Advania Tæknileg mistök ollu því að endurtaka þarf tilnefningar.
Advania Tæknileg mistök ollu því að endurtaka þarf tilnefningar. — Morgunblaðið/Ómar
Tæknileg mistök Advania sem annaðist utanumhald tilnefninga til biskupskjörs urðu þess valdandi að í gær var ekki unnt að telja tilnefningarnar með öruggum hætti

Tæknileg mistök Advania sem annaðist utanumhald tilnefninga til biskupskjörs urðu þess valdandi að í gær var ekki unnt að telja tilnefningarnar með öruggum hætti. Svo segir í tilkynningu á vef kirkjunnar sem birtist í gærkvöldi. Því telur kjörstjórn kirkjunnar rétt að endurtaka tilnefningarnar svo fljótt sem auðið verður og er stefnt að því að þær hefjist að nýju fyrir vikulok, enda hafi Advania sett í gang vinnu við að laga það sem úrskeiðis fór.

Tilnefningum lauk á hádegi í gær og var mikil þátttaka í ferlinu sem er aðdragandi biskupskjörs. Alls tóku 160 prestar og djáknar þátt, eða 97,5% tilnefningarbærra manna, en 164 höfðu rétt til þátttöku. Þeir þurfa nú að endurtaka leikinn.

Þeir sem rétt höfðu til þátttöku tilnefndu biskupsefnin rafrænt. Í tilkynningu sem birtist á vef kirkjunnar síðdegis í gær segir að þegar fulltrúar kjörstjórnar kirkjunnar og starfsmaður Biskupsstofu mættu til Advania til að rækja hlutverk sitt varðandi afkóðun og talningu tilnefninga, eins og gert sé ráð fyrir í starfsreglum kirkjuþings um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa, hafi vandamál komið upp.

Samkvæmt starfsreglum skal talningu vera lokið innan sólarhrings frá því að tilnefningum lauk. Fyrirkomulagið er þannig að að talningu lokinni hefur kjörstjórn samband við þá þrjá sem flestar tilnefningar hlutu til að fá staðfestingu þeirra á framboði til biskups Íslands. Staðfesti einhver eða einhverjir þeirra ekki framboð, er farið niður listann uns þremur frambjóðendum er náð. Gangi það ekki verður kosið á milli tveggja.