Reykjavíkur nema á einum stað. Það er um Elliðaárdal. Slíkt hefur einu sinni gerst síðan ísöld lauk. Það var fyrir 5.200 árum, þegar Leitahraun rann.

Í Hafnarfirði og Garðabæ setja hraun mikinn svip á landslagið og hlutar þessara byggðarlaga standa á tiltölulega ungum hraunum. Búrfellshraunið sem rann frá Búrfelli ofan Hafnarfjarðar og til sjávar er 8.000 ára gamalt. Flatahraun sem Vallahverfið í Hafnarfirði er á rann frá Brennisteinsfjöllum á 10. öld og Kapelluhraun sem Álverksmiðjan í Straumsvík stendur á rann í Krísuvíkureldum árið 1226. Sú kemur vafalítið tíð að hraunflæði mun ógna byggð í Hafnarfirði og Garðabæ en atvikatíðnin er það lág og áhættan það lítil að ekki hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir gagnvart þessari náttúruvá,“ skrifaði Árni.

En nú hafa eldstöðvakerfin á Reykjanesi vaknað til lífsins.

Árni segir þetta fyrra mat sitt í greininni óbreytt. Hins vegar sé byggð að þéttast við Elliðavatn og rætt um íbúabyggð við Gunnarshólma austur af Rauðavatni. Því sé byggð að færast nær virku sprungusvæði og það þurfi að taka til greina í öllum áætlunum.

Löngu hléi lokið

„Nýlegir atburðir hafa breytt viðhorfi fólks til þeirrar hættu sem eldgosaváin er. Jarðfræðirannsóknir hafa bent til að eftir svona langt hlé – eldstöðvakerfin á Reykjanesi hafa verið tiltölulega kyrrlát í 800 ár – komi kannski 200 til 300 ár með ókyrrð á svæðinu og hún getur orðið víða. Nú hefur hraun runnið við Grindavík og sprungur opnast í miðjum bænum. Ég held að ekki sé hætta á slíku í Reykjavík fyrir utan svæðin við Elliðavatn og Rauðavatn en þar er nú verið að byggja talsvert og margt áformað,“ segir Árni. Hann rifjar svo upp fyrri umræðu um sprungusvæðin og að þegar Árbæjarlaug var byggð hafi komið í ljós opin sprunga í grunninum. Því hafi mannvirkin verið færð til.

Á nokkurra alda fresti

Nú hyggjast skátarnir m.a. byggja upp aðstöðu við Rauðavatn. Ætti að falla frá slíkum áætlunum?

„Ég er ekki að segja það heldur að menn eiga að hafa þetta í huga þegar þeir eru að grunda húsin og skoða og uppfæra þau sprungukort sem gerð hafa verið til að átta sig á því hvernig þessar meginsprungur liggja. Ég er ekki í stöðu til að segja af eða á hvort halda eigi áfram uppbyggingu á þessum svæðum. Svona atburðir verða á nokkurra alda fresti og tryggingafélögin hafa til dæmis út frá tryggingafræðilegu sjónarmiði ekki spáð mikið í það hvað kann að koma fyrir byggingar eftir 200 ár eða 300 ár.“

En þú telur að þessi órói gefi jafnvel tilefni til að endurmeta framkvæmdir? Þá í ljósi þess að ekki sé lengur óhugsandi að eitthvað slíkt gerist hér í nágrenninu? Jafnframt að við séum ekki að tala um 200 ár heldur að slíkir atburðir geti orðið nær okkur í tíma?

„Já. Talið er að jarðeldar geti færst úr einu eldgosakerfi í annað. Nú er virknin í Svartsengiskerfinu en sprungurnar þar tengjast Krísuvíkurkerfinu. Og það hafa nú þegar orðið hreyfingar við Kleifarvatn og þar í grennd. Og líklegt að þá verði talsverðar hreyfingar á sprungum sem þar eru og teygja sig allt að Rauðavatni.“

Hvenær? Á næstu áratugum?

„Já, jafnvel á næstu áratugum.“

Þannig að það væri óráðlegt að byggja upp mikinn byggingarmassa á áðurnefndum sprungusvæðum?

„Það má segja það, já.“

Sögulegt hraun

Nú erum við að tala um austurjaðarinn. Hvað með suðursvæðin?

„Menn hafa horft á byggð rísa á Völlunum í Hafnarfirði með ótta í brjósti. Það er ekki síst vegna þess að þar er sögulegt hraun. Hitt er annað mál að það á að vera gerlegt að reisa þannig garða og varnarmannvirki að sveigja mætti hraun sambærileg við þau sem runnu þar fyrir þúsund árum frá byggð.“

Er þá forsenda frekari uppbyggingar á Völlunum að reistir verði varnargarðar ef til þessa kemur?

„Já. Ég held að það væri mjög skynsamlegt. Og vera að minnsta kosti með viðbragðsáætlun ef eldgos hefst. Vellirnir eru ólíkir Grindavík að því leyti að þaðan er langt upp í gosstöðvarnar og það tekur hraunið því lengri tíma að komast til sjávar. Menn hafa því miklu lengri umþóttunartíma [á Völlunum] en í Grindavík en þetta er hætta sem menn þurfa að hafa augun opin fyrir og mér heyrist sem menn hafi það raunar.“

Ekki hræðsluáróður

Þetta er því raunhæft og við erum ekki að mála skrattann á vegginn?

„Nei, það held ég ekki.“

Hvaða þýðingu hefur þetta í skipulagsmálum? Á að teygja byggð í aðrar áttir?

„Já. Ég held að það geti alveg komið til greina að leggja t.d. áherslu á byggð í Geldinganesi, sem er góður staður, og á þeim stöðum þar sem menn eru ekki beinlínis að storka eldgosakerfunum.“

Höf.: Baldur Arnarson