Þingmenn mættu minna oftar á einfaldara regluverk og lægri skatta

Sigþrúður Ármann varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins flutti athyglisverða ræðu á Alþingi í gær undir liðnum störf þingsins. Umræður undir þeim dagskrárlið eru gjarnan með ýmsu móti, svo ekki sé meira sagt, og þess vegna má segja að innlegg Sigþrúðar hafi skorið sig meira úr en ella. Hún benti á að til að geta „boðið upp á framúrskarandi heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfi, öruggt samfélag fyrir borgarana og góða innviði þurfum við öfluga verðmætasköpun. Verðmætin verða til í atvinnulífinu hjá fyrirtækjum landsins. Þar er lagður grunnurinn að verðmætasköpuninni sem stuðlar að því að velferð, framþróun og hagsæld eigi sér stað svo hægt sé að standa undir þessum grunnstoðum samfélagsins.“

Hún hélt áfram og sagði að ástæða þess að hún nefndi þetta væri að það virtist vera „útbreidd skoðun hérna inni að það séu engin mörk fyrir því hversu háa skatta telst eðlilegt að leggja á atvinnulífið. Áherslan er á vannýtta tekjustofna ríkisins í staðinn fyrir vannýtt tækifæri atvinnulífsins. Við verðum að búa svo um hnútana að atvinnulífið geti sótt fram á grunni nýrra tækifæra. Verkefnið okkar á hverjum einasta degi ætti að snúast um það hvernig við eflum samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Samkeppnishæfnin ræðst nefnilega að miklu leyti af þeirri umgjörð sem stjórnvöld skapa. Samkeppnishæfni byggir meðal annars á menntun, innviðum, starfsumhverfi, nýsköpun, orku og umhverfi.“

Þá minnti hún á niðurstöður könnunar íslensks iðnaðar, sem bendi til þess að „regluverk og eftirlit sé íþyngjandi, flókið, óskilvirkt og kostnaðarsamt. Í dag starfa yfir 50.000 manns við íslenskan iðnað og stendur iðnaðurinn á Íslandi undir um fjórðungi af landsframleiðslu og skapar 44% útflutningstekna. Við þurfum að vinna að því að einfalda regluverk, gera það skilvirkt og draga úr kostnaði, lækka skatta og gjöld. Slíkar umbætur auka samkeppnishæfni fyrirtækja og auka þar með verðmætasköpun í íslensku samfélagi sem gerir það að verkum að við getum staðið undir þeim stóru áskorunum sem við okkur blasa og stuðlað að betri lífskjörum fyrir okkur öll.“

Undir þetta má taka – og vonandi lagði þingheimur við hlustir.