Forstjóri Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi, við verksmiðjuna.
Forstjóri Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi, við verksmiðjuna. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi, áætlar að skerðingar Landsvirkjunar muni kosta verksmiðjuna um tvo milljarða króna í töpuðum útflutningstekjum. „Við höfum slökkt á stærsta ofninum og dregið úr afhendingu til viðskiptavina

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi, áætlar að skerðingar Landsvirkjunar muni kosta verksmiðjuna um tvo milljarða króna í töpuðum útflutningstekjum.

„Við höfum slökkt á stærsta ofninum og dregið úr afhendingu til viðskiptavina. Við erum að horfa á framleiðslutap upp á um 50 milljónir norskra króna í desember og um 100 milljónir norskra króna í janúar,“ segir Álfheiður, en þessar upphæðir samsvara tæpum 2 milljörðum íslenskra króna.

Vegna skerðinganna sem hófust 8. desember hefur framleiðslan hjá kísilmálmverksmiðjunni á Grundartanga dregist saman um tíu þúsund tonn.

Áætlað 23 milljarðar

Til að setja þetta í samhengi var áætlað að útflutningsverðmæti afurða Elkem yrði um 23 milljarðar íslenskra króna í ár og nemur tekjutapið því tæplega 10% af árlegu útflutningsverðmæti. Um 170 manns starfa hjá Elkem og hefur engum starfsmanni verið sagt upp.

„Skerðingarnar hafa haft mikil áhrif hjá okkur. Við höfum haldið öllu starfsfólki okkar í vinnu og höfum dregið úr yfirvinnu. Við höfum því reynt að gera þetta þannig að það hafi sem minnst áhrif á starfsfólkið en það er mjög erfitt. Þetta er önnur skerðingin á þriggja ára tímabili og skerðingar eiga ekki að koma upp nema á 10-15 ára fresti í þessu lokaða raforkukerfi. Þetta er því afleit staða,“ segir Álfheiður.

Elkem þurfti síðast að draga úr framleiðslu vegna skerðinga árið 2022, en þær stóðu yfir í um mánuð.

Erfitt að segja

„Þetta er miklu stærri skerðing. Ég vona að það sjái fyrir endann á þessu en það er erfitt að segja. Svona er náttúran,“ segir Álfheiður og vísar til stöðu miðlunarlóna. M.a. hefur innrennsli í Þórisvatn verið með því minnsta sem sést hefur.

„Við erum ekki með ótrygga orku í samningum okkar. Þetta er allt forgangsorka en Landsvirkjun hefur skerðingarheimildir og endurkauparétt,“ segir Álfheiður. Með því vísar hún til þess að Landsvirkjun hefur virkjað ákvæði í orkusamningum við Elkem sem gerir orkufyrirtækinu kleift að kaupa forgangsorku til baka frá kísilmálmverksmiðjunni, á fyrir fram umsömdu verði, að því er fram kemur á vef Landsvirkjunar.