Íslendingar verða að semja sig að nýjum og uggvænlegum veruleika

Enn og aftur hefur brotist út eldgos á Reykjanesskaga, að þessu sinni nánast fyrirvaralaust. Mjög er úr gosinu dregið þegar þetta er ritað og útlit fyrir að það muni ekki standa lengi yfir, þótt jarðfræðingar hafi skiljanlega ótal fyrirvara um þróun þess.

Áhrifin eru hins vegar mikil og mikið tjón á mikilvægum innviðum. Grindavíkurvegur fór undir hraunjaðarinn og viðbrögðin utan úr heimi víða mikil við að sjá afleggjarann í Bláa lónið krauma undir hrauntungunni og stóreflis hraunklakka á ferð í baksýn.

Fyrir Suðurnesjamenn var mesta áfallið þegar hraunið flæddi yfir Njarðvíkuræð, sem sér þeim fyrir heitu vatni. Neyðarstigi var lýst yfir, enda ekkert gamanmál að missa hita af húsum, allra síst í miðjum frostakafla, sem standa mun út helgina.

Þrátt fyrir að harðduglegir starfsmenn HS veitna leggi sig alla fram verður ný heitavatnslögn tæplega komin í gagnið fyrr en í kvöld, mögulega síðar. Ekki munaði heldur miklu að hraunið grandaði Svartsengislínu 1, sem hefði gert illt enn verra.

Jarðfræðingar hafa talað um að nýtt eldsumbrotatímabil á Reykjanesskaga sé hafið og að það kunni að vara áratugum saman, jafnvel í aldir líkt og raunin hefur verið oftsinnis áður. Þetta gos virðist enn ein staðfesting þess og hefur þó aðeins eitt eldstöðvakerfi rumskað enn.

Með stuttu millibili höfum við horft upp á tiltölulega lítil og skammæ gos, sem þó hafa haft gríðarleg áhrif, sérstaklega auðvitað á Grindvíkinga, sem þurft hafa að kveðja bæinn sinn í bili, mögulega um alla framtíð.

Vegna áhrifa á innviði er auðvelt að ímynda sér hvernig stærra gos gæti leitt til mun meiri rýminga á Suðurnesjum öllum, þar á meðal í fjórða fjölmennasta bæ landsins, og sett utanlandssamgöngur úr öllu lagi. Og þótt það fari allt vel í þetta sinn, þá er ekki víst að það fari svo vel næst, hvað þá í öll þau skipti, sem gjósa mun á þessu nýja eldvirknitímabili.

Undir slík ósköp þurfa Íslendingar að búa sig, búa í haginn og hafa fjárhagslegt borð fyrir báru. Eiga varaleiðir og getu til þess að bregðast við stórfelldum og fyrirvaralausum áföllum og fólksflótta undan náttúruöflunum.

Það er ekki eftir neinu að bíða.