Sigur Anna Úrsúla Guðmundsdóttir fagnar marki gegn Haukum á Hlíðarenda í gær en hún fór fyrir vörn Valsara og skoraði eitt mark í leiknum.
Sigur Anna Úrsúla Guðmundsdóttir fagnar marki gegn Haukum á Hlíðarenda í gær en hún fór fyrir vörn Valsara og skoraði eitt mark í leiknum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valur, ÍR og Selfoss tryggðu sér öll sæti í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handknattleik í gær. Valur hafði betur gegn Haukum í 8-liða úrslitunum á…

Bikarkeppnin

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Valur, ÍR og Selfoss tryggðu sér öll sæti í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handknattleik í gær.

Valur hafði betur gegn Haukum í 8-liða úrslitunum á Hlíðarenda, 32:28, þar sem Thea Imani Sturludóttir fór á kostum í liði Vals og skoraði tíu mörk og Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði sjö mörk. Staðan var jöfn, 24:24, þegar tíu mínútur voru til leiksloka, en Valskonur voru sterkari á lokamínútunum og fögnuðu sigri. Elín Klara Þorkelsdóttir og Sara Odden skoruðu tíu mörk hvor fyrir Hauka.

Katla María Magnúsdóttir átti sannkallaðan stórleik fyrir fyrstudeildarlið Selfoss þegar liðið tók á móti úrvalsdeildarliði KA/Þórs á Selfossi en hún skoraði 15 mörk í 34:15-sigri Selfyssinga. Leikurinn var aldrei spennandi en Selfoss leiddi með 15 mörkum í hálfleik, 19:6. Cornelia Hermannsson varði 18 skot í marki Selfoss.

Þá var Vaka Líf Kristinsdóttir markahæst hjá ÍR þegar liðið hafði betur gegn HK í Kórnum í Kópavogi, 31:21, en Vaka Líf skoraði fimm mörk í leiknum. ÍR leiddi með sex mörkum í hálfleik, 14:8, og HK-ingum tókst aldrei að snúa leiknum sér í vil í síðari hálfleik.

Grótta og Stjarnan mætast í lokaleik 8-liða úrslitanna á Seltjarnarnesi í kvöld en undanúrslitin fara fram miðvikudaginn 6. mars í Laugardalshöllinni og úrslitin laugardaginn 9. mars á sama stað.

Höf.: Bjarni Helgason