Sendum snjalltækin í frímínútur

Snjalltækjabyltingin hefur fært okkur öflugar tölvur og samskiptatæki í hvern lófa, sem hefur auðgað og auðveldað lifið um margt. En um leið hefur einbeitingin við skjáinn truflað ýmis mannleg samskipti og haft margvísleg samfélagsleg áhrif, sem ekki eru öll endilega af hinu góða.

Ekki síst á það við um börn, sem fyrir vikið fara beinlínis á mis við margt í uppvextinum. Ekki þá aðeins vegna þess að þau sjálf geta ánetjast leikjum, fánýti eða skaðvænlegu efni, því fullorðna fólkið er víst ekki alltaf til fyrirmyndar. Ef foreldrarnir eru sífellt límdir við skjáinn getur iðni foreldranna við skjáinn orðið til þess að minnka atlætið svo jaðri við vanrækslu. Börn þurfa athygli eigi þau að komast til manns.

Fyrir um fjórum árum ákváðu nemendur í menntaskólanum í Nyborg í Danmörku – þreyttir á bekkjarfélögum sem voru í stofunni en þó ekki – að snjalltækin ættu ekki heima í kennslustofunni. Og skólatölvur allar bak við brunagafl sem hleypir engu nema námsefni í gegn.

Varla kemur á óvart að vinnuandi, hegðun og námsárangur hefur stórbatnað, svo mjög að sama meginregla var tekin upp í öllum framhaldsskólum, svo miðskólum og næstir eru grunnskólarnir.

Nemendur hafa verið hafðir með í ráðum, jafnvel tekið forystuna, og reglurnar eru misjafnar og sveigjanlegar
eftir skólum og bekkjum,
svo ábyrgðin liggur þar en
ekki hjá yfirvaldinu. Eins og vera ber. Því persónufrelsi á ekki að leggja að jöfnu við stjórnleysi, því fylgir sjálfsagi og ábyrgð.

Tíminn er hið dýrmætasta sem við eigum og við eigum ekki að eftirláta netrisum með sín stafrænu fíkniefni að sólunda honum. Þar er hver sjálfum sér næstur, en um börnin gegnir öðru máli. Þau þurfa mannlegt atlæti, uppeldi og menntun í friði.