Á Sólvangi Fjölskyldan á góðum degi fyrir framan hestamiðstöðina.
Á Sólvangi Fjölskyldan á góðum degi fyrir framan hestamiðstöðina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pjetur Nikulás Pjetursson fæddist 9. febrúar 1954 í Vesturbænum í Reykjavík, en ólst upp á Laugarásveginum frá þriggja ára aldri. „Laugardalurinn var þá tún og skurðir og var margt brallað. Hesthúsin í dalnum voru eins og segull fyrir lítinn…

Pjetur Nikulás Pjetursson fæddist 9. febrúar 1954 í Vesturbænum í Reykjavík, en ólst upp á Laugarásveginum frá þriggja ára aldri.

„Laugardalurinn var þá tún og skurðir og var margt brallað. Hesthúsin í dalnum voru eins og segull fyrir lítinn pjakk, sem elskaði að klappa hestunum og fylgjast með þeim úti í gerðum.

Þegar ég var sjö ára urðu foreldrar mínir veikir og var ég sendur í sveit norður í Skagafjörð að Þverá í Blönduhlíð til bláókunnugs fólks, þeirra Arnfríðar Jónasdóttur og Hannesar Stefánssonar, sem tók mér opnum örmum. Í átta ár í röð fór ég í Skagafjörðinn á vorin og var þar allt sumarið. Adda og Hannes voru mér sem aðrir foreldrar. Sonur Öddu, Hreinn Jónsson, var mikill hagleiksmaður, sem kenndi mér mikið og má segja að þetta hafi verið mjög dýrmætur skóli og lífsreynsla.

Á Þverá kynntist ég góðum hestum sem smituðu mig af hestaveikinni og fyrsta hestinn minn keypti ég fyrir fermingarpeninginn minn á Þverá, hann Tvist sem ég tamdi alveg sjálfur og var með hann í Reykjavík á veturna. Þessi hestur var frábær reiðhestur og áttum við ótal margar gleðistundir saman.“

Pjetur stundaði barna- og grunnskóla í Laugalækjarskóla, en tók landspróf á Núpi í Dýrafirði. Leiðin lá svo í Menntaskólann í Reykjavík og þar kláraði hann stúdentinn. Pjetur fór síðan í listaháskóla í Aix-en- Provence í Frakklandi áður en hann fór í Háskóla Íslands og hóf nám í viðskiptafræði en fór að vinna við fjölskyldufyrirtækið PON, Pétur O. Nikulásson ehf., og starfaði þar sem framkvæmdastjóri í rúm 40 ár.

Alla tíð hefur Pjetur verið mikið í félagsmálum hestamanna. Hann hefur verið formaður hestamannafélagsins Sörla, formaður Hestaíþróttadómarafélags Íslands og formaður landsliðsnefndar LH í sex ár og á þremur heimsmeistaramótum.

„Dómsstörf í hestaíþróttum hafa alltaf verið brennandi áhugamál hjá okkur í fjölskyldunni. Ég tók alþjóðlegt dómarapróf í hestaíþróttum og hef dæmt mikið á Íslandi og víðs vegar í Evrópu.

Hestamennska er okkar aðaláhugamál og til að geta lifað drauminn keyptum við jörðina Sólvang við Eyrarbakka árið 2000 og fluttum þangað 2001. Á Sólvangi rekum við hestamiðstöð og leigjum út lítil hús til ferðamanna. Þetta reyndist meiri vinna en rómantík, en það er dásamlegt að búa í sveitinni innan um öll dýrin stór og smá.“

Nýlega hófu þau hjónin ræktun á Cairn Terrier-hundum. „Lítið hefur verið af þeim hérna á Íslandi og fæddust fimm sprækir, æðislegir hvolpar hjá okkur 19. nóvember 2023. Cairn Terrier-hundar eru greindustu og skemmtilegustu hundar sem við höfum kynnst og gera lífið enn skemmtilegra.“

Fjölskylda

Eiginkona Pjeturs er Elsa Magnúsdóttir, f. 1.1. 1957. „Við gengum í hjónaband 1978 og höfum átt yndislegan tíma saman og vann ég stóra vinninginn þegar ég hitti hana. Hún lærði hárgreiðslu og er meistari í þeirri grein. Hún átti og rak hárgreiðslustofuna Elsu um árabil en hestarnir toguðu í Elsu og hefur hún verið farsæll keppandi og tamningamaður. 49 ára fór hún í reiðkennaranám á Hólum í Hjaltadal og útskrifaðist þaðan sem reiðkennari.“ Foreldrar Elsu voru hjónin Magnús K. Jónsson húsasmíðameistari, f. 19.2. 1920, d. 2.9. 2002, og Unnur Halla Lárusdóttir húsmóðir, f. 26.9. 1916, d. 20.12. 2004. Þau bjuggu lengst af í Reykjavík.

Einkadóttir Pjeturs og Elsu er Sigríður Pjetursdóttir reiðkennari, f. 12.12. 1979. „Hún býr á Sólvangi og rekur „The Icelandic horse center“. Hún á tvær yndislegar stelpur, Bertu Sóleyju Grétarsdóttur, f. 14.2. 2008, fótboltastelpu, og Elsu Kristínu Grétarsdóttur, f. 7.8. 2009, sem er hestastelpa af öllu hjarta. Það eru forréttindi að hafa þær hérna í 50 metra fjarlægð.“

Systur Pjeturs eru Ingibjörg Ásta Pétursdóttir veitingamaður, f. 10.6. 1948, og Gróa Þóra Pétursdóttir líffræðingur, f. 20.7. 1951. Þær búa báðar í Vesturbæ Reykjavíkur.

Foreldrar Pjeturs voru hjónin Pétur O. Nikulásson stórkaupmaður, f. 6.7. 1921, d. 23.9. 1998, og Sigríður Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 21.5. 1926, d. 18.2. 2017. Þau bjuggu alla sína tíð í Reykjavík, frá 1957 til dánardags á Laugarásveginum.