Slyngur Tom Hollander leikur Truman Capote.
Slyngur Tom Hollander leikur Truman Capote. — AFP/Dimitrios Kambouris
Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar horft er á Tom Hollander í hlutverki Trumans Capotes í þáttunum Feud er ofleikur, slíkar eru tiktúrurnar og raddbeitingin. Það var því aðeins eitt í stöðunni. Fara á netið og finna viðtöl við manninn sjálfan

Karl Blöndal

Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar horft er á Tom Hollander í hlutverki Trumans Capotes í þáttunum Feud er ofleikur, slíkar eru tiktúrurnar og raddbeitingin.

Það var því aðeins eitt í stöðunni. Fara á netið og finna viðtöl við manninn sjálfan. Það reyndist lítið mál og viti menn, leikur Hollanders er svo sláandi að hann verður að viðfangsefninu.

Capote sló í gegn þegar hann skrifaði bókina Með köldu blóði. Þar beitir hann tækni skáldsögunnar til að skrifa sanna sögu tveggja morðingja, sem myrtu heila fjölskyldu með hrottalegum hætti.

Þættirnir fjalla hins vegar um það þegar Capote kom sér út úr húsi hjá helstu velunnurum sínum og trúnaðarvinum, hópi auðkvenna, með því að ljóstra upp um þeirra innstu leyndarmál í lítt dulbúnum kafla úr skáldsögu, sem birtist í bandarísku tímariti.

Eftir að hafa horft á tvo þætti er erfitt að sjá hvernig hægt eigi að vera að teygja þessa sögu mikið meira. Efnið er þó forvitnilegt og safaríkt og Capote bæði heillandi og fráhrindandi persóna, uppfullur af beittu og nöpru háði. En það mætti vera meiri húmor í þáttunum.