Annir Ofnar voru bornir inn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í gær.
Annir Ofnar voru bornir inn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Mikil ásókn var í rafmagnsofna og -hitara í byggingarvöruverslunum á Suðurnesjum í gær eftir að Njarðvíkuræðin, sem sér Suðurnesjum fyrir heitu vatni…

Iðunn Andrésdóttir

idunn@mbl.is

Mikil ásókn var í rafmagnsofna og -hitara í byggingarvöruverslunum á Suðurnesjum í gær eftir að Njarðvíkuræðin, sem sér Suðurnesjum fyrir heitu vatni úr Svartsengi, fór undir hraun og rofnaði í hádeginu.

Ríkislögreglustjóri lýsti yfir neyðarstigi í kjölfarið og beindi þeim tilmælum til íbúa að notast aðeins við einn rafmagnsofn á hverja eign. Var þá gripið til þess ráðs að flytja ofna úr verslunum í Reykjavík til að selja í Reykjanesbæ.

Hvatt var til þess í facebookhópnum Aðstoð við Grindvíkinga að þeir sem ættu rafmagnsofna gæfu sig fram og legðu íbúum Suðurnesja lið með láni á slíkum tækjum á næstu dögum.

Guðbergur Reynisson, eigandi flutningafyrirtækisins Cargoflutninga, kveðst hafa verið snöggur að útvega sér og sínum ofna um morguninn en mikil örtröð hafi skapast í verslununum eftir því sem leið á daginn. Guðbergur tók að sér að flytja allnokkur bretti af ofnum frá Reykjavík í Reykjanesbæ fyrir Byko og kveðst einnig geta flutt ofna fyrir þá sem fái ofna að láni en ekki hafi tök á að sækja þá eða skila þeim sjálfir.

Aðspurður kveðst hann ekki hafa orðið sérstaklega var við að fólk hamstri ofnana, en segir aftur á móti leitt að sjá að sumir séu að reyna að hagnast á endursölu þeirra. „Mér finnst leiðinlegt að sjá fólk ætla sér að græða á því að aðrir séu í neyð,“ segir Guðbergur. „Það væri nú betra að lána fólkinu okkar.“

Höf.: Iðunn Andrésdóttir