[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Enska knattspyrnufélagið Chelsea getur ekki rekið Argentínumanninn Mauricio Pochettino úr starfi knattspyrnustjóra karlaliðsins nema með því að afla sér hárra upphæða fyrir sumarið. Sæti Pochettinos, sem tók við Chelsea síðastliðið sumar, er tekið…

Enska knattspyrnufélagið Chelsea getur ekki rekið Argentínumanninn Mauricio Pochettino úr starfi knattspyrnustjóra karlaliðsins nema með því að afla sér hárra upphæða fyrir sumarið. Sæti Pochettinos, sem tók við Chelsea síðastliðið sumar, er tekið að hitna eftir slakan árangur á tímabilinu. Daily Mail greinir frá því að ákveði Chelsea að reka Pochettino og þjálfarateymi hans myndi félagið þurfa að greiða þeim rúmar tíu milljónir punda. Það kæmi Chelsea í vandræði hvað reglur ensku úrvalsdeildarinnar um hagnað og sjálfbærni í rekstri varðar.

Handknattleikssamband Íslands fær tæplega 85 milljónir króna úr afrekssjóði ÍSÍ fyrir árið 2024. Framkvæmdastjórn Íþrótta- og ólympíusambands Íslands samþykkti á dögunum tillögur stjórnar afrekssjóðs ÍSÍ að úthlutun úr sjóðnum en alls nema styrkirnir rúmlega 512 milljónum króna. Fimleikasamband Íslands fær rúmlega 49,5 milljónir króna og Sundsamband Íslands rúmlega 39,8 milljónir króna. Nánar er fjallað um úthlutun úr afrekssjóði ÍSÍ á mbl.is/sport.

Flensburg, með Teit Örn Einarsson innanborðs, mætir Melsungen, með þá Arnar Frey Arnarsson og Elvar Örn Jónsson innanborðs, í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar í handknattleik. Í hinu undanúrslitaeinvíginu mætast Magdeburg og Füchse Berlín en þeir Gísli Þorgeir Kristjánsson, Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon eru allir samningsbundnir Magdeburg. Úrslitahelgin fer fram 13.-14. apríl í Lanxess-höllinni í Köln.

Grindvíkingar halda áfram að styrkja lið sitt fyrir keppnina í 1. deild karla í knattspyrnu og hafa fengið slóvenskan varnarmann í sínar raðir. Hann heitir Matevz Turkus, 24 ára gamall bakvörður, sem hefur leikið 16 leiki með Fuzinar í slóvensku B-deildinni á yfirstandandi leiktíð. Turkus er annar erlendi leikmaðurinn sem Grindvíkingar fá á nokkrum dögum en króatíski miðjumaðurinn Josip Krznaric er kominn til þeirra frá Krka í Slóveníu.

Ungverski knattspyrnumaðurinn Dominik Szoboszlai leikur að öllum líkindum ekki meira með Liverpool í febrúarmánuði. Það er ungverski miðillinn Index sem greinir frá þessu en Szoboszlai, sem er 23 ára gamall, er að glíma við meiðsli aftan í læri. Miðjumaðurinn gekk til liðs við Liverpool frá RB Leipzig síðasta sumar fyrir 60 milljónir punda og hefur verið lykilmaður í liðinu á tímabilinu. Hann hefur leikið 21 leik í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann hefur skorað þrjú mörk og lagt upp önnur þrjú til viðbótar.