Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eldgos hófst milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks klukkan tvær mínútur yfir sex í gærmorgun á sömu slóðum og gaus 18

Eldgos hófst milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks klukkan tvær mínútur yfir sex í gærmorgun á sömu slóðum og gaus 18. desember sl. Gossprungan var um 3 km löng.

Hraun rann frá eldstöðinni í vesturátt yfir Grindavíkurveg fram hjá varnargörðum ofan við Svartsengi og laust fyrir hádegið rauf það Njarðvíkuræðina, sem sér Suðurnesjum fyrir heitu vatni. Ákvað ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum, í kjölfarið að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna vegna rofs á afhendingu á heitu vatni á Suðurnesjum.

Unnið var í gær við bráðabirgðavatnslögn sem búið var að koma í jörðu en reiknað er með að viðgerðinni ljúki í fyrsta lagi síðdegis í dag. Gert var ráð fyrir því að varabirgðir heits vatns myndu klárast í gærkvöldi og bjuggu íbúar Suðurnesja sig undir kalda nótt en spáð var miklu frosti.

Þegar leið á daginn dró úr krafti gossins og um klukkan 17 gaus á tveimur til þremur stöðum á gossprungunni. Hraunið rann um 4,5 kílómetra vegalengd í vestur áður en það stöðvaðist. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði hjá Háskóla Íslands, sagði í gær líklegt að eldgosinu lyki um helgina en þó mætti aftur búast við gosi á Reykjanesskaganum í ár.