Svíþjóð Gísli Eyjólfsson skrifaði undir þriggja ára samning við Halmstad, en félagið hafnaði í 12. sæti deildarinnar á síðustu leiktíð og slapp við fall.
Svíþjóð Gísli Eyjólfsson skrifaði undir þriggja ára samning við Halmstad, en félagið hafnaði í 12. sæti deildarinnar á síðustu leiktíð og slapp við fall. — Ljósmynd/Halmstad
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég er himinlifandi með þetta,“ segir knattspyrnumaðurinn Gísli Eyjólfsson í samtali við Morgunblaðið, en hann skrifaði í vikunni undir þriggja ára samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Halmstad

Svíþjóð

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Ég er himinlifandi með þetta,“ segir knattspyrnumaðurinn Gísli Eyjólfsson í samtali við Morgunblaðið, en hann skrifaði í vikunni undir þriggja ára samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Halmstad.

Gísli, sem er 29 ára gamall, kemur til sænska félagsins frá uppeldisfélagi sínu Breiðabliki, en hann hefur einnig leikið með Augnabliki, Haukum, Víkingi frá Ólafsvík og Mjällby í Svíþjóð á láni frá Breiðabliki.

Halmstad hafnaði í 12. sæti úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð eftir að hafa verið í fallbaráttu stærstan hluta tímabilsins, en hjá Halmstad hittir Gísli fyrir Birni Snæ Ingason, fyrrverandi leikmann Víkings úr Reykjavík sem gekk til liðs við félagið á dögunum.

Miðjumaðurinn hefur verið einn besti leikmaður Íslandsmótsins undanfarin ár, en alls á hann að baki 159 leiki í efstu deild, 156 þeirra með Breiðabliki, þar sem hann hefur skorað 31 mark. Þá á hann að baki fjóra A-landsleiki fyrir Ísland.

Bærinn heillaði okkur

„Ég og kærastan mín, Anna Guðrún Alexandersdóttir, höfum rætt það okkar á milli undanfarin tvö ár að það væri gaman að prófa að búa í útlöndum með börnunum okkar og halda í smá ævintýri. Tilboðin hafa hins vegar ekki verið nægilega spennandi að mínu mati, þangað til núna. Það þurfti einhvern veginn allt að smella ef við ætluðum okkur að rífa fjölskylduna upp frá rótum á Íslandi.

Deildin þurfti að vera sterk, liðið gott og bærinn fjölskylduvænn. Við fórum og heimsóttum Halmstad saman þegar Höskuldur Gunnlaugsson vinur minn lék með liðinu og bærinn heillaði okkur mikið þá þannig að þetta tikkaði í öll boxin okkar og við ákváðum að slá til,“ segir Gísli, en þau Anna eiga tvö börn saman, Helenu fædda árið 2019 og Emil sem er fæddur árið 2022.

Nokkur félög sýndu áhuga

Í janúar bárust fréttir af því að Gísli gæti verið á förum frá Breiðabliki, en þá var byrjað að orða hann við sænska félagið.

„Hlutirnir gerðust frekar hratt eftir að ég heyrði af áhuga Halmstad. Nokkur félög sýndu mér áhuga í janúar en ég var ekki mikið að pæla í því, enda stór munur á því þegar félag sýnir áhuga og leggur svo fram alvöru tilboð. Í vikunni fór svo boltinn að rúlla og eftir að ég ræddi við þjálfara liðsins, Magnus Haglund, var þetta í raun aldrei spurning.

Hann vissi mjög mikið um mig og var búinn að fylgjast lengi með mér. Hann hefur fylgst vel með íslensku deildinni undanfarin ár og með okkur í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Hann vildi fá í liðið þá eiginleika sem ég bý yfir og það heillaði mig mikið hversu mikið hann vissi um mig sem leikmann.“

Langaði í nýja áskorun

Gísli er uppalinn í Kópavogi eins og áður sagði og þegar hann hefur farið annað hefur hann alltaf farið sem lánsmaður.

„Það var mjög erfið ákvörðun að yfirgefa Breiðablik en á sama tíma fann ég að mig langaði í nýja áskorun. Mér leið ofboðslega vel í Kópavoginum, enda mitt félag og ég hef í raun aldrei slitið naflastrenginn við félagið þó að ég hafi spilað annars staðar á láni. Allir strákarnir í liðinu eru bestu vinir manns og allt fólkið í kringum félagið líka ef svo má segja.

Maður er búinn að spila með mörgum af þessum strákum frá fimm ára aldri og það eru mjög spennandi hlutir í gangi í Kópavoginum núna. Þetta er mitt lið, stuðningsmennirnir eru frábærir og þetta er bærinn minn og það var mjög erfitt að kveðja. Ég tel mig samt vera fullmótaðan sem leikmaður. Ég er búinn að afreka það að verða Íslandsmeistari með liðinu og spila í riðlakeppni í Evrópudeildinni. Þetta var rétti tímapunkturinn að prófa eitthvað nýtt.“

Var ekki á mínum besta stað

Gísli verður þrítugur á árinu, en hann lék með Mjällby í sænsku B-deildinni á láni fyrri hluta tímabilsins 2019.

„Þetta gekk ekki upp hjá Mjällby á sínum tíma og það eru margar ástæður fyrir því. Persónulega var ég ekki á mínum besta stað. Kærastan mín var ólétt á þessum tíma og ég átti ekki bót fyrir boruna á mér. Ég skrifaði undir lánssamning við félagið og ég sá aldrei fyrir mér að festa rætur þarna á þeim tíma. Þegar allt kemur til alls tók ég þetta ekki nægilega alvarlega.

Núna er fjölskyldan að koma með mér út og aðstæðurnar eru allt öðruvísi og ég fékk auðvitað þriggja ára samning. Á sama tíma er þessi vika ekkert búin að vera neitt sérstaklega skemmtileg upp á það að gera að ég er búinn að fá að heyra það ansi oft hversu gamall ég er orðinn. Fyrirliðinn hérna verður hins vegar 42 ára á árinu, sem segir mér nú að maður eigi eitthvað eftir af þessum ferli. Það er aldrei of seint að taka skrefið út í atvinnumennsku og ég ætla mér að gefa því alvöru tækifæri í þetta skiptið og svo sjáum við til hvert það leiðir mig,“ bætir Gísli léttur við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason