Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir íslenskt samfélag ekki bera þá miklu fjölgun hælisleitenda sem hafa sótt um vernd hér á landi. Hún segir útgjöld til málaflokksins hömlulaus. Kostnaðurinn við málaflokkinn fór um 33% fram úr áætlun árið 2023

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir íslenskt samfélag ekki bera þá miklu fjölgun hælisleitenda sem hafa sótt um vernd hér á landi. Hún segir útgjöld til málaflokksins hömlulaus.

Kostnaðurinn við málaflokkinn fór um 33% fram úr áætlun árið 2023.

Eins og Morgunblaðið greindi frá í gær var kostnaðurinn við útlendingamál yfir 20 milljarðar króna á síðasta ári og hækkaði um 65,3% frá árinu 2022. Er þessi hækkun þrátt fyrir að hælisleitendum sem komu til landsins hafi fækkað lítillega á milli ára. Útskýrist þessi útgjaldaaukning af fjölda hælisleitenda sem sótt hafa hér um vernd á síðustu árum, að sögn ráðherra.

Guðrún nefnir í samtali við Morgunblaðið að á síðustu tíu árum hafi fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd aukist um 3.700% hér á landi. Séu úkraínskir hælisleitendur teknir út fyrir svigann er aukningin enn 2.000%.

„Það liggur alveg í hlutarins eðli að aukningin hingað er alveg gríðarleg og er miklu, miklu meiri en íslenskt samfélag ræður við. Það skrifast fyrst og síðast á það að við erum hér með opnara regluverk heldur en löndin í kringum okkar. Það er bara ákjósanlegra að koma hingað í leit að vernd heldur en til nágrannalandanna,“ segir Guðrún.

Hún segir aðspurð að ekki sé hægt að segja að það séu hömlur á útgjöldum til útlendingamála.

„Það er ekki hægt að segja að það séu hömlur á þessu þegar þetta eykst svona stjarnfræðilega á tiltölulega stuttum tíma. Þetta er komið í svo gígantískar tölur að við erum bara ekki samfélag sem getur staðið undir þessu.“

Guðrún segir að aðlaga þurfi íslenska regluverkið því sem fyrirfinnst annars staðar á Norðurlöndum. Hún segir það ekki ganga að hér séu reglur sem laði fólk frekar til Íslands fram yfir önnur lönd.

Í ár eru tæplega 16 milljarðar áætlaðir í útlendingamál. Spurð hvort hún óttist að útgjöldin muni aftur fara fram úr áætlunum segir Guðrún:

„Auðvitað er ég hrædd um það. Ég er reyndar hrædd við það líka að allar spár – það var stuðst við þær í fjárlagavinnu fyrir áramót – miðast að því að það sé svipaður fjöldi að fara að sækja um vernd á þessu ári og var á síðasta ári. Við verðum bara að bregðast við þessu, það er ekkert annað í stöðunni.“

Uppfæra þarf tölurnar

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar og formaður fjárlaganefndar, segir í samtali við Morgunblaðið að það sé gríðarlega mikilvægt að búið verði að uppfæra kostnaðartölur fyrir fjármálaáætlun sem verður tekin til þinglegrar meðferðar í vor.

Kostnaðurinn var á síðasta ári umtalsvert meiri en gert hafði verið ráð fyrir en Stefán segir að hann hefði átt að vera um 15 milljarðar árið 2023, sem þýðir að kostnaðurinn hafi farið um 33% fram úr áætlun.

Tæplega 16 milljarðar eru áætlaðir í málaflokkinn fyrir árið 2024. Spurður hvort eitthvað sé að marka þá upphæð segir hann að áætlunin byggi á svörum frá fagráðuneytum.

„Upplýsingarnar sem fjárlaganefnd fær inn í fjárlögin eru komnar frá fagráðuneytunum. Það eru fagráðuneytin sjálf sem eru að áætla tölurnar, áætla kostnaðinn á málaflokknum,“ segir hann.

Útlendingamál

Útgjöld aukast

Útgjöld til útlendingamála áttu að vera um 15 milljarðar króna árið 2023. Eftir útreikninga dómsmálaráðuneytisins kemur þó í ljós að beinn kostnaður fór yfir 20 milljarða á árinu. Árið 2012 voru útgjöld til málaflokksins tæplega 399 milljónir króna. Þetta þýðir að bein útgjöld til málaflokksins hafa aukist um 4.919% á 11 árum.

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson